Fjármálaráðuneytið Ríkisstarfsfólki fjölgaði eftir sameiningu stofnana.
Fjármálaráðuneytið Ríkisstarfsfólki fjölgaði eftir sameiningu stofnana. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sameining stofnana ríkisins hefur ekki skilað sér í aukinni hagræðingu í starfsmannafjölda stofnana. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við skriflegri spurningu Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um…

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Sameining stofnana ríkisins hefur ekki skilað sér í aukinni hagræðingu í starfsmannafjölda stofnana.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við skriflegri spurningu Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um fjölda starfsmanna fyrir og eftir sameiningu á Framkvæmdasýslu ríkisins og Ríkiseignum fyrir þremur árum. Í svörum ráðherra kemur m.a. fram að eftir sameininguna hafi starfsmönnum fjölgað en ekki fækkað eins og ætla mætti.

„Ríkið er að sameina opinberar stofnanir án þess að það náist hagræðing í fækkun starfsmanna. Hvernig má það vera?“ spyr Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið þegar hún er spurð nánar um málið.

„Ég spyr sjálfa mig hver samlegðaráhrifin séu af því að sameina opinberar stofnanir ef það skilar sér ekki í fækkun starfsmanna. Hvers vegna er ríkið í nafni hagræðingar að sameina stofnanir, en samt næst engin hagræðing í færra starfsfólki? Það er ótrúleg niðurstaða að mínu mati,“ segir Diljá Mist.

Of margir starfi hjá ríkinu

Hún segir að fyrrnefnt svar ráðherra sé í samræmi við önnur svör sem hún hafi fengið við sambærilegum spurningum. Þar nefnir hún sem dæmi að starfsfólki hafi einnig fjölgað eftir að embætti Ríkistollstjóra og Skattsins runnu saman síðla árs 2019.

Diljá Mist telur að það hljóti að vera umhugsunarvert fyrir stjórnvöld, þar sem hinu opinbera sé legið á hálsi fyrir að vera of stór og svifaseinn vinnustaður með of marga starfsmenn innanborðs.

„Þegar almenningur hugsar um opinbera starfsmenn koma helst til greina lögreglumenn eða heilbrigðisstarfsfólk. Í þessu samhengi gleymist iðulega allt starfsfólkið innan stjórnsýslunnar,“ bendir hún á.

Horft fram hjá samlegðaráhrifum við sameiningu

Diljá Mist segir að makalaust sé að ríkið nýti ekki þau tækifæri sem gefast við sameiningu stofnana til að hagræða í fjölda starfsmanna. Að hennar mati bendir þróunin til að ríkið sé komið á sjálfstýringu og muni halda áfram að þenjast meira út. Í því sambandi bendir hún á að opinberir starfsmenn hafi sterka lagavernd sem geri það að verkum að ríkinu sé ókleift að fækka starfsfólki, nema það sé gert í nafni hagræðingar við sameiningu stofnana.

„Sameining stofnana er bæði góð og eðlileg leið til að ná fram markmiðum um aukna hagræðingu í ríkisrekstrinum, sem næst meðal annars með fækkun starfsmanna,“ segir Diljá Mist.

Hún álítur að lokum að stjórnvöld horfi framhjá samlegðaráhrifum sem eiga að nást með sameiningum stofnana og í öllu falli sé ekki vilji til staðar hjá ríkinu að hagræða með þessum hætti.

Sameining stofnana

Starfsmönnum hafi fjölgað þrátt fyrir sameiningu stofnana.

Spyr sig hver samlegðaráhrifin séu af sameiningu stofnana ef það skilar sér ekki í fækkun starfsmanna.

Telur að ríkið haldi áfram að þenjast út.

Ríkið skortir vilja til að hagræða með þessum hætti.