Vot gröf Grimmileg örlög Titanic hafa lengi heillað ævintýramenn.
Vot gröf Grimmileg örlög Titanic hafa lengi heillað ævintýramenn. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Bandarískur auðkýfingur hefur sett stefnuna á flak Titanic sem hvílir á um 3.800 metra dýpi. Vill hann með því sanna að með réttri tækni sé hættulaust að ferðast þangað niður. Í júní næstkomandi verður ár liðið frá því að kafbáturinn Titan fórst með fimm farþegum innanborðs. Talið er víst að þeir hafi allir látist samstundis þegar kafbátur þeirra féll skyndilega saman vegna bilunar í ytra byrði bátsins.

„Ég vil sýna heiminum öllum að á sama tíma og sjórinn er afar kröftugur þá getur hann einnig verið dásamlegur – eitthvað til að njóta fari menn rétt að,“ sagði fasteignamógúllinn Larry Connor í samtali við Wall Street Journal, en hann hyggst nú ásamt Patrick Lahey kafa niður að skipsflakinu sögufræga. Lahey þessi er af mörgum talinn einn reyndasti kafbátastjórnandi sem finna má utan sjóherja.

Triton skal takast verkið

Auk þess að vera reyndur stjórnandi er Lahey eigandi fyrirtækis sem hannað hefur og smíðað kafbátinn Triton 4000/2 Abyssal Explorer. Talan 4000 vísar til þeirra fjögur þúsund metra sem báturinn á að geta kafað án þess að falla saman undan miklum þrýstingi hafsins. Triton ætti því að geta náð niður að flaki Titanic og gott betur en það.

Rannsókn á Titan-slysinu leiddi m.a. í ljós að kafbáturinn uppfyllti ekki öryggiskannanir. Var bæði hönnun bátsins og búnaður gagnrýndur af sérfræðingum. Þeir sem standa að hönnun Triton segja sinn bát aftur á móti uppfylla settar kröfur. Báturinn á að þeirra sögn að þola endurteknar ferðir niður að flaki Titanic.

Höf.: Kristján H. Johannessen