[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir í þríþraut á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóðaþríþrautarsambandið staðfesti í gær að hún yrði ein af 55 konum sem myndu keppa í greininni á leikunum. Guðlaug Edda fær boðssæti en hún er komin í 143

Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir í þríþraut á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóðaþríþrautarsambandið staðfesti í gær að hún yrði ein af 55 konum sem myndu keppa í greininni á leikunum. Guðlaug Edda fær boðssæti en hún er komin í 143. sæti heimslistans í greininni eftir góðan árangur á þremur mótum í Asíu í þessum mánuði. Hún verður þar með fyrst Íslendinga til að keppa í þríþraut á Ólympíuleikum.

Guðlaug Edda fékk fréttirnar í gær þegar hún var í flugi á milli Japan og London. Morgunblaðið náði sambandi við hana þar. „Ég er í spennufalli og sjokki og veit ekki hvort ég eigi að gráta eða brosa,“ sagði þríþrautarkonan og ólympíufarinn.

Spánverjinn Unai Emery framlengdi í gær samning sinn sem knattspyrnustjóri enska félagsins Aston Villa til fimm ára, eða til ársins 2029. Villa kom mjög á óvart undir hans stjórn í vetur þegar liðið náði fjórða sæti úrvalsdeildarinnar og tryggði sér þar með keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu næsta vetur.

Tjörvi Týr Gíslason, línumaður Vals sem vann Evrópubikarinn í handbolta með liðinu um helgina, er á leið til þýska félagsins Bergischer, að sögn hlaðvarpsins Handkastið. Bergischer, undir stjórn Arnórs Þórs Gunnarssonar, er í harðri baráttu um að halda sæti sínu í efstu deild Þýskalands.

Cristiano Ronaldo sló í gær markametið í sádiarabísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar hann skoraði tvívegis í sigri Al Nassr á Al Ittihad í lokaumferðinni, 4:2. Ronald skoraði þar með 35 mörk í 32 leikjum í deildinni á tímabilinu en Al Nassr endaði í öðru sæti, fjórtán stigum á eftir meisturum Al Hilal.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er sagður líklegur til að láta af störfum hjá ensku meisturunum eftir næsta tímabil, vorið 2025, en enskir fjölmiðlar greindu frá þessu í gær. Hann hefur stýrt liðinu frá 2016 og það hefur m.a. orðið sex sinnum enskur meistari undir hans stjórn, ásamt því að vinna Meistaradeildina í fyrra.

Vafi leikur á hvort Manchester United fái að leika í Evrópudeild karla í fótbolta næsta vetur. Fyrirtækið INEOS sem á 27 prósenta hlut í félaginu á einnig franska félagið Nice, sem fer í Evrópudeildina. Fari eignarhald INEOS yfir 30 prósent mega félögin ekki taka þátt í sömu keppni.

Emil Hallfreðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, var á sunnudaginn tekinn inn í frægðarhöll ítalska félagsins Hellas Verona en hann var heiðraður fyrir leik liðsins gegn Ítalíumeisturum Inter Mílanó í lokaumferð A-deildarinnar. Félagið tekur einn eldri leikmann inn í frægðarhöllina á hverju ári. Emil lék með Hellas Verona frá 2010 til 2016 og fór með liðinu úr C-deild upp í A-deildina þar sem hann spilaði þrjú tímabil með félaginu.