Valdimar Ármann og Snorri Jakobsson voru gestir í Dagmálum.
Valdimar Ármann og Snorri Jakobsson voru gestir í Dagmálum.
„Til lengri tíma mun verðlagningin skila sér þannig að það sem er ódýrt mun að lokum ná réttu verði þegar markaðsaðstæður eru réttar,“ segir Valdimar Ármann, fjárfestingastjóri hjá A/F rekstraraðila, en hann var gestur í Dagmálum ásamt Snorra Jakobssyni, eiganda Jakobsson Capital

„Til lengri tíma mun verðlagningin skila sér þannig að það sem er ódýrt mun að lokum ná réttu verði þegar markaðsaðstæður eru réttar,“ segir Valdimar Ármann, fjárfestingastjóri hjá A/F rekstraraðila, en hann var gestur í Dagmálum ásamt Snorra Jakobssyni, eiganda Jakobsson Capital. Þeir fóru yfir stöðu og horfur á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðnum.

„Sprota- og vaxtarfyrirtækin hafa fangað athygli hjá fjárfestum en mestu tækifærin liggja ekki endilega þar,“ bendir Snorri á.

Markaðsaðstæður hafa verið erfiðar að undanförnu en hlutabréfavísitala Aðalamarkaðarins hefur lækkað um 5,8% það sem af er ári. Valdimar segir að margt spili þar inn í, meðal annars hátt vaxtastig og að útgáfur á markaði hafi tekið pening til sín.

„Fólk er að fá mjög góða ávöxtun á bankabókum og stuttum fyrirtækjavíxlum og fjárfestar halda að sér höndum og bíða. Verðlagning á markaði er ágæt í flestum fyrirtækjum og lítur ekkert illa út heilt yfir. Alvotech hefur tekið pening til sín í hlutafjárútboðum, lífeyrissjóðir hafa keypt Heimstaden fyrir tugi milljarða, Controlant er að taka til sín pening, Play í hlutafjárútboði, Oculis skráð á markað og svo lengi mætti telja,“ segir Valdimar.

Hann bendir á að salan á Íslandsbanka sé líka risastórt útboð sem hangir yfir markaðnum.

„Skilaboðin síðasta haust voru að það ætti að selja hann sem fyrst og klára það í haust en það hefur verið að frestast. Menn vita að þetta er að koma og þá að sjálfsögðu hinkra menn,“ bætir Valdimar við.

Skuldabréfin bjóði upp á áhugaverð tækifæri

Valdimar bendir á að skuldabréfamarkaðurinn hafi sveiflast með væntingum um hvenær vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist. Evrópski seðlabankinn sé að sigla á þann stað að hann geti farið að lækka vexti en staðan sé önnur hér á landi.

„Hér heima erum við á öðrum slóðum og hagkerfið í flókinni stöðu. Það er eins og við séum með hægri fótinn í sjóðandi heitu vatni og vinstri fótinn í ísköldu vatni þannig að meðaltalið er eins. Seðlabankinn sér hagkerfið vera nokkuð sterkt. Það fer eftir því við hvern þú talar hvernig staðan er metin. Einhver segir að hér sé allt í kaldakoli og það eru gjaldþrot fram undan meðan annar segir að hér sé allt í fína lagi og peningamagn í umferð að aukast.“

Valdimar bætir við að skuldabréfamarkaðurinn sé að melta þessar tölur. Skuldabréfamarkaðurinn bjóði líka upp á áhugaverð tækifæri.

„Það er mikil útgáfa og mikil tækifæri á þessum markaði í dag,“ segir Valdimar.