Hönnun Falleg húsgögn verða til í þáttunum.
Hönnun Falleg húsgögn verða til í þáttunum.
Danir hafa lengi skarað fram úr í heimi hönnunar og státa af mörgum húsgögnum sem kalla má klassík. Danska ríkissjónvarpið, DR, hefur tekið útgangspunkt í þessari staðreynd við gerð þáttanna Danmarks næste klassiker en þar er takmarkið einmitt að…

Ragnheiður Birgisdóttir

Danir hafa lengi skarað fram úr í heimi hönnunar og státa af mörgum húsgögnum sem kalla má klassík. Danska ríkissjónvarpið, DR, hefur tekið útgangspunkt í þessari staðreynd við gerð þáttanna Danmarks næste klassiker en þar er takmarkið einmitt að finna húsgagn sem getur orðið að klassík og þjóðin má vera stolt af.

Fimm húsgagnahönnuðir etja kappi í hverri þáttaröð en hver þáttur hverfist um eitt húsgagn, til dæmis hægindastól eða lampa. Hönnuðirnir fá þrjár vikur til þess að hanna og framleiða húsgagnið og áhorfendur fylgjast með öllu ferlinu. Það er virkilega áhugavert að sjá hugmyndirnar verða að veruleika. Maður kynnist hverjum keppanda vel enda eru þættirnir hlýir og persónulegir þótt fókusinn sé að mestu á hönnun og handverk. Hönnuðirnir eru skemmtilega ólíkir, sumir eru handverksmenn en aðrir hafa listrænni bakgrunn.

Tveir dómarar meta síðan húsgögnin og er einn sigurvegari valinn í hverjum þætti en ekki er um að ræða útsláttarkeppni heldur fá keppendurnir að spreyta sig á öllum þrautunum. Í lok þáttaraðarinnar er síðan eitt af vinningshúsgögnunum útnefnt „næsta klassík Danmerkur“. Ég mæli heilshugar með þessum þáttum fyrir alla fagurkera enda er frumleiki og fegurð í forgrunni.