Guðmundur Gíslason, forstjóri Kaldvíkur, áður Ice Fish Farm.
Guðmundur Gíslason, forstjóri Kaldvíkur, áður Ice Fish Farm. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Laxeldisfyrirtækið Ice Fish Farm hefur tekið upp nafnið Kaldvík. Þetta var tilkynnt á markaðsdegi félagsins á Eskifirði í gær. Félagið verður skráð á íslenska First North-markaðinn en fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf félagsins er í dag

Laxeldisfyrirtækið Ice Fish Farm hefur tekið upp nafnið Kaldvík. Þetta var tilkynnt á markaðsdegi félagsins á Eskifirði í gær. Félagið verður skráð á íslenska First North-markaðinn en fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf félagsins er í dag. Hlutabréf félagsins verða því tvískráð á Íslandi og á Euronext Growth Olso-markaðinn.

Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Kaldvíkur, sagði í viðtali við Austurfréttir að eftir samruna félaganna árið 2022 hefði verið ólík menning innan þeirra. Fyrir ári hefði farið af stað vinna við að móta sameiginlega stefnu með þátttöku alls starfsfólks. Hann sagði fyrirtækið, sem er á Eskifirði, búa að sterkri hefð í sjávarútvegi. Austfirðingar hefðu í gegnum aldirnar nýtt firðina og landið á sjálfbæran hátt en líka fært fórnir.

Félagið er með leyfi til þess að ala rúmlega 43.800 tonn af laxi auk þess sem 10.000 tonna leyfi bíður staðfestingar. Félagið stefnir á að slátra um 21.500 tonnum á árinu 2024.