Rafah Palestínumenn koma saman í tjaldbúðum þar sem árásin var.
Rafah Palestínumenn koma saman í tjaldbúðum þar sem árásin var. — AFP/Eyad Baba
Mikil reiði einkenndi viðbrögð alþjóðasamfélagsins í gær, eftir árás Ísraelshers á borgina Rafah í fyrrakvöld. Eldur kviknaði í flóttamannabúðum eftir árásina og var talið að 45 manns hefðu látist og 249 manns særst í árásinni, að sögn…

Mikil reiði einkenndi viðbrögð alþjóðasamfélagsins í gær, eftir árás Ísraelshers á borgina Rafah í fyrrakvöld. Eldur kviknaði í flóttamannabúðum eftir árásina og var talið að 45 manns hefðu látist og 249 manns særst í árásinni, að sögn heilbrigðisráðuneytis Gasasvæðisins, sem er á valdi Hamas-samtakanna.

Árásin var gerð seint um kvöldið eftir að Hamas-samtökin skutu átta eldflaugum í átt að Tel Avív, en Ísraelsher náði að koma í veg fyrir að mannfall yrði af völdum árásarinnar.

Engin örugg svæði

Bandaríkjamenn, helstu bandamenn Ísraelsríkis, sögðu í gær að herinn yrði að gæta þess að almennir borgarar féllu ekki í árásum þeirra á Hamas-samtökin. Volker Turk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi árásina og sagði að myndir frá árásinni sýndu að Ísraelsher sinnti í engu að vernda líf óbreyttra borgara í árásum sínum.

Undir þessi orð tók Emmanuel Macron Frakklandsforseti, sem sagði á samfélagsmiðlinum X að stöðva þyrfti þessar aðgerðir. „Það eru engin örugg svæði lengur fyrir palestínska borgara í Rafah.“

Joseph Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagði árásina skelfilega og utanríkisráðherrar Evrópusambandsins samþykktu í gær að boða til fundar með stjórnvöldum í Ísrael til að fá útskýringar á aðgerðum hersins í Rafah.

Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði í gær að árásin hefði verið hræðilegt slys og að rannsókn væri hafin á árásinni. „Við fjarlægðum milljón íbúa frá Rafah og þrátt fyrir okkar bestu viðleitni varð hörmulegt slys í gær,“ sagði Netanjahú í ræðu á ísraelska þinginu.

Ættingjar gísla, sem enn eru í haldi Hamas á Gasasvæðinu, gerðu hróp að Netanjahú en hann lét engan bilbug á sér finna og hét því að halda áfram baráttunni við að eyða Hamas-samtökunum. „Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir algjöran sigur.“

Ísraelski herinn sagðist hafa gert könnun á árásinni, en herinn sagði að hún hefði verið framkvæmd á grundvelli „nákvæmra leynilegra upplýsinga“ um tvo Hamas-liða sem eiga að hafa fallið í árásinni. doraosk@mbl.is