Valgerður María Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík 17. mars 1928. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 20. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Helga Jónsdóttir frá Læk í Ölfusi, f. 5. ágúst 1892, d. 11. nóv. 1992, og Guðjón Brynjólfsson Skaftfellingur, f. 7. nóv. 1899, d. 12. apríl 1986.

Systkini Valgerðar voru Rósa Sigríður, f. 30. maí, d. 2. des. 1964, og Sigurjón Óskar, f. 17. sept. 1930, d. 12. apríl 2011.

Fyrri eiginmaður Valgerðar var Eysteinn Sigfússon, f. 22. mars 1923, d. 10. ágúst 2016. Seinni eiginmaður var Baldur Sigurbaldursson, f. 26. jan. 1930, d. 15. des. 2016.

Börn Valgerðar og Eysteins eru: 1) Sigurjón, f. 8. des. 1949, maki Guðrún Ólafsdóttir, f. 9. ágúst 1950. Börn þeirra eru a) Sigrún Helga, f. 12. mars 1972, börn hennar og Gunnars Reyrs Sigurðssonar eru Sigurjón Óli, f. 21. febr. 1999, og Guðlaug Ósk, f. 6. jan. 2006, b) Ólafur Eysteinn, f. 27. ágúst 1974, maki Ragnheiður Kristjánsdóttir f. 24. sept. 1975, börn: Guðrún Laufey, f. 2. nóv. 2005, Hildur Lára, f. 1. júlí 2009, c) Valgerður Ósk, f. 16. maí 1980, maki Sigurður Bjarni Sveinsson, f. 17. júlí 1977, börn: Íris Elva, f. 7. nóv. 2005, og Rakel María, f. 27. mars 2013. 2) Drengur, f. 13. apríl 1953, d. 13. apríl 1953. 3) Helga, f. 31. júlí 1954, maki Þorvaldur Kristján Sverrisson, f. 4. ágúst 1954, d. 16. nóv. 2019. Börn þeirra eru a) Baldur Jóhann, f. 13. jan. 1981, b) Sverrir Kristján, f. 18. júní 1983.

Börn Valgerðar og Baldurs eru: 1) Petrína, f. 18. sept. 1960, maki Frímann Ólafsson, f. 20. mars 1957. Börn þeirra eru a) Sigurbaldur, f. 9. ágúst 1985, barn hans og Margrétar Reynisdóttur er Júlía Ósk, f. 21. sept. 2019, b) Guðrún Bentína, f. 20. apríl 1988, maki Marteinn Guðbjartsson, f. 24. sept. 1992, börn Eiður Aron, f. 10. ágúst 2013, og Ívar Orri, f. 3. okt. 2016, c) Þórveig Hulda, f. 25. mars 1998, d) Helga Björg, f. 7. jan. 2001. 2) Rósa Signý, f. 12. sept. 1966, maki Þorsteinn Gunnarsson, f. 2. ágúst 1966. Börn þeirra eru a) Gunnar, f. 1. febr. 1994, maki Lovísa Falsdóttir, f. 22. júlí 1994, börn Flóki, f. 3. des. 2018, Marel, f. 6. desember 2020, Svala, f. 5. júlí 2023, b) Valgerður María, f. 19. ágúst 1997, c) Guðjón, f. 4. maí 2006.

Valgerður ólst upp í Reykjavík, gekk í Austurbæjarskóla og Kvennaskólann, húsmæðraskóla í Noregi og í bókasafns- og upplýsingafræði í HÍ. Bjó á Ísafirði 1960-1972 og í Grindavík 1972 þar til 10. nóv. 2023.

Valgerður var í sveit á Gljúfri í Ölfusi, vann í Hannyrðaverslun Margrétar Konráðsdóttur. Fór sem kokkur á síldarbát og vann í Vinnuveri á Ísafirði. Upp úr fimmtugu vann hún á Bókasafni Grindavíkur og tók svo við starfi forstöðumanns.

Valgerður var virk í Sjálfsbjörg, Slysavarnadeildinni Þórkötlu, Kvenfélagi Grindavíkur og Félagi eldri borgara. Hún var heiðurs- og stofnfélagi Þórkötlu. Valgerður fékk mænuveiki árið 1951 og lá í tæpt ár á spítalanum Farsótt. Lét hún síðar mikið til sín taka í félaginu Sjálfsbjörg.

Útför Valgerðar Maríu fer fram frá Háteigskirkju í dag, 29. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma mín lést 20. maí sl. á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ. Þar dvaldi hún frá rýmingu í Grindavík með viðkomu á Grund.

Mamma var fædd í Reykjavík, ólst upp á Laugavegi 33a. Hún var sannkölluð Reykjavíkurdama. Foreldrar hennar þau Helga og Guðjón komu austan úr Skaftafellssýslu og Ölfusinu og voru verkafólk. Mamma var elst þriggja systkina og ólst upp við kærleik, góða umhyggju og hvatningu sagði hún sjálf.

Þegar mamma var fjögurra ára réð pabbi hennar sig yfir heyannatímann austur að Gljúfri í Ölfusi sem kaupamann og tók mömmu með sér. Hún dvaldi þar næstu sjö sumur á kærleiksríku og góðu heimili. Minningar hennar úr sveitinni voru henni dýrmætar og vinskapur við fólkið frá Gljúfri.

Mamma var góður námsmaður og eftir að hafa verið í Austurbæjarskóla hafði hún löngun til að fara í Kvennaskólann og nema þar. Hún þurfti inntökupróf í skólann og stóðst það með glæsibrag. Hún vann við barnapössun og verslunarstörf sem ung kona.

Mamma var handvinnukona, saumaði, prjónaði og heklaði og eftir hana liggja margar gersemar. Hún saumaði nokkra þjóðbúninga á afkomendur sína. Með því skemmtilegra sem hún gerði var að spila á spil meðan hún gat. Þegar hún eignaðist sumarbústað í Grímsnesi þannig að Ingólfsfjallið blasti við voru þar margar hennar bestu stundir með afkomendum. Þá var aldrei langt í spil eða lestur góðra bóka. Hún naut þess að lesa góðar bækur og má geta þess að þegar mestu skjálftarnir riðu yfir 10. nóvember sl. sat hún í íbúð sinni og las í bók. Hún vann lengi sem forstöðumaður bókasafns í Grindavík.

Mamma mín fór í gegnum lífið eins við öll þar sem skiptast á skin og skúrir. Hún fékk lömunarveikina 1951 og lá um eitt ár á Farsóttarheimilinu meðan hún var að jafna sig. Hún þurfti að læra að ganga upp á nýtt. Þá var hún orðin móðir og það reyndi því mikið á hana að vera fjarverandi í veikindum. Hún missti fullburða dreng 1953 við fæðingu, sem var mikið áfall.

Hún flutti til Ísafjarðar með föður mínum 1960. Foreldrar mínir fluttu til Grindavíkur 1972 og þann stað elskaði hún móðir mín til dauðadags og vildi hvergi annars staðar vera.

Mér finnst eins og ég hafi átt bestu mömmu í heimi. Hún var þolinmóð og góð mamma sem lagði upp með að það læri börn sem þau búa við. Hún studdi mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og hvatti mig til dáða. Hún tók eiginmanni mínum með opnum örmum og var líka hans mesti stuðningsaðili í leik og starfi. Þegar barnabörnin fóru að koma, fjögur talins, var hún alltaf til staðar í baklandinu, passaði þau og tók þátt í lífi þeirra allt fram undir það síðasta.

Af ástæðu tókum við upp á að nefna hana Völu Wonder eða wonderful og í því líkingamáli var höfðað til þess að hún sá alltaf það besta í öllum aðstæðum og í öllum mannverum. Sá eiginleiki er mikill kostur sem ásamt fleirum prýddi hana mömmu mína.

Elsku mamma mín, takk fyrir allt.

Langar að ljúka minningarorðum með vísu Vatnsenda-Rósu:

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

Þín elskandi dóttir,

Petrína.

Móðurminning

Góðra daga er að minnast

mæta mamma mín

manstu þegar ókum suður

Ísafirði frá

leiðin lá í nýja húsið

Heiðarhrauni í

Grindavík-bryggja-bátar

ég var lítil

þú varst stór

þú varst mamma mín

mér fannst spennó

mér fannst fallegt

við mér blasti nýtt

pabbi

mamma

lítil stelpa

nýtt hús og hraun

manstu ferðir fjöru í

skeljar, sandur og sjór

þá var gaman

lítil börn

hugarró

manstu sauma,

prjóna, hekla

manstu gleðina

manstu lestur

góðar bækur

falleg íslensk orð

- það var góður grunnur

elsku mamma mín

manstu dimmu dagana

manstu erfiðleikana

þá var gott að eiga skjól

faðmi þínum í

manstu Köben

manstu Norge

manstu 17. maí

við í góðum málum saman

gleymum ekki því

hlátur, húmor eigin fyndni

frábær alla tíð

manstu góðar leikhúsferðir

manstu músíkina

þá var gaman

þá var ljúft

manstu Eyjaferðir þínar

litlu börnin mín

upplifun af hæstu gráðu

alltaf fögnuðum því

góða ferð í nýja landið

hjartans besta mín

minnist þín á

hverjum degi

þakkir, þakkir, þakkir

til þín frá mér

Rósa Signý.

Í eitt af síðustu skiptunum sem ég heimsótti Valgerði Maríu á hjúkrunarheimilið í Skógarbæ hvíslaði hún fallegum skilaboðum í eyra mitt sem fengu mig til að brosa. Þetta var tengdamóður minni líkt, að passa upp á sitt fólk alveg fram á síðustu stundu og stjórnast á fallegan hátt í tengdasyninum. Ég gaf henni loforð.

Ég hef stundum sagt að ég hafi fengið stóra vinninginn í tengdamömmulottóinu, enda var Valgerður María einstök kona. Hún umvafði afkomendur sína skilyrðislausum kærleika og ást og uppskar ríkulega. Hæglát, traust, skoðanarík en fór fínt með það, jafnréttissinnuð, með bullandi húmor, elskaði leikhús og bækur, handverkskona, fannst gaman að ferðast, ræktaði ættingja og vini en var umfram allt öflugasti stuðningsmaður síns fólks. Hún fór meira að segja á fótboltaleik hjá Grindavík að verða níræð til að fylgjast með dóttursyni sínum spila í gulu treyjunni. Hún kom til Eyja í fyrstu ferð með Herjólfi þegar barnabörnin komu í heiminn til að aðstoða okkur Rósu og var alltaf boðin og búin að passa, hlúa að og rækta barnabörnin. Upp í hugann koma yndislegar minningar úr sumarbústaðaheimsóknum til hennar og Baldurs á Suðurlandinu sem var þeirra athvarf en við öll fengum að njóta.

Valgerður María þurfti sannarlega að hafa fyrir lífinu á sínum tíma en æðruleysi og þrautseigja voru hennar aðalsmerki. Rýmingin í Grindavík þann 10. nóvember síðastliðinn hafði slæm áhrif á hana eins og aðra Grindvíkinga. Síðustu vikurnar voru erfiðar og hún var eflaust hvíldinni fegin. Gengin er stórmerk kona sem alltaf hafði trú á tengdasyninum eins og hennar eigin afkomendum. Ég mun standa við loforðið sem ég gaf henni á lokasprettinum. Kærar þakkir Valgerður mín fyrir samfylgdina og allan stuðninginn.

Þorsteinn Gunnarsson.

Í stofunni á ættaróðali Völu ömmu og Baldurs afa var gamaldags pendúlklukka, svona eins og úr bíómyndunum. Tifandi taktur hennar var undirspil æskunnar, ómþýður, fastur punktur í tilverunni. Blæbrigði hversdagsins: fiskbúðingur eða kjúlli og franskar á borðum, kani eða manni í eldhúskróknum með Bentínu, Stella í orlofi á skjánum að góla „út með gæruna“ eða afi innan úr herbergi „Gerðaaaa“, Peta frænka á innsoginu eða Helga frænka að steikja laufabrauð, leikur pottorma innan um iðjagrænan og fordekraðan gróðurinn í garðinum, sumarbústaðaferðir og berjatínsla við fótskör Ingólfsfjalls og nið lækjarins – alltaf sló hún taktinn og hvatti fólk sitt einatt til góðra verka. Maður er manns gaman í lífsins ólgusjó.

Það var þungbært að sjá gangverkið þrjóta andspænis ægivaldi náttúruaflanna. Nú er pendúllinn stopp. Tifið lifir þó áfram í okkur sem á eftir komum. Hjartað er fullt þakklætis að mín eigin börn hafi kynnst ættarhöfðingjanum, hinni einu sönnu Völu Wonder.

Takk fyrir allt amma, sérstaklega fiskbúðinginn.

Gunnar Þorsteinsson.

Það hvað ég var heppinn með ömmur og afa er ein af mínum óteljandi blessunum í lífinu. Þessu hef ég lengi gert mér grein fyrir og ekki síst nú þegar Gerða amma, sú síðasta til að kveðja, er haldin á vit sumarlandsins; nær sléttum 35 árum upp á dag frá því að Sverrir afi varð fyrstur til þess. Eftir stendur fjöldi minninga um endalausa væntumþykju, skutl þvers og kruss, gjafir við öll möguleg tilefni, pönnukökur, ís, kjúkling og franskar, og svo framvegis.

Svo má kannski deila um hve mikil blessun það var fyrir þau að eignast jafn skapmikið, fiktótt og uppátækjasamt barnabarn og ég var. Safaríkustu sögurnar af því hverju ég tók upp á eru nú horfnar yfir í sumarlandið með þeim og mun ég alltaf sjá eftir að hafa ekki skrifað þær hjá mér en lengst af skammaðist ég mín svo mikið að ég leiddi hjá mér þegar byrjað var að rifja þær upp. Sérstaklega hafði Baldur afi gaman af því. Það var oft tilefni til að skamma mig en það var vafalítið gert sjaldnar en tilefni var til. Hafi Gerða amma til dæmis nokkru sinni skammað mig þá hefur hún gert það svo sjaldan og fínlega að ég man ekki eftir einu einasta skipti. Hún var ákveðin, og ekki alveg laus við skap, en fór flestum öðrum betur með það.

Nokkuð sem kemur upp í hugann við fráfall ömmu eru auðmýkt og rólegheit hennar nánast sama hvað á gekk en lífið lét hana ganga í gegnum ýmislegt sem hún hefði vart komist í gegnum án þessa. Hún skutlaði mér eitt sinn í Keflavík að ná í einkunnaspjald í FS. Á leiðinni dældi ég yfir hana áhyggjum yfir að hafa mögulega fallið á ákveðnu prófi. Í heimabænum upplifði ég nefnilega að virði barna færi aðeins eftir getu þeirra í íþróttum og námsárangri. Ekkert gat ég í íþróttum svo að ég byggði sjálfsvirði mitt aðeins á námsárangri. Amma hlustaði yfirveguð á dóttursoninn búa til áhyggjur í framsætinu og sagði svo eitthvað á þessa leið: „Baldur minn, ef þú fellur þá tekur þú þetta bara aftur.“ Það að falla á prófi var ekki sami heimsendir í hennar huga og mín þá mölbrotna sjálfsmynd lét mig halda að það væri. Svo kom í ljós að prófinu hafði ég náð með glæsibrag.

Elsku amma, ég hef eytt um fjórðungi af ævinni erlendis og því misst af miklum tíma með þér en ég veit að þú ert ekki farin heldur bara gengin í þá vösku verndarenglasveit sem hefur vakað yfir mér um allan heim. Í henni muntu vaka yfir mér rétt eins og öðrum í hinum stóra hópi afkomenda þinna. Hafðu hjartans þakkir fyrir allt.

Baldur.

Hvað er hægt að segja um ömmu Valgerði eða hana Völu Wonder, sem var nafn sem hún gekk undir meðal barnabarnanna? Hún var dásamleg amma, mikill húmoristi, eldaði besta kjúlla og franskar í heiminum og ekki má gleyma öllum sögustundunum sem voru ýmist heima í ömmukoti eða á bókasafninu. Bókasafnið var fyrir okkur systkinin ævintýraheimur og amma hafði alltaf tíma til þess að segja okkur sögu eða lesa fyrir okkur.

Amma var driffjöður, ferðaðist mikið og passaði vel upp á að halda vinum sínum nálægt sér. Þegar amma var komin á sjötugsaldurinn skellti hún sér til dæmis í háskólanám og lærði bókasafnsfræði. Þetta lýsir ömmu mjög vel, aldrei of seint að gera eitthvað merkilegt.

Það var alltaf ákveðin lykt sem maður fann þegar komið var til Grindavíkur. Lyktin var af heitu vatni, hrauni, fiskinum og sjónum. Í okkar huga eru þessar minningar dásamlegar og enn í dag þegar við finnum lyktina af sjónum þá hugsum við öll um góðu stundirnar hjá ömmu og afa í Grindó.

Amma var líka mjög dugleg að fara með okkur í fjöruna og rúnta um á bryggjunni. Í þeim ferðum var alltaf passað upp á að við systkinin hefðum pakka af rauðum Nóa í hendinni til þess að maula.

Þegar við systkinin fórum sjálf að eignast börn pössuðum við vel upp á það að þau myndu mynda eins sterk tengsl við langömmu og við höfðum myndað við hana.

Okkur langar til þess að ljúka orðum okkar á ljóði sem minnir okkur svo mikið á elsku Völu Wonder:

Kvöldsigling

Bátur líður út um eyjasund,

enn er vor um haf og land.

Syngur blærinn einn um aftanstund,

aldan niðar blítt við sand.

Ævintýrin eigum ég og þú,

ólgar blóð og vaknar þrá.

Fuglar hátt á syllum byggja bú,

bjartar nætur vaka allir þá.

Hvað er betra en vera ungur og ör,

eiga vonir og æskufjör,

geta sungið, lifað leikið sér,

létt í spori hvar sem er

og við öldunið um aftanstund

eiga leyndarmál og ástarfund.

(Gísli Helgason)

Sigrún Helga, Ólafur Eysteinn og Valgerður Ósk.

Mig langar að minnast Valgerðar Maríu föðursystur minnar sem var mér einstaklega kær. Ég fékk að njóta þess sem krakki að dvelja hjá henni og Baldri heitnum manni hennar, foreldrar mínir voru nýflutt til Þorlákshafnar og ég var að byrja að kynnast lífinu í sjávarplássi og fékk að dvelja hjá þeim um skeið í aðdraganda sögulegra forsetakosninga árið 1980 þar sem þau hjónin lögðu ýmislegt til sem ég er ekki viss um að hafi fallið öllum Grindvíkingum í geð.

En Valgerður frænka mín fór aldrei troðnar slóðir og til að mynda eftir skilnað við barnsföður sinn réð hún sig til sjós sem kokkur og kynntist í kjölfarið Baldri Sigurbaldasyni seinni manni sínum sem var mikill vinur minn.

Það hefur verið ómetanlegt að eiga Gerðu frænku að alla tíð og hún brosti alltaf virðist vera framan í lífið þrátt fyrir að missa systur sína langt um aldur fram, sem ég veit að reyndist ekki auðvelt, og mænusótt sem herjaði líka á hana. En hún er núna farin á nýjan vígvöll þar sem hún lætur án efa til sín taka með sinni seiglu.

Eitt veit ég að hennar atkvæði kemst alltaf til skila. Minningin lifir.

Kveðja,

Sigurður Óskar Sigurjónsson.

hinsta kveðja

Kær tengdamóðir mín er fallin frá. Ég var ekki gömul þegar hún kom inn í líf mitt. Okkur samdi mjög vel frá okkar fyrstu kynnum. Einlægni og virðing einkenndi okkar samband. Hún var alltaf til staðar fyrir okkur og börnin þegar við þurftum á því að halda. Takk fyrir umhyggju þína og elsku. Takk fyrir að hugsa alltaf til okkar með ást og umhyggju. Við söknum þín. Guð veri með þér.

Guðrún Ólafsdóttir.