Hildur Heimisdóttir
Hildur Heimisdóttir
Við höfum tækifæri til þess að sýna að við erum þjóð sem þorir að kjósa Baldur Þórhallsson sem forseta.

Hildur Heimisdóttir

Nýr forseti verður settur inn í embætti á Íslandi í byrjun ágúst. Sá forseti verður minn forseti því ég er svo lánsöm að búa í lýðræðisríkinu Íslandi. Það þýðir að ég, eins og við öll sem orðin erum átján ára, höfum vald til þess að hafa áhrif á það hver verður í embætti forsetans. Við höfum raunverulegt vald til þess að hafa áhrif. Við erum líka svo lánsöm að búa í þess konar lýðræðisríki að þegar kosningum er lokið höfum við sameinast um að kalla þann einstakling sem flest atkvæði fær okkar forseta, hvað sem okkar fannst þennan vormánuð meðan frambjóðendur tókust á um hvert myndi standa uppi sem sigurvegari.

Í ljósi þessa þarf hvert og eitt okkar að gera upp hugann og velja hvernig við viljum hafa áhrif. Ég hef ákveðið að standa með Baldri Þórhallssyni. Ákvörðun mín byggist á því að Baldur er dagfarsprúður maður, hann er vel að sér í málefnum lands og þjóðar, kann að tala við börn og þau sem minna mega sín í samfélaginu og kemur vel fyrir í viðtölum í sjónvarpinu. Þetta held ég að geti nýst ágætlega í forsetaembættinu. Ég reyni líka að sjá fyrir mér þegar erlendir gestir koma á Bessastaði, þá held ég að þeir Felix geti tekið vel á móti gestum. Ég sé líka fyrir mér að þeir geti verið verðugir fulltrúar lands og þjóðar á erlendri grund.

Fyrir fjórtán árum, þegar hjónaband samkynhneigðra og sorphaugar voru nefnd í sömu andrá, fór ég á fund þáverandi biskups til þess að ræða það sem ég í sakleysi mínu taldi misskilning eða í versta falli illa orðaðar skoðanir. Hann tjáði mér að við Íslendingar þyrftum að gæta þess að aðrar þjóðir líta til okkar. Við erum fyrirmynd margra annarra.

Þetta held ég að sé laukrétt og þá eins og nú höfum við tækifæri til þess að vera góð fyrirmynd. Við höfum tækifæri til þess að sýna að við erum þjóð sem þorir að kjósa Baldur Þórhallsson sem forseta og slá með því tvær flugur í einu höggi; við fáum góðan forseta og verðum öðrum þjóðum góð fyrirmynd sem þjóð sem þorir.

Höfundur er kennari og stolt stuðningskona Baldurs Þórhallssonar.