Skattamál Ríkisskattstjóri hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp fjármálaráðherra sem nú er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.
Skattamál Ríkisskattstjóri hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp fjármálaráðherra sem nú er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ríkisskattstjóri varar við því að tilteknar breytingar í frumvarpi fjármálaráðherra um breytingar á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna erlendra fjárfestinga geti leitt til færslu eignarhalds á hlutabréfum til skattaskjóla og auki hættu á skattasniðgöngu. Þetta kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarpið en þar er m.a. lagt til að erlendir aðilar verði að mestu undanþegnir skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa í íslenskum fyrirtækjum.

Meginmarkmið frumvarpsins er að einfalda regluverkið í kringum erlenda fjárfestingu á Íslandi, fyrst og fremst í nýsköpun, til að gera íslenskum fyrirtækjum auðveldara um vik að sækja fjármagn erlendis frá. Lögð er til sú breyting að fallið verði alveg frá skattskyldu erlendra lögaðila af söluhagnaði hlutabréfa í íslenskum fyrirtækjum og dregið verði líka úr skattskyldu erlendra einstaklinga en hún þó ekki afnumin að öllu leyti.

Fram kemur í greinargerð að ekkert annað ríki á Norðurlöndum leggur skatt á hagnað erlendra einstaklinga af sölu hlutabréfa og geldur Deloitte Legal varhug við því í umsögn um málið að Ísland eitt ríkja Norðurlandanna haldi áfram að skattleggja hagnað erlendra einstaklinga af sölu hlutabréfa.

Í umfjöllun ríkisskattstjóra um þetta er bent á að mismunandi skilyrði virðist eiga að gilda eftir því hvort um lögaðila eða menn sé að ræða. „Með framangreindri breytingu er verið að auka skattfrelsi aðila sem falla undir 3. gr. laganna sem (sic) verulega umfram heimildir íslenskra aðila,“ segir í umsögn ríkisskattstjóra. Sagt er að slíkt geti valdið „ójafnræði í skattlagningu þessara tekna ef slíkar tekjur sæta lítilli sem engri skattlagningu í heimilisfestisríki hins erlenda aðila eða upplýsingaskipti milli Íslands og heimilisfestisríkis hins erlenda aðila eru ekki tryggð.“

Þá vekur ríkisskattstjóri athygli á því „að í frumvarpinu eru engar sérstakar skorður settar á eignarhald í gegnum félög eða sjóði á lágskattasvæðum. Telja verður að talsverðar líkur séu á því að slíkt leiði til færslu eignarhalds á hlutabréfum í eigu íslenskra aðila til þekktra skattaskjóla eins og mörg dæmi voru um hér á árum áður. Það er mat ríkisskattstjóra að breytingar sem þessar auki hættu á skattasniðgöngu svo sem vegna dulins eignarhalds,“ segir í umsögn ríkisskattstjóra.

Í umsögn ríkisskattstjóra er mælt með því með tilliti til skattasniðgöngusjónarmiða „að tekið sé á skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa í einstökum tvísköttunarsamningum heldur en að veita slíkt almennt skattfrelsi á söluhagnaði hlutabréfa til erlendra aðila óháð heimilisfesti eins og hér um ræðir.“

Töluverð lækkun tekjuskatts

Fram kemur í umsögn kauphallarinnar Nasdaq á Íslandi að algengt sé að fallið sé alveg frá skattskyldu erlendra aðila vegna tvísköttunarsamninga sem Ísland hefur gert. Með því að falla alveg frá skattskyldu erlendra aðila vegna söluhagnaðar hlutabréfa í íslenskum hlutabréfum minnki það umstang sem fylgi hlutabréfaviðskiptum erlendra aðila hér og það greiði jafnframt leið erlendra fjárfesta inn í landið.

Meðal annarra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er að tíu ára tímamörk á heimild lögaðila og sjálfstætt starfandi rekstraraðila til frádráttar rekstrartaps fyrri ára verða felld brott en á sl. 20 árum hefur yfirfærsla taps fyrnst á tíu árum. Áhrif þess að fella niður tímamörk á nýtingu eftirstöðva rekstrartaps koma einkum nýsköpunarfyrirtækjum til góða. Áhrifin koma þó eðli máls samkvæmt ekki fram fyrr en að ellefu árum liðnum.

Um verulegar fjárhæðir getur þó verið að ræða verði tillagan lögfest. Ríkisskattstjóri vekur „í dæmaskyni“ athygli á því „að samkvæmt athugun á framtölum áranna 2021 til 2023 nam tap sem féll niður á grundvelli 1. málsl. 8 tölul. 31. gr. laganna samtals um 374 milljörðum króna. Sé litið til þessara síðustu þriggja ára nam reiknaður tekjuskattur á grundvelli taps sem féll niður um 75 milljörðum króna og hefur verulegur hluti þess skilað sér í auknum skatttekjum ríkissjóðs, samkvæmt athugun ríkisskattstjóra. Því má með hliðsjón af framangreindu reikna með töluverðri lækkun tekjuskatts til lengri tíma verði af fyrirhuguðum breytingum.“

Höf.: Ómar Friðriksson