Madrid Selenskí með Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar.
Madrid Selenskí með Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar. — AFP/Oscar del Pozo
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hvatti vesturveldin í gær til að beita öllum ráðum til að þvinga Rússa til friðarviðræðna í heimsókn sinni til Madrid á Spáni í gær, þar sem forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, hét því að veita einn milljarð evra í fjárstuðning til Úkraínu á þessu ári

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hvatti vesturveldin í gær til að beita öllum ráðum til að þvinga Rússa til friðarviðræðna í heimsókn sinni til Madrid á Spáni í gær, þar sem forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, hét því að veita einn milljarð evra í fjárstuðning til Úkraínu á þessu ári.

„Við þurfum öryggi og að þvinga Rússa til friðar með öllum ráðum,“ sagði Selenskí á sameiginlegum blaðamannafundi með Sanchez. Hann hélt áfram og sagði að Úkraína þyrfti að fá betri tækifæri til að geta varist Rússum og að „loftvarnir væru varnir, ekki árásarvopn“. Ítrekaði hann kröfu sína um loftvarnakerfi sem gætu stöðvað þær þrjú þúsund sprengjur sem falla á Úkraínu í hverjum mánuði.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa þrýst á Bandaríkjamenn að leyfa þeim að nota langdræg vopn innan landamæra Rússlands, en stjórnvöld í Washington hafa verið treg til þess vegna þess að þeir vilja ekki lenda í beinum átökum við Rússa.

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins hvatti bandamenn Úkraínu í gær til að endurskoða takmarkanir sínar á því að Úkraína geti notað vopn frá þeim til að gera atlögu innan rússnesku landamæranna. „Ef Úkraína getur ekki ráðist á skotmörk á rússnesku yfirráðasvæði bindur það aðra hönd Úkraínumanna og gerir þeim mjög erfitt fyrir að halda uppi vörnum.“

David Cameron utanríkisráðherra Breta sagði fyrr í mánuðinum að Úkraína hefði fullan rétt á því að nota eldflaugar frá Bretum til að ráðast á rússneska hryðjuverkamenn. Sanchez varðist svara um þetta í gær, en Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu sagði í sjónvarpi á sunnudag að hún styddi ekki árásir innan rússnesku landamæranna.