Hvalveiðar Fátt bendir til hvalveiða.
Hvalveiðar Fátt bendir til hvalveiða. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Þessi vinnubrögð eru með hreinum ólíkindum. Umsókn Hvals hf. um leyfi til hvalveiða hefur legið óhreyfð í ráðuneytinu í hartnær fjóra mánuði og nú fyrst er leitað umsagna um hana og meira að segja til aðila sem ekkert hafa um málið að segja. Samkvæmt lögum um hvalveiðar ber aðeins að leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar, ekki annarra,“ segir Kristján Loftsson framkvæmdastjóri Hvals í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Þessi vinnubrögð eru með hreinum ólíkindum. Umsókn Hvals hf. um leyfi til hvalveiða hefur legið óhreyfð í ráðuneytinu í hartnær fjóra mánuði og nú fyrst er leitað umsagna um hana og meira að segja til aðila sem ekkert hafa um málið að segja. Samkvæmt lögum um hvalveiðar ber aðeins að leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar, ekki annarra,“ segir Kristján Loftsson framkvæmdastjóri Hvals í samtali við Morgunblaðið.

Óskað umsagna frá 16 aðilum

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur boðað að hún hyggist óska eftir umsögnum frá þremur stofnunum og 13 hagaðilum svokölluðum, um umsókn Hvals hf. um leyfi til veiða á langreyðum. Umsókn Hvals barst ráðuneytinu 30. janúar sl., þ.e. fyrir nær fjórum mánuðum, en veittur er frestur til svars til 4. júní. Hvalveiðar hafa vanalega hafist í byrjun júní.

„Umsókn okkar um leyfi til hvalveiða barst matvælaráðuneytinu í ráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur, en þá var Svandís Svavarsdóttir komin í veikindaleyfi. Þetta segir mér að Katrín hefur ekki verið að vinna vinnuna sína. Svo ætlar fólk að fara að kjósa hana á Bessastaði. Hún mun væntanlega ekki svara neinum fyrirspurnum sem til forsetaembættisins berast, verði hún kosin, ef þetta eru vinnubrögðin sem hún temur sér. Enda rímar þetta vel við það hvernig stalínistar vinna,“ segir Kristján, heitt í hamsi.

Vonlaus staða fyrir Ísland

„Katrín var matvælaráðherra frá 22. janúar þar til ný ríkisstjórn tók við 9. apríl. Þetta gerist allt á hennar vakt. Svo eru menn eins og Vilhjálmur Birgisson að gagnrýna að hvalveiðileyfið skuli ekki hafa verið veitt, en hann gengur svo fram fyrir skjöldu og segist ætla að kjósa sama aðila og níðist á umbjóðendum hans í Verkalýðsfélagi Akraness,“ segir Kristján og bætir við: „Hvað mig varðar er það algerlega vonlaus staða fyrir lýðveldið Ísland að fá þessa konu á Bessastaði. Mér líst ekki á blikuna.“

Auk Hafrannsóknastofnunar er óskað umsagna Fiskistofu og Matvælastofnunar, en hinir aðilarnir 13 eru Samtök ferðaþjónustunnar, Hvalaskoðunarsamtök Íslands, Dýraverndarsamband Íslands, Samtök um dýravelferð á Íslandi, Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd, Félag kvikmyndagerðarmanna, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Verkalýðsfélag Akraness, Félag skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit.