Sigrún Ámundadóttir fæddist á Vatnsenda í Villingaholtshreppi 28. mars 1934. Hún lést á Hrafnistu Laugarási 15. maí 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Ámundi Guðmundsson, f. 12. október 1902, d. 25. ágúst 1948, og Kristín Guðmundsdóttir, f. 24. júlí 1910, d. 2. febrúar 1963, bændur á Vatnsenda. Systkini Sigrúnar eru Guðmundur, f. 1932, d. 2019, Ingibjörg, f. 1936, Gestur, f. 1940, og Helgi, f. 1947.

Sigrún giftist 31. desember 1958 Friðbirni Þór Jónssyni f. 18. júlí 1936. Foreldrar hans voru Hrefna Jóhannsdóttir, f. 17. des. 1905, d. 3. jan. 1993, og Jón Friðbjörnsson bóndi, f. 27. júlí 1897, d. 1. okt. 1975.

Börn Sigrúnar og Friðbjörns eru: 1) Ámundi, f. 1957, giftur Margréti Traustadóttur, f. 1956, börn þeirra eru Sigrún, Ari Trausti og Guðný Rós. 2) Jóhann, f. 1959, giftur Regínu Sveinsdóttur, f. 1955, börn hans eru Hrefna, Helgi Örn og Björn Þór. 3) Kristín, f. 1960. 4) Rúnar Þór, f. 1964, d. 2018.

Barnabarnabörn Sigrúnar og Friðbjörns eru tíu talsins.

Sigrún ólst upp á Vatnsenda en fluttist ung vestur og starfaði um tíma í bakaríi á Ísafirði. Eftir dvölina fyrir vestan fluttist hún til Reykjavíkur þar hún hún kynntist Friðbirni og hófu þau búskap, fyrstu árin í þeirra búskap starfaði hún við þrif í Kjötbúð Tómasar við Laugaveg. Lengst af starfaði hún sem sjúkraliði á Borgarspítalanum á deild A3.

Sigrún var alla tíð mikill dýraunnandi sem hafði fylgt henni frá æsku hennar á Vatnsenda. Hún hafði mikinn áhuga á íþróttum og mátti ekki missa af leikjum landsliða, hvort sem það var handbolti eða fótbolti. Sigrún studdi stolt Fylki, hverfislið sitt í Árbænum.

Útför Sigrúnar fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 28. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er svo lýsandi að ég brosi með sjálfum mér þegar ég hugsa til allra þeirra stunda sem ég hef átt með þér elsku amma mín. Öll okkar samvera er lituð af hlýju og ást sem ég mun ætíð varðveita. Nú undir það síðasta var minni þitt ekki gott, því hafði maður vanist ákveðnum takti í samskiptum við þig. Mér er svo minnisstætt þegar ég heimsótti þig eitt sinn á Hrafnistu þar sem þú dvaldir. Sem fyrr sátum við hlið við hlið og þú hélst þéttingsfast með báðum höndum um hendur mínar. Þú horfðir til mín og spurðir: „Hvað er að frétta af Vatnsenda?“ Ég vissi ekki alveg hvað þú áttir við en svaraði á þá leið að ég byggi þar einmitt núna, í Vatnsendahverfinu og það væri orðið rótgróið íbúðahverfi, með alls konar stoðþjónustu, verslunum og skólum. Svipurinn á þér leyndi ekki undrun þinni, hakan fór svo gott sem niður í gólf, svo hissa varstu. Því næst spurðir þú mig: „Vinnur þú hér, vinur?“ Mér tókst ekki að rugla þig meira en svo. Þannig að við getum litið broslega á þennan misskilning. Þú áttir vissulega við æskuslóðir þínar á Vatnsenda í Villingaholtshreppi í Árnessýslu en ég var að segja þér frá Vatnsendahverfinu í Kópavogi.

Ég kveð þig, elsku amma Sigrún, með vísu sem ég samdi eftir heimsókn til þín núna í vor:

Þín augu sjá mig en muna fátt,

minningar sem dagar upp í móðu.

Með hönd í lófa ég lofa þú átt,

amma mín, ljúfu stundirnar góðu.

Björn Þór Jóhannsson.

Elsku amma mín, þá er komið að kveðjustund. Ég á margar góðar minningar, allar ferðirnar sem farnar voru í Húsafell. Var þá gist í tjaldi og líka farið í sumarbústað. Margt var gert, farið í sund og ís á eftir, já þetta voru góðar stundir. Ég og tvíburasystir mín áttum heima fyrir austan, í Neskaupstað. Þegar við komum suður var alltaf gist hjá þér og afi náði í okkur út á flugvöll. Þú eldaðir góðan mat, alltaf að baka, marmarakakan og appelsínukakan voru svo góðar. Ég kom suður til að fara iðnskólann, var hjá þér og afa einn vetur. Það voru góðar stundir. Ég á margar góðar minningar úr Hraunbænum.

Takk, elsku amma mín, fyrir allar þær samverustundir, við sjáumst síðar í langa ferðalaginu okkar allra.

Helgi Örn Jóhannsson.