Elín Sigríður Ólafsdóttir fæddist í Hafnarfirði 25. júní 1946. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 14. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Ólafur Guðjónsson bifvélavirki, f. í Sandvík, Eyrarbakka, 11.6. 1911, d. 22.10. 1987, og Stefanía Ingibjörg Guðmundsdóttir húsmóðir, f. í Neskaupstað 8.10. 1917, d. 13.11. 2008.

Bræður Elínar eru Þórir Guðmundur, f. 22.6. 1939, d. 9.6. 1996, dóttir hans er Þórey Svanfríður, og Guðjón Magnús, f. 19.7. 1956, maki Málfríður Arna Arnórsdóttir, f. 11.10. 1962. Synir hans eru Ólafur Ingi, Davíð Eiríkur, Atli Freyr og Gunnar Helgi.

Elín giftist þann 7.7. 1973 Jónasi Gestssyni frá Stykkishólmi, f. 10.6. 1940. Elín og Jónas eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Jónas Gestur, f. 23.4. 1970, maki Steinunn Dröfn Ingibjörnsdóttir, f. 17.5. 1975, og eiga þau fjórar dætur, Elínu Ósk, Höllu Sóleyju, Ingu Maríu og Jóhönnu Mjöll, og eitt barnabarn. 2) Berglind Stefanía, f. 4.5. 1973, maki Þór Sigurþórsson, f. 9.2. 1965. Berglind á tvö börn, Stefán Arnar og Hörpu Rut. Þór á tvo syni, Arnar Inga og Ellert Andra, og eitt barnabarn. 3) Úlfar Andri, f. 10.12. 1985, maki Hólmfríður Hulda Pétursdóttir, f. 17.7. 1988, og eiga þau tvö börn, Hafþór Hrafn og Unni Líf. Hólmfríður á einn son, Natan.

Sonur Jónasar frá fyrra sambandi er Kristján Eggert, f. 19.12. 1960, maki hans er Valgerður Vilmundardóttir, f. 16.3. 1962, og eiga þau þrjú börn, Björgu Árdísi, Halldór Örn og Jónas Má, og fimm barnabörn.

Elín lauk prófi frá Flensborgarskóla, starfaði hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og síðan hjá Loftleiðum til ársins 1969. Eftir það tóku við húsmóðurstörfin.

Útför Elínar fer fram frá Seljakirkju í dag, 28. maí 2024, klukkan 15.

Elsku mamma.

Núna þegar ég sest niður og skrifa minningar um þig kemur fyrst upp í hugann þakklæti. Þakklæti fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir mig og fyrir þá sem þér stóðu næst. Æskuminningarnar streyma fram, þú varst alltaf til staðar fyrir okkur systkinin, tókst vel á móti okkur eftir skóla, gafst okkur að borða áður en við dembdum okkur í heimalærdóminn þar sem þú varst alltaf svo hjálpsöm og hvetjandi. Spilastundirnar okkar voru mér svo kærar, við spiluðum oft og sátum oft lengi fram eftir kvöldi við spilin. Þú hafðir gaman af því að baka og uppáhaldskakan mín, sólskinskaka, var alltaf bökuð þegar ég átti afmæli sem strákur og er sú kaka alltaf á borðum í dag þegar eitthvað er um að vera í lífi fjölskyldunnar. Minningarnar eru margar og þær fylla mig hlýju, allar ferðirnar út fyrir jökul í berjamó þegar við bjuggum fyrir vestan, veiðiferðirnar í Búðardalsá voru skemmtilegar, sumarbústaðaferðirnar og utanlandsferðir.

Já mamma, takk fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um þig og takk fyrir að hjálpa mér í gegnum lífið með óbilandi stuðningi þínum í gegnum tíðina.

Jónas Gestur.

Elsku mamma, í dag fylgjum við þér til grafar.

Síðustu ár hafa verið þér erfið vegna veikinda en hér áður fyrr hafðir þú mikla ánægju af dansi, alls kyns handavinnu eins og t.d. að sauma, prjóna, mála á postulín og keramik og fleira. Þessi listaverk hafa fengið að prýða heimilin okkar í gegnum árin.

Einnig varstu mikil húsmóðir en heimilið var alltaf hreint og fínt, heitur matur í hádeginu og nýbökuð brúnterta eða annað bakkelsi með kaffinu. Eftir að ég flutti að heiman gat ég alltaf leitað ráða við matseld, bakstur eða annað og ekki kom ég að tómum kofunum þar.

Þær voru ófáar ferðirnar sem við fórum í veiði, sumarbústaði, berjamó og sunnudagsbíltúra. Þessum ferðum fækkaði þó ört með árunum eftir að heilsu þinni fór að hraka.

Það er svo sárt að kveðja þig en ég veit að þú varst sátt við að fara enda voru veikindin búin að taka sinn toll og nú ertu laus við verkina og komin til ömmu, afa og Þóris bróður þíns þar sem tekið verður vel á móti þér. Við munum varðveita minningu þína í hjörtum okkar.

Þín dóttir,

Berglind.

Elsku mamma, amma og tengdamamma.

Með nokkrum hlýjum orðum langar okkur að þakka þér fyrir allar minningarnar sem við náðum að skapa með þér. Hver stund með þér var okkur dýrmæt, hvert faðmlag hlýtt, hvert samtal skilningsríkt. Við vorum svo lánsöm að fá að eyða góðum jólum og afmælum með þér. Hver heimsókn til ykkar hjóna var hlý og við fórum ekki svöng út frá ykkur. Krakkarnir urðu allt í einu alltaf svöng hjá ykkur, enda vissu þau að þau myndu fá eitthvað gott og sætt að borða.

Þú varst ekki bara mamma, amma og tengdamamma. Þú varst líka vinkona sem var góð í að hlusta og akkeri fyrir óörugga tengdadóttur í fjölmenni. Þótt við sjáum ekki fótspor þín á þessari jörð aftur, þá hefur sál þín sett spor í hjörtu okkar að eilífu. Þín verður sárt saknað.

Úlfar Andri, Hólmfríður Hulda, Hafþór Hrafn,
Unnur Líf og Natan.

Elsku amma mín, ég er svo þakklát fyrir allan þann tíma sem við fengum saman, skvísuhittingarnir voru mínar uppáhaldsstundir með þér þar sem við lituðum á okkur augabrúnirnar, lökkuðum á okkur neglurnar og töluðum um allt og ekkert. Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og allar minningarnar sem verða eftir.

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Harpa Rut Harðardóttir.