Á Rossopomodoro Lárus Guðmundsson heilsar gestum á hverju kvöldi.
Á Rossopomodoro Lárus Guðmundsson heilsar gestum á hverju kvöldi. — Morgunblaðið/Eyþór
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Það þykir tíðindum sækja að Lárus Guðmundsson hefur rekið veitingastaðinn Rossopomodoro eða Rauða tómatinn á sömu kennitölu í 18 ár í miðbænum. „Mér vitanlega hefur enginn núverandi sambærilegur rekstur á Laugavegi gengið eins vel og verið á sömu kennitölu eins lengi,“ segir hann. Bætir við að ástandið sé samt erfitt, því ferðamenn séu mun færri í apríl og maí en á sama tíma í fyrra og launa- og leigukostnaður hafi hækkað upp úr öllu valdi, auk þess sem Íslendingar veigri sér við að fara í miðbæinn vegna ákvarðana fyrrverandi borgarstjóra í aðkomu- og bílastæðamálum.

Lárus lærði viðskiptafræði í háskóla í London og eftir brautskráningu með BA-gráðu 1987 opnaði hann Nes Pizza árið eftir. Hann rak matvöruverslunina Litlabæ á Eiðistorgi í tvö ár og fór síðan út í rekstur heildsölu með Ottó bróður sínum. Þeir stofnuðu lágvöruverðsverslunina Europris 2002. Eftir að hafa selt sinn hlut tók hann, ásamt þremur öðrum, við Rossopomodoro, sem hafði tvisvar farið í þrot, og þeir opnuðu staðinn 1. mars 2006. Fljótlega keypti hann félaga sína út og hefur séð um fyrirtækið síðan ásamt Birni Óla Ketilssyni, sem kom inn í reksturinn fyrir nokkrum árum.

„Ég ætlaði bara að vera hérna í stuttan tíma en hann hefur verið fljótur að líða og þessi 18 ár hafa verið skemmtileg, en mjög krefjandi,“ segir Lárus. „Ég hef til dæmis alltaf verið í vinnunni allar helgar, á jólum, páskum og Menningarnótt en ekki með fjölskyldunni. Ætli veitingamenn að láta hlutina ganga upp verða þeir að fórna miklu og leggja mikið á sig en á móti kemur að hægt er að gera sér glaðan dag af og til og fara í stutt ferðalög.“

Íslendingar tóku staðnum vel í byrjun, en nú byggist reksturinn nær alfarið á erlendum ferðamönnum. „Fyrstu árin voru gestir nær eingöngu Íslendingar og nú eru þeir aðeins um 30% en flestir tryggir fastakúnnar,“ segir Lárus. „Þegar Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri byrjaði að þrengja að öllu í miðbænum gáfust veitinga- og verslunarmenn á svæðinu upp í stórum stíl enda varð þessi rekstur á svæðinu æ erfiðari. Hann lét sér ekki segjast, hélt áfram að fækka bílastæðum og margir hafa neyðst til að hætta eða hafa farið á hausinn vegna beinna áhrifa frá aðgerðum hans. Andrúmsloftið er mun daprara en áður, Íslendingar forðast miðbæinn og hér eru nær eingöngu túristar.“

Hefur opnað nokkra staði

Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur segir máltækið og það má heimfæra upp á Lárus. Hann segist hafa verið beðinn að opna nokkra veitingastaði í miðbænum og látið á það reyna eftir að hann tók við Rossopomodoro. Hann hafi byrjað með Geysir-Restaurant í Geysishúsinu við Aðalstræti og þrjá veitingastaði á Laugavegi, Scandinavian, Nad og Barber-Bistro, en fljótlega selt hlut sinn í þeim. „Það hefur alltaf verið mikið að gera hér á Rossopomodoro og ég sá fljótt að ég gæti ekki sinnt öðrum stöðum á sama tíma.“ Auk þess hafi hann orðið við ósk um að opna Rossopomodoro-stað í Kaupmannahöfn, hafi verið mættur þangað með starfsfólk en ekki hafi tekist samningar um húsaleigu og því hafi hann hætt við.

Lárus segir að elja og vinnusemi séu grundvöllur árangursins, að vera stöðugt á tánum og líta eftir rekstrinum öllum stundum. „Ég hef alla tíð kappkostað að vera með besta fáanlega hráefnið og fjölbreyttan matseðil. Ég hef flutt inn Ítali sem eru sérfræðingar í ítalskri matargerðarlist, verið með gott starfsfólk sem hefur unnið lengi hjá mér. Frá byrjun hef ég lagt áherslu á að veita góða þjónustu, tek alltaf á móti gestum á kvöldin og kveð þá flesta áður en ég fer.“

Lárus er ekki sérstaklega bjartsýnn á framhaldið, en gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. „Búið er að fæla Íslendinga í burtu og fækki ferðamönnum áfram verður enginn grundvöllur fyrir veitingahúsarekstri í miðbænum. Launakostnaður sligar marga, húsaleigan er ekki í neinum takti við raunveruleikann og græðgin í húseigendum hefur gert mörgum á Laugaveginum erfitt fyrir. Ég er samt ekkert á þeim buxunum að pakka saman. Ekki er sjálfgefið að vera með 18 ára kennitölu í þessum bransa og ég held áfram að leggja mig allan í verkið, þótt á móti blási. Mér þykir vænt um Rossopomodoro og sinni staðnum af alúð hér eftir sem hingað til.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson