Jens segir að Geo Salmo þurfi aðeins fjórðung þess rafmagns sem til dæmis álfyrirtækin nota til að skapa sömu útflutningstekjur.
Jens segir að Geo Salmo þurfi aðeins fjórðung þess rafmagns sem til dæmis álfyrirtækin nota til að skapa sömu útflutningstekjur. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
 Við erum að taka þessa grunntækni skrefinu lengra.

Eins og fram kom í máli Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Ölfuss, í úttekt ViðskiptaMoggans í október 2023 eru áætlaðar fjárfestingar í landeldi á laxi í Þorlákshöfn samtals um þrjú hundruð milljarðar króna á næstu árum. Nokkur eldisfyrirtæki eru í óðaönn að byggja upp starfsemi sína í bænum. Þar á meðal er Geo Salmo. Áætlaðar fjárfestingar þess eru um þriðjungur heildarfjárhæðarinnar sem Elliði nefndi, eða ríflega eitt hundrað milljarðar króna.

Jarðvegsframkvæmdir eru komnar á fullt skrið en á lóð félagsins munu rísa fiskeldisstöð og tengdar byggingar.

„Heildarfjárfesting í fyrsta áfanga er þrjátíu og sjö milljarðar. Áfangarnir verða þrír og mögulega fleiri. Lóðin okkar er stór og gæti í raun rúmað allt að 90 þúsund tonna framleiðslu verði möguleikarnir nýttir til hins ýtrasta,“ segir Jens Þórðarson framkvæmdastjóri Geo Salmo í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Í raun liggur beint við að fara upp í slíkt framleiðslumagn fáist til þess öll tilskilin leyfi og næg orka í fyllingu tímans.“

Samtals 27 þúsund tonn

Fyrsti áfanginn á að framleiða 7.200 tonn af laxi á ári. Í næstu tveimur áföngum bætast við tvisvar sinnum tíu þúsund tonn. Samtals eru það rúmlega 27 þúsund tonn.

Hann segir að framkvæmdin sé á meðal stærstu framkvæmda sem einkaaðili hefur ráðist í á Íslandi.

„Þetta er af sömu stærðargráðu og stóriðja eins og álver. Ef við förum upp í þrjátíu þúsund tonna framleiðslu erum við komin vel yfir 100 milljarða kostnað. Það er ágætis pakki,“ segir Jens og brosir.

Stefnt er að því að fyrsti hluti stöðvarinnar verði tekinn í notkun árið 2026. Fyrstu afurðir koma á markað 2027.

Jens segir að framkvæmdaféð verði í bland bankafjármögnun og hlutafé.

„Í raun erum við að safna fé í tveimur til þremur skrefum. Nú erum við með hlutafjáraukningu í gangi sem kemur til viðbótar þeim tveimur milljörðum sem við söfnuðum í forútboði síðastliðið haust. Þá tóku Skel fjárfestingafélag, Úthafsskip, eigendur sjávarútvegsfélagsins Eskju ásamt norsku iðnaðarsamsteypunni Endúr ASA og tengdum aðilum þátt, ásamt hollenska fiskvinnslu- og dreifingarfyrirtækinu Adri & Zoon.“

Samstarfsaðilar Geo Salmo í yfirstandandi hlutafjáraukningu eru Arion Banki og norsku bankarnir DNB og Sparebanken 1.

„Við erum að kynna verkefnið fyrir fjárfestum þessa dagana. Það gengur mjög vel. Fjármögnunin ætti að klárast á næstu mánuðum.“

Finnur fyrir áhuga

Spurður almennt um hvernig gangi að safna fé til starfseminnar og hvernig fjárfestar meti áhættuna í verkefninu segist Jens finna fyrir áhuga á greininni.

„Fólk hefur litið á þetta sem áhættusama fjárfestingu en við svörum því með því að velja tækni og útfærslu sem er margreynd annars staðar. Við byggjum á mjög góðri reynslu hjá teyminu okkar. Við teljum að við getum brugðist afar vel við þeim áhættuþáttum sem upp koma í svona verkefnum. Við höfum fengið ágætis viðbrögð við því. Önnur landeldisfyrirtæki eins og First Water og Laxey hafa lokið fjármögnun nýverið. Það sýnir að það er áhugi á geiranum. Við vitum að þessi grein á mikið inni og það er frábært að sjá fjárfesta taka undir það.“

Spurður að því hvort hann hafi markmið um hlutfall erlendrar og íslenskrar fjárfestingar í félaginu neitar Jens því. Mestu skipti að hafa góðan hóp í kringum félagið.

„Það er gaman að vera með góðan hóp íslenskra fjárfesta, en verkefnið er stórt og alþjóðlegt fjármagn getur verið mikill styrkleiki. Við fiskum í báðum tjörnum og vinnum bæði með íslenskum og erlendum bönkum að málinu.“

Ég inni Jens eftir forsögunni, hvernig verkefnið fór af stað. Hann segir að stofnandinn, Aðalsteinn Jóhannsson fjárfestir, hafi fljótlega fengið í lið með sér fólk með mikla reynslu og þekkingu af fiskeldi.

„Fyrsta teymi Geo Salmo á rætur að rekja til fiskeldisfyrirtækisins Benchmark Genetics. Einn fyrsti starfsmaður Geo Salvo var stöðvarstjóri í því fyrirtæki.“

Til útskýringar þá elur og kynbætir Benchmark Genetics hrygnur upp í fimmtán kílógrömm að þyngd. Þá eru hrognin kreist út og við taka seiðaeldis- og fiskeldisstöðvar sem klekja eggin og ala fiskinn upp.

Fljótlega var farið að leita að samstarfsaðila til að byggja stöðina.

„Okkur fannst nauðsynlegt að vanda valið þegar að því kom. Það er komin mikil reynsla á uppbyggingu landeldisstöðva hjá stærstu fyrirtækjunum í bransanum. Við fórum á stúfana og vorum svo heppin að kynnast norska fyrirtækinu Artec Aqua. Það hefur sérhæft sig í hönnun landeldisstöðva. Þau eru nýbúin að byggja landeldisstöðina Salmon Evolution í Noregi. Hún hefur náð hvað bestum árangri í geiranum á síðustu tveimur árum og reksturinn er sérlega stöðugur og góður. Það hefur verið frábært að vinna með þeim og nýta þeirra góðu reynslu til að tryggja sambærilegan árangur á Íslandi. Stöðin okkar verður mjög svipuð þeirri norsku.“

Verður ekkert séríslenskt við stöðina?

„Nei, ekki nema skilyrðin sem eru óvenju góð hér í samanburði við norsku stöðina. Við nýtum jarðsjó sem er merkileg auðlind á stöðugu hitastigi. Sjórinn er hreinn og tær eftir að hafa seytlað að borholum okkar í gegnum jarðveg og hraunlög. Þetta er sérlega gott fyrir okkar starfsemi og hefur verið notað með góðum árangri um árabil.“

Af þessu leiðir að Geo Salmo kemur ekki til með að þurfa að meðhöndla sjóinn mikið.

„Við hitum hann og gefum honum loftun, en ekki mikið annað. Í Noregi þarf til samanburðar að geisla og dauðhreinsa vatnið sem notað er í kerin. Þess þarf ekki hér.“

Aðgangur að raforku er einnig góður.

„Það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki í svona umfangsmikilli og orkufrekri starfsemi að geta haft aðgang að stöðugleika á þessu sviði svo framtíðin verði engri óvissu undirorpin. Við fáum 28 MW af orku frá Orku náttúrunnar. Íslensk orkufyrirtæki bjóða upp á langtímasamninga – sem er einstakt.“

Af hverju er landeldi svona frekt á raforkuna?

„Það felst einkum í því hve dæling á vatni er mikil í stöðinni. Starfsemin gengur að miklu leyti út á að tryggja gæði vatnsins sem fiskurinn er alinn í. Til þess þarf bæði að dæla vatni upp úr jörðinni en einnig að meðhöndla það í stöðinni sjálfri í endurnýtingarlykkju. Þar er vatnið hreinsað af koldíoxíði sem fiskurinn andar frá sér. Svo notum við rafmagnið líka til að hita vatnið sem þó er lítill hluti notkunarinnar.“

En hver er raforkunotkunin í samanburði við aðra orkufreka starfsemi í landinu?

„Það fer eftir því við hvað er miðað. En ef við horfum á verðmætið þá þurfum við aðeins fjórðung þess rafmagns sem til dæmis álfyrirtækin nota til að skapa sömu útflutningstekjur.“

Jens segir að fyrsti áfanginn muni krefjast 10-12 Mw af orku.

„Það telst stóriðja. Við erum með tryggð 28 Mw fyrir áframhaldandi vöxt en fullbyggð þarf stöðin enn meira. Orkan sem við höfum tryggt nú þegar dugar fyrir 22-24 þúsund tonna framleiðslu.“

Annað séríslenskt við starfsemi Geo Salmo er góður aðgangur að laxamörkuðum bæði austan hafs og vestan.

Ekkert annað land getur siglt með ferskan lax á báða markaði samtímis. Það er t.d. sérstaklega hagfellt að geta siglt með ferskan lax til Bandaríkjanna þar sem verðið er hærra.“

Alþjóðleg heimsmarkaðsvara

Jens segir ekki mikið mál að koma vörunni í verð.

„Lax er orðinn þekkt alþjóðleg heimsmarkaðsvara sem ekki er mikið mál að koma í verð. Þetta snýst meira um að ná sem bestu verði. Það er það sem öll fiskeldisfyrirtæki miða að.“

Aðspurður segir Jens að salan fari helst fram í gegnum heildsala og milliliði sem kaupi mikið magn og selji áfram. Þó segir hann ekki loku fyrir það skotið að fiskeldisfyrirtæki eins og Geo Salmo geti selt beint til stórmarkaða og veitingastaða.

Jens segir að vinnan í Þorlákshöfn þokist áfram.

„Það gengur vel. Við ætlum líka að klára seiðastöðina okkar á Laugum í Landsveit samhliða. Við nýtum eldri fiskeldisstöð á staðnum. Hana erum við að endurbæta ásamt því að byggja nýtt eldishús á staðnum. Rekstur hefst vonandi með haustinu. Laugar í Landsveit eru í klukkutíma akstursfjarlægð frá Þorlákshöfn. Þar er nóg af köldu og volgu vatni sem er það helsta sem þarf til seiðaeldis í ferskvatni.“

Hann bætir við að framkvæmdunum fylgi önnur umsvif svo sem boranir eftir vatni.

„Það er stefnt að því að seiðaeldið verði með framleiðslugetu uppá 1,8 milljónir 120 gramma seiða á ári.“

Er nauðsynlegt fyrir fiskeldisfyrirtæki að reka sitt eigið seiðaeldi?

„Okkur finnst það þægileg tilhugsun. Þá erum við okkar eigin gæfu smiðir og höfum stjórn á öllu ferlinu. Langflest fyrirtæki sem framleiða matfisk eru með sitt eigið seiðaeldi.“

Jens verður tíðrætt um tæknina í landeldinu sem farið hefur mikið batnandi undanfarið. Hann segir hana þó í grunninn einfalda og hafi verið notuð í fiskeldi árum saman.

En hvað er verið að tala um þegar rætt er um tækni og hátækni í þessari starfsemi?

„Það er þessi búnaður sem á að tryggja gæði vatnsins. Tæknin okkar er samt í grunninn sú sama og önnur íslensk fyrirtæki nota og hafa notað árum og áratugum saman. Það sem við komum með nýtt að borðinu í samstarfi við norsku aðilana er yfirgripsmeiri stýring á öllum þáttum rekstursins. Við erum með lokað eldiskerfi með hitastýringu á inntaksvatni ásamt fleiri þáttum sem við tökum stjórnina á og stýrum. Það hefur minna verið gert af því í gegnum tíðina á Íslandi. Þannig að við erum að taka þessa grunntækni skrefinu lengra og fara í stærri útgáfur af tækninni og umfanginu en gert hefur verið áður. Mest snýst þetta um að samþætta allan búnað, stýringar, utanumhald og mælingar, safna gögnum og tryggja að stöðin sé í raun rekin eins og iðnvél. Til framtíðar má segja að tækni verði þó aldrei samkeppnisforskot neins fyrirtækis í landeldi. Það munu allir enda í sömu tækni. Það er þá frekar þessar náttúrulegu aðstæður, landnæði, leyfi, fólk og annað sem fyrirtæki munu ná langt í og skapa sér sérstöðu fyrir.“

Aðspurður segir Jens að viðmót fólks gagnavart landeldi sé yfirleitt jákvætt á Íslandi. Íslendingar virðist gera sér vel grein fyrir út á hvað starfsemin gengur og hver munurinn er á landeldi og sjókvíaeldi.

Hið síðartalda hefur verið talsvert í umræðunni síðustu misserin, m.a. vegna slysasleppinga og laxalúsar.

„Ísland hefur ákveðna sérstöðu. Fólk veit almennt hvað landeldi er og virðist vera jákvætt gagnvart því. Erlendis er kannski minni almenn þekking á því hvernig lax er framleiddur.“

Um laxalúsina segir Jens að engin leið sé fyrir lúsina að komast inn í landeldið.

„Við tökum vatnið í kerin ekki inn af laxeldissvæðum og það er engin upptaka af sjúkdómum í nágrenninu. En auðvitað er aldrei hægt að vera 100% viss um neitt. Ef sjúkdómar berast inn þá er mikilvægast að vera með góðan búnað og kerfi og sterkt eldisteymi til að bregðast við og koma í veg fyrir stórtjón.“

Jens segir mikilvægt í allri ímyndarvinnu að standa við það sem sagt er.

„Við leggjum metnað í að vera með góða framleiðslu þar sem dýrunum líður vel og umhverfisáhrif eru lágmörkuð.“

En er einhver hætta á að laxar sleppi úr landeldiskerum?

Jens segir að aldrei sé hægt að útiloka neitt. Hættan sé þó hverfandi.

„Það er hægt að búa stöðina þannig úr garði að það gerist ekki. Allt affallsvatn, sem fiskarnir gætu borist út með, fer í gegnum margfalda síun. En auðvitað geta mistök átt sér stað. Þá er mikilvægt að vera með kerfi sem koma í veg fyrir það, svipað og í flugrekstri,“ segir flugrekstrarstjórinn fyrrverandi.

Það er ljóst að þörf fyrir prótín á eftir að aukast mikið á heimsvísu á næstu árum eins og Jens útskýrir. Áætlað er að eftirspurnin eigi eftir að tvöfaldast frá 2017 til 2050.

„Eldislax er það prótín sem er hvað umhverfisvænast að framleiða og fólk neytir lax í mörgum ólíkum myndum, grafins, soðins, grillaðs o.s.frv. Möguleikar á aukningu í framleiðslu eru hins vegar mjög takmarkaðir í sjó með auknum hömlum sem settar eru á sjókvíar. Það hefur rutt veginn fyrir hraða þróun á eldi á landi þar sem tæknin hefur eflst mjög hratt og fagmennskan í greininni vaxið mikið á undanförnum árum,“ útskýrir Jens.

Allt árið um kring

Hann segir að vegna vinsælda afurðarinnar sé fyrirséð að markaðsuppbygging verði ekki viðamesta verkefni Geo Salmo.

„Stóra verkefnið er að koma framleiðslugetunni upp, gera það vel og tryggja að við náum markmiðum okkar. Að skila fiski síðan í sölu allt árið um kring er mjög mikilvægt þegar verið er að selja sjávarafurðir.“

Tólf manns vinna í dag hjá Geo Salmo og mun starfsmannahópurinn vaxa jafnt og þétt á næstu misserum í takt við uppbygginguna í Þorlákshöfn.

„Þetta er fjölbreyttur hópur fólks með mikla reynslu sem spannar bæði fiskeldi, framkvæmdir, fjármál og rekstur. Að auki er fyrirtækið í þéttu samstarfi við norska fyrirtækið Artec Aqua eins og ég minntist á hér á undan, fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í hönnun landeldisstöðva. Það þarf mikinn mannauð með fjölbreyttan bakgrunn til að verkefni af þessari stærðargráðu gangi upp. Í eigendahópi fyrirtækisins er einnig stórhuga fólk með mikinn metnað, reynslu og þekkingu sem kemur sér vel þegar farið er af stað í jafn viðamikið uppbyggingarverkefni,“ segir Jens að lokum.

Úr flugrekstri í fiskeldi

Jens var ráðinn til Geo Salmo í lok árs 2021. Áður stóð hann oft í stórræðum sem framkvæmdstjóri flugrekstrarsviðs Icelandair á tímum þegar vindar blésu um félagið, m.a. vegna vegna kyrrsetningar Boeing Max-flugvélanna og covid-19-faraldursins.

Þegar Jens og blaðamaður eru sestir niður með kaffi og sódavatn í fundarherbergi á annarri hæð nýrra höfuðstöðva félagsins við Tónahvarf í Kópavogi fýsir blaðamann að vita hvort verkefnin séu ekki ólík, flugrekstur og laxeldi.

„Jú að mestu leyti er talsverður munur á þessum greinum. Hrynjandin er önnur. Nú er ég kominn í stórt langtíma uppbyggingarverkefni í stað þess daglega amsturs sem einkennir flugreksturinn. Þó er hægt að finna ótrúlega marga sameiginlega fleti á milli þessara tveggja starfa,“ segir Jens.

Þar nefnir hann að í báðum geirum sé verið að keyra mikilvæg hátæknileg gæðakerfi sem þurfi mikið og gott utanumhald svo allt gangi smurt.

„Í báðum tilvikum er lögð áhersla á að tryggja stöðugan og góðan rekstur og huga að utanumhaldi og öryggi. Það er mjög frískandi að skipta svona um starfsvettvang og gera eitthvað alveg nýtt. Þó að stundum sé talað um fiskeldi eins og hvern annan búskap þá er þetta í raun blanda af landbúnaði, hátækniiðnaði og sjávarútvegi. Það sameinast allt í þessu verkefni.“