Líknardeild Upplýsingarnar eiga að verða aðgengilegar í Heilsuveru.
Líknardeild Upplýsingarnar eiga að verða aðgengilegar í Heilsuveru. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Miðlæg skráning, þar sem fólk getur greint frá vilja sínum og óskum um takmarkaða meðferð við lífslok, verður heimil ef frumvarp heilbrigðisráðherra um sjúkraskrár, landlækni og lýðheilsu verður lögfest

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Miðlæg skráning, þar sem fólk getur greint frá vilja sínum og óskum um takmarkaða meðferð við lífslok, verður heimil ef frumvarp heilbrigðisráðherra um sjúkraskrár, landlækni og lýðheilsu verður lögfest. Ráðherra hefur þegar mælt fyrir frumvarpinu á Alþingi.

„Þetta er lykilatriði því nauðsynlegt er að þessar upplýsingar séu skráðar miðlægt, en ekki aðeins aðgengilegar á þeirri heilbrigðisstofnun þar sem skráningin var gerð. Upplýsingar um takmörkun á meðferð, t.d. að ekki eigi að setja í öndunarvél, ekki gjörgæslumeðferð eða ekki endurlífgun, eru skráðar í sjúkraskrá sjúklings og eru geymdar á sama stað og aðrar mikilvægar upplýsingar á borð við bráðaofnæmi, lífsógnandi sjúkdóma o.fl.,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í svari til blaðsins.

Fram kom í blaðinu fyrir nokkru að landlæknir hefði haft í undirbúningi að koma á laggirnar svonefndri lífsskrá eða miðlægri skráningu þessara upplýsinga en til að það sé unnt þurfi hún að fá lagastoð.

Kjartan Hreinn bendir á að ákvarðanir um takmörkun á meðferð séu teknar í samráði við sjúkling ef mögulegt er, annars við nánasta aðstandanda. „Slíkar ákvarðanir eru eingöngu teknar ef fyrirséð er að meðferð myndi ekki skila miklum árangri, t.d. sjúklingur er með lokastigs-lungnasjúkdóm, lokastigs-hjartasjúkdóm, krabbamein á lokastigi, mikla heilabilun o.s.frv. Meðferðarsamtalið er með lækni sjúklings,“ segir hann.

„Enn sem komið er er skráning á takmörkun á meðferð ekki miðlæg skráning og sést þ.a.l. eingöngu í sjúkraskrárkerfinu á þeirri heilbrigðisstofnun þar sem skráningin var gerð. Embætti landlæknis vinnur nú að því að þessar upplýsingar verði aðgengilegar miðlægt, þ.m.t. takmörkun á meðferð. Einnig munu upplýsingarnar verða aðgengilegar einstaklingum í Heilsuveru.“

Hann segir mikinn mun á þessu og því fyrirkomulagi sem viðhaft var um hríð til ársins 2015. „Svokölluð lífsskrá hafði takmarkað gagn því hún var skráð á pappír og aðeins aðgengileg á dagvinnutíma hjá embættinu,“ segir hann.