[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skoðanakannanir í kosningabaráttu eru einkum gagnlegar fyrir framboðin, en þær eru líka forvitnilegar fyrir kjósendur um hvernig gangi, jafnvel til þess að meta hvort menn eigi að nenna á kjörstað þegar þar að kemur

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Skoðanakannanir í kosningabaráttu eru einkum gagnlegar fyrir framboðin, en þær eru líka forvitnilegar fyrir kjósendur um hvernig gangi, jafnvel til þess að meta hvort menn eigi að nenna á kjörstað þegar þar að kemur.

Þær mælingar eru þó aldrei hárnákvæmar, birta aðeins afstöðu svarenda, en með því að vigta svörin eftir hópum (t.d. eftir aldri, kyni, búsetu, menntun, tekjum eða ámóta) má láta svarendahópinn samsvara fólki á kjörskrá vel og fá nokkuð glögga hugmynd um fylgisþróun og afstöðu almennings í heild.

Eftir sem áður eru reiknuð út vikmörk, sem sýna með nokkurri vissu það fylgisbil sem frambjóðandi eða flokkur gæti hafa vænst þegar könnunin var gerð. Vikmörk geta verið býsna rúm, eins og sést á því að Halla Hrund var í síðustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið talin vera með 21% fylgi, en það gæti verið svo hátt sem 23,2% eða svo lágt sem 19,0% sem er ríflega 4% bil. Ef svo mjótt er á munum blasir við að úrslitin munu ráðast í þeirri þykku þoku vikmarka.

Þegar litið er á fylgisþróun þeirra fjögurra frambjóðenda, sem nú njóta mests fylgis, blasir vandinn við, sem er að þeir virðast allir hafa verið að færast á sömu slóðir og nær að tala um þrísýnu en tvísýnu, þó vitaskuld geti allt breyst næstu daga.

Þar þarf þó ekki allt að vera sem sýnist, því hin ýmsu rannsóknafyrirtæki eru ekki að fá sömu mælingar, jafnvel ekki sömu dagana. Um leið má sjá að Prósent mælir Katrínu Jakobsdóttur jafnan töluvert lægri en hin fyrirtækin gera, en þar virðist Halla Hrund helst njóta þess í hærra fylgi.

Þetta skiptir ljóslega máli. Miðgildi Katrínar hjá Prósenti er 21% en hjá hinum fyrirtækjunum er það 27%. Reynist þau hafa réttara fyrir sér myndi það duga Katrínu til sigurs síðustu vikur.

Fyrir þessum mun geta verið gildar aðferðafræðilegar ástæður; úrtök eru mismunandi og vigtunin sömuleiðis, en Prósent vegur t.d. ekki menntunarstig líkt og Maskína og Gallup. Hvort reynist nær lagi kemur í ljós um helgina.