Stórfjölskyldan Samankomin á jólunum 2019.
Stórfjölskyldan Samankomin á jólunum 2019.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Rósant Pétursson fæddist 28. maí 1944 í Vestmannaeyjum en ólst síðan upp í Sandgerði frá frumbernsku. Siggi í Vík var hann kallaður af félögum og þekkja hann margir enn þann dag í dag af því gælunafni

Sigurður Rósant Pétursson fæddist 28. maí 1944 í Vestmannaeyjum en ólst síðan upp í Sandgerði frá frumbernsku. Siggi í Vík var hann kallaður af félögum og þekkja hann margir enn þann dag í dag af því gælunafni. Tveggja ára að aldri veiktist Sigurður af berklum og varð að vera í einangrun á Landspítalanum til sex ára aldurs. Þrátt fyrir fötlun þá sem af veikindunum hlaust lét hann ekkert á sig fá og tók af fullum krafti þátt í leikjum og störfum æsku- og unglingsáranna.

Sigurður lauk námi í barnaskólanum í Sandgerði og 14 ára að aldri fór hann í dvöl á Reykjalundi í Mosfellsbæ og var þar yfir vertrartímann, stundaði nám þar við Iðnskólann jafnframt því að starfa við trésmíðar á staðnum. Hann hóf nám í trésmíði í Reykjavík 17 ára gamall og lauk sveinsprófi í húsasmíði 1964. Sigurður hefur starfað víða og mörg eru þau störf sem honum hafa verið falin auk trésmíðinnar, sem hann vann við þar til hann var rúmlega þrítugur að aldri. Hann gerðist dreifingarstjóri á dagblaðinu Vísi frá 1976 til 1981, framkvæmdastjóri byggingarsamvinnufélagsins Aðalból frá 1981 til 1987 en jafnframt vann hann að uppbyggingu fyrirtækisins Ís-spor, sem var að hluta til í hans eigu. Fyrirtækið Ís-spor ehf. er nú allt í hans eigu og konu hans Guðnýjar Eddu og sona þeirra, Sveins Ottós og Magnúsar. Öll vinna þau ötullega að vexti og uppgangi fyrirtækisins, sem frá fyrstu tíð hefur annast gerð minnispeninga af ýmsu tagi, barmmerkja og alls konar sérsmíði á fagurgripum, auk þess að hafa um árabil verið leiðandi í framleiðslu og innflutningi á verðlaunagripum af ýmsu tagi.

Sigurður er mikill félagsmálamaður og hefur starfað mikið bæði í Kiwanishreyfingunni, og í samtökum frímerkjasafnara en þar hefur hann unnið mikið og gott starf um áratuga skeið. Hann gekk til liðs við Kiwanishreyfinguna 12. desember 1976, er hann gerðist félagi í Heklu en þar hefur hann starfað lengi og verið forseti fimm sinnum. Síðar var hann einn af stofnendum Viðeyjar 1986 og forseti þar 1987-1988, svæðisstjóri Þórssvæðis 1990-91, umdæmisféhirðir 1997-98 og umdæmisstjóri 2004-2005. Klúbburinn Viðey sameinaðist síðar Heklu og þar hefur Sigurður starfað síðan. Hann sá um styrktarsjóð umdæmisins í mörg ár og var einnig formaður til margra ára, í stjórn Kiwanishússins á Engjateigi frá upphafi og formaður hússtjórnar í 10 ár. Fyrir störf sín í þágu Kiwanishreyfingarinnar hefur Sigurður hlotið margvíslegar viðurkenningar auk þess að vera gerður að ævifélaga.

Vart er hægt að nefna nokkurn þátt í starfi innan frímerkjahreyfingarinnar þar sem Sigurður R. Pétursson hefur ekki lagt hönd á plóg. Segja má að allt frá upphafi sjöunda áratugarins hafi Sigurður verið meira og minna viðriðinn allt sem lýtur að félagsmálum safnara. Félagsmaður og formaður í Félagi frímerkjasafnara, formaður í Klúbbi Skandinavíusafnara, í stjórn Landssambands íslenskra frímerkjasafnara meira og minna í hartnær 20 ár, þar af formaður um 10 ára skeið. Hann hefur átt drjúgan þátt í að efla norrænt samstarf, sem grundvallast í samnorrænum frímerkjasýningum sem haldnar eru árlega undir nafninu Nordia til skiptis á Norðurlöndunum. Á Íslandi hafa slíkar sýningar verið haldnar átta sinnum, fyrst árið 1984. Þá hafði Sigurður setið í ráðgjafarnefnd Póst- og símamálastjórnar um frímerkjaútgáfur og kom því til leiðar, ásamt öðrum, að út voru gefin frímerki til styrktar frímerkjahreyfingunni. Var það grunnur að því starfi sem hreyfingin hefur byggt á æ síðan.

Á safnaraferli sínum byggði Sigurður upp glæsileg frímerkjasöfn, sem báru hróður hans víða, því hann var ötull sýnandi á frímerkjasýningum bæði hér heima og erlendis. Er heildarsafn hans mikið að vöxtum en úr því vann hann þrjú meginsöfn sem öll náðu þeim árangri að öðlast sýningarrétt á alþjóðlegum frímerkjasýningum. Fyrir þau hefur Sigurður hlotið m.a. nokkur gullverðlaun. Er það árangur sem fáir íslenskir safnarar hafa náð. Upphaf söfnunar hans má rekja allt til bernskuáranna, en þegar sem unglingur hafði hann öðlast óvenju næman skilning á gildi frímerkja og þeim fróðleik sem í þeim má finna. Þekking hans á íslensku og reyndar einnig á ýmsu erlendu frímerkjaefni veitti honum brautargengi sem dómara á frímerkjasýningum og var hann tilkallaður í dómnefndir fjölmargra sýninga, bæði hér innanlands og víða erlendis. Fyrir störf sín í þágu frímerkjahreyfingarinnar var Sigurður sæmdur gullmerki Landssambands íslenskra frímerkjasafnara.

„Þegar ég lít yfir farinn veg þakka ég forsjóninni fyrir þau forréttindi að hafa fengið að stjórna eigin lífi í samræmi við eigin hæfileika og áhuga, ég þakka Eddu konu minni fyrir ástríka samfylgd og stuðning í rúmlega 60 ár, börnum mínum og fjölskyldum auk fjölda samferðamanna á liðnum árum.“

Fjölskyldan

Eiginkona Sigurðar er Guðný Edda Magnúsdóttir húsfreyja, f. 22.7. 1943. Þau eru búsett í Garðabæ. Foreldrar Eddu eru Magnús Bergmann Pálsson glerskurðarmeistari, f. 19.11. 1912, d. 7.8. 1990, og Ragnheiður Þyri Nikulásdóttir húsfreyja, f, 4.8. 1917, d. 17.4. 2004.

Börn Sigurðar og Guðnýjar Eddu eru: 1) Hrund sálfræðingur, f. 25.8. 1967. Hún lést eftir erfið veikindi 23.5. 2014. Fyrri eiginmaður hennar var Ólafur Helgi Kristjánsson knattspyrnuþjálfari, f. 20.5. 1968. Þeirra börn: a) Þorkell arkitekt, f. 27.4. 1992, kona hans Dagbjört Rós Jónsdóttir stjórnmálafræðingur, f. 16.6. 1994. Þeirra börn eru Elías Huginn og Elenóra Laufey; b) Kristján, nemi í íþróttafræðum, f. 21.1. 2000. Unnusta hans er Þórdís Elva Ágústsdóttir, sjávarútvegsfræðingur og atvinnukona í knattspyrnu, f. 13.9. 2000. Seinni eiginmaður Hrundar er Aðalsteinn Ólafsson verkfræðingur, f. 7.7. 1970. Hans börn frá fyrra hjónabandi og stjúpbörn Hrundar: a) Sigurbjörn Már eðlisfræðingur, f. 28.11. 1994, unnusta Guðný Halldórsdóttir kennari, f. 24.10. 1996, þeirra dóttir Gróa Sólbjört; b) Bergmann Óli efnaverkfræðingur, f. 26.1. 1998, unnusta Marta Björk Atladóttir listakona, f. 6.11. 1998; c) Ársól Ingveldur nemi, f. 21.9. 2000, unnusti Davíð Nói Kristjánsson, f. 18.11. 1998; 2) Sveinn Ottó, gullsmiður og framkvæmdastjóri, f. 21.1. 1971, kona hans Erla Björk Sveinbjörnsdóttir iðjuþjálfi, f. 6.3. 1972. Þeirra börn eru a) Sigurður Egill, f. 30.7. 1997, b) Kristín Edda, f. 3.4. 1999, unnusti Valdimar Páll Brynjólfsson verktaki, f. 17.11. 2001, og c) Bergdís Eva, f. 8.2. 2003, unnusti Davíð Jónsson nemi, f. 13.11. 2004; 3) Magnús Bergmann leturgrafari, f. 1.6. 1981.

Systur Sigurðar eru Guðbjörg Birna, f. 1940, d. 1992, Sveindís Þórunn, f. 1942, d. 2022, Jóhanna Sigurrós, f. 1948, og Anna Marý, f. 1955.

Foreldrar Sigurðar eru hjónin Sveinlaug Halldóra Sveinsdóttir, húsmóðir í Sandgerði, f. 3.3. 1918. d. 29.1. 1992, og Pétur Hafsteins Björnsson, sjómaður í Sandgerði, f. 21.7. 1918, d. 28.1. 2009.