Íslendingar þurfa nú að venjast nýjum umferðarmerkjum en í mars tók ný reglugerð gildi. Nokkuð hefur bæst í flóruna og sem dæmi má nefna að fjögur ný viðvörunarmerki hafa bæst við á vegunum. Er þar varað við holum í veginum, skertri sýn vegna veðurs, umferðartöfum og slysum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslendingar þurfa nú að venjast nýjum umferðarmerkjum en í mars tók ný reglugerð gildi.

Nokkuð hefur bæst í flóruna og sem dæmi má nefna að fjögur ný viðvörunarmerki hafa bæst við á vegunum. Er þar varað við holum í veginum, skertri sýn vegna veðurs, umferðartöfum og slysum.

Tekin voru upp á fimmta tug nýrra umferðarmerkja, á annan tug nýrra yfirborðsmerkinga og tvenn ný umferðarljós. Breytingar eru þá gerðar á útliti á um fimmta tug merkja og á sjöunda tug merkja felld á brott, nær alfarið þjónustumerki samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu.

Tekið er upp nýtt númerakerfi fyrir umferðarmerki í anda númerakerfis norskra umferðarmerkja. Í ljósi mismunandi merkja og kaflaskiptingar er íslenska númerakerfið þó ekki eins og það norska.

Lágmarkshraði

Ef ökumenn sjá blátt skilti þar sem talan 50 er máluð hvítum stöfum þá er það ekki til marks um að hámarkshraði sé 50. Er því öfugt farið því þarna er átt við lágmarkshraða á ákveðinni akrein. Er þetta nýtt boðmerki og er ætlað að beina hægfara umferð frá akreininni.

Einnig er tekið í notkun boðmerki þar sem sést að lágmarkshraði sé í gildi á vinstri akrein þar sem tvær akreinar liggja samhliða í sömu átt. Í svokölluðum sérreglumerkjum má finna nýtt umferðarmerki vegna hópbifreiða í almenningsakstri. Er það væntanlega notað á akreinamerki til að merkja sérreinar aðeins ætlaðar hópbifreiðum í almenningsakstri.