Inga Skaftadóttir fæddist í Keflavík 17. mars 1953. Hún lést á Landspítalanum 15. maí 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Skafti Friðfinnsson og Sigríður Svava Runólfsdóttir. Systkini hennar eru: Runólfur, f. 1947; Þórunn, f. 1949; stúlka andvana fædd 1950; Gunnhildur f. 1956; Friðfinnur, f. 1958; Einar, f. 1960; Páll, f. 1965.

Inga giftist 9. október 1981 Birgi Vilhelm Sigurðssyni, f. í Reykjavík 25. nóvember 1949. Foreldrar hans voru Sigurður Vilhelm Jensen og Soffía Aðalbjörg Björgvinsdóttir. Börn Ingu og Birgis eru: 1) Svava, f. 1982. Maki Janus Egholm. Dætur þeirra eru: Annika Ósk, f. 2009, og Eva Sóley, f. 2010. 2) Pétur, f. 1993. Unnusta Andrea Dögg Gylfadóttir. Þau eiga eina dóttur, Ólöfu Heklu, f. 24. janúar 2024.

Inga ólst upp í Keflavík en fór síðan til náms í Reykjavík og var í fyrsta stúdentsárgangi Menntaskólans við Tjörnina sem útskrifaðist árið 1973. Meðfram námi í líffræði við Háskóla Íslands starfaði Inga hjá Blóðbankanum, sem varð hennar aðalvinnustaður eftir að námi lauk. Hún sérhæfði sig í erfða- og ónæmisfræði, en verkefnin voru síðar færð til Landspítala sem var sá vinnustaður þar sem hún starfaði lengst. Einnig starfaði hún um fjögurra ára skeið við Rikshospitalet í Osló, Institutt for transplantasjonsimmunologi og um tíma á Rannsóknarstofu HÍ í ónæmiserfðafræði. Inga var meðhöfundur margra greina á sínu sviði og leiðbeindi meistara- og doktorsnemum.

Útför Ingu fer fram í Grensáskirkju í dag, 29. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Inga systir er dáin. Það er einkennilegt til þess að hugsa, sérstaklega þar sem hún var hraust alla tíð og kenndi sér ekki meins fyrr en í mars, fyrir aðeins tveimur mánuðum. Enginn átti von á því að hún væri svona mikið veik og að atburðarásin yrði svona hröð.

Ég fékk fréttina klukkutíma eftir andlátið og þá söng enn í höfði mér lokasöngur tónleikanna sem ég var nýkominn af: „Vertu nú yfir og allt um kring …“ Og hann syngur enn. Mér reiknast til að á meðan við kórfélagarnir sungum sálminn af mikilli innlifun hafi Inga kvatt þennan heim. Og því voru þetta bænarorð til hennar.

Inga ólst upp í barnahópi, þriðja af sjö systkinum, en auk þess bjó amma hennar og nafna einnig á heimilinu. Vinnustaður föður hennar var á neðri hæðinni og heimilið og vinnustaður móður hennar á efri hæð. Það var því mikil nálægð innan þessarar stóru fjölskyldu. Á sama tíma fóru flest börnin til Reykjavíkur í menntaskóla og því var líka ákveðin fjarlægð eftir grunnnámið. Reyndar héldu systkinin hópinn í Reykjavík og haustið sem Inga hefur nám í Menntaskólanum við Tjörnina flytja þau saman á Bragagötu, sem varð fjölskyldunnar annað heimili. Þetta haust er ég aðeins fjögurra ára og sé hana því í raun mest sem gest á veturna. Hún og fleiri systkini komu gjarnan með rútunni seinni part laugardags, strax eftir skóla, og fóru aftur á sunnudagskvöldi. Sunnudagur var því gjarnan hátíðisdagur á okkar heimili og mamma sá til þess að það var veisla allan daginn. Pabbi bauð gjarnan upp á fjöruferðir um Reykjanesskagann, til að skoða fugla og náttúru. Þessi náttúruáhugi pabba hefur vafalítið smitað Ingu líkt og hinar systurnar, því allar urðu þær náttúrufræðingar. Inga vann einhver sumur á spítalanum í Keflavík og síðan á háskólaárunum hjá Blóðbankanum. Það atvikaðist því þannig að hún lagði fyrir sig þess konar líffræði, og sinnti í raun blóðrannsóknum alla ævi. Bæði hérlendis en einnig í Noregi þar sem fjölskyldan bjó um tíma. Ekki voru nema nokkrir mánuðir frá því að hún hætti störfum á Landspítalanum þar til hún veiktist. Inga var alltaf dugleg að hreyfa sig og hjólaði alla tíð mikið bæði sér til yndisauka og eins einfaldlega til að komast á milli staða. Það gerði hún löngu áður en það almennt tíðkaðist. Segja má að Inga hafi verið hjúkrunarfræðingur fjölskyldunnar, því allt tengt heilsufari var lagt undir hana og aðdáunarvert var að sjá hvað hún annaðist foreldra okkar af mikilli natni og kærleika. Inga tók sér aldrei mikið pláss en vann verk sín í hljóði. Hún var oftar en ekki í öðru sæti og allir aðrir en hún þurftu hjálp og stuðning. Missir fjölskyldunnar er mikill. Ég læt sálminn góða sem ég nefndi í upphafi fylgja:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Guð blessi minningu Ingu, og styrki ykkur kæru Birgir, Svava, Pétur og fjölskyldur.

Páll Skaftason.