Markaskorarar Nikulás Val Gunnarsson og Þórður Gunnar Hafþórsson, sem skoruðu báðir fyrir Fylki, í baráttu við Atla Arnarson í Árbænum.
Markaskorarar Nikulás Val Gunnarsson og Þórður Gunnar Hafþórsson, sem skoruðu báðir fyrir Fylki, í baráttu við Atla Arnarson í Árbænum. — Morgunblaðið/Eggert
Fylkismenn unnu langþráðan sigur í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöld þegar þeir sigruðu HK, 3:1, í lykilleik botnbaráttunnar í Árbænum. Fylkir var aðeins með eitt stig eftir fyrstu sjö leikina og hefði með tapi misst Kópavogsliðið níu stigum frá sér

Fylkismenn unnu langþráðan sigur í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöld þegar þeir sigruðu HK, 3:1, í lykilleik botnbaráttunnar í Árbænum.

Fylkir var aðeins með eitt stig eftir fyrstu sjö leikina og hefði með tapi misst Kópavogsliðið níu stigum frá sér.

Nú skilja hins vegar aðeins þrjú stig að fjögur neðstu liðin, HK, Vestra, KA og Fylki, og óhætt er að segja að fallbaráttan í deildinni hafi galopnast með þessum úrslitum.

Þetta eina stig sem Fylkismenn fengu í fyrstu sjö leikjunum gegn Val, endurspeglaði ekki leiki þeirra en ljóst er að sigurinn er þeim gríðarlega dýrmætur og tímabær.

HK-ingar komu verulega á óvart með sigrunum gegn Víkingi og KR en halda nú uppteknum hætti frá því í fyrra með að tapa stigum til liðanna sem þeir eru helst í baráttu við. HK hefur tapað fyrir bæði Fylki og Vestra og gert jafntefli við KA og aðeins fengið eitt stig í þessum þremur mikilvægu leikjum.

Danski miðjumaðurinn Matthias Præst var í stóru hlutverki hjá Fylki, með bæði mark og stoðsendingu, og þá er ljóst að endurkoma fyrirliðans Ragnars Braga Sveinssonar, sem missti af fyrstu sex leikjunum, hefur haft góð áhrif á Fylkisliðið.

Birkir Valur Jónsson minnkaði muninn fyrir HK í 3:1 með skallamarki eftir hornspyrnu en nær komst Kópavogsliðið ekki á lokakafla leiksins.