Rekstur ríkisfjölmiðils er dýr og leggur hann stein í götu annarra.
Rekstur ríkisfjölmiðils er dýr og leggur hann stein í götu annarra. — Morgunblaðið/Eggert
Hér á þessum stað var í síðustu viku fjallað um þann úrelta rekstur sem smásala – og meint einkasala – ríkisins á áfengi felur í sér. Vitnað var í ávarp forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) í ársskýrslu fyrirtækisins þar …

Hér á þessum stað var í síðustu viku fjallað um þann úrelta rekstur sem smásala – og meint einkasala – ríkisins á áfengi felur í sér. Vitnað var í ávarp forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) í ársskýrslu fyrirtækisins þar sem hann gerði athugasemdir við aðgerðaleysi lögreglunnar vegna netsölu áfengis sem og sinnuleysi löggjafarvaldsins. Þessi skrif í ársskýrslu ÁTVR varpa auðvitað ljósi á það undarlega fyrirkomulag sem hér er við lýði í þessum málaflokki og þó eflaust megi hafa af þeim gaman, sem hefur svo sannarlega verið raunin, þá eru þau þó engu að síður óþægileg áminning um það hversu umfangsmikið ríkisvaldið er almennt í fyrirtækjarekstri og hversu áhrifin eru mikil á atvinnulífið í heild sinni.

Það var þó ánægjulegt að sjá Sigurð Reynaldsson, framkvæmdastjóra Hagkaups, lýsa því yfir á fundi hjá Kompaní-klúbbi Morgunblaðsins, daginn eftir að fyrrnefndur pistill var birtur, að Hagkaup hyggist á næstu vikum opna netverslun með áfengi. Eins og fram kom í fyrrnefndum pistli er ljóst að neytendur vilja almennt sjálfir ákveða hvar þeir kaupa sitt sprútt enda geta þeir nú þegar verslað hjá verslunum á borð við Heimkaup og Smáríkið. Eins og gefur að skilja getur Hagkaup ekki setið endalaust hjá á meðan lestin brunar framhjá.

Það að fagna aðkomu Hagkaups inn á þennan markað snýst í grunninn ekki um að fagna sérstaklega sölu á áfengi. Það snýr frekar að því að smátt og smátt er að molna undan því kerfi sem ríkisvaldið hefur mótað um árabil, kerfi sem hefur í raun engan tilgang annan en þann að viðhalda einhvers konar valdi ríkisins yfir fólki. Óháð því hvaða skoðun menn hafa á áfengisneyslu, þá er ljóst að rökin fyrir því að aðeins megi selja vöruna í verslunum ríkisins vegna lýðheilsu- eða öryggissjónarmiða halda ekki vatni – og er í raun ógerlegt þar sem markaðurinn hefur þegar komið með aðrar lausnir.

Hið sama mætti í raun segja um aðra starfsemi ríkisins. Þó svo að landsmenn séu tilneyddir til að halda úti umsvifamiklum ríkisfjölmiðli, þá getur hver sem er valið að neyta annarra miðla, hvort sem er til að fylgjast með fréttum eða njóta afþreyingar. Þegar þeirri spurningu er velt upp hvort mögulega mætti hætta rekstri Ríkisútvarspsins koma iðulega fram rök sem eldast jafn vel og ávörp forstjóra í ársskýrslum ÁTVR. Íslandspóstur er annað dæmi um tilgangslausan rekstur á vegum hins opinbera, rekstur sem einkaaðilar eru betur til þess fallnir til að sinna og gera nú þegar að miklu leyti.

Bæði Ríkisútvarpið og Íslandspóstur eiga það sameiginlegt að kosta skattgreiðendur milljarða króna á ári hverju. Það eitt er út af fyrir sig slæmt, því það fjármagn nýtist þá ekki í neitt annað. Það sem er þó öllu verra er að sá tími og orka sem fer í það að sinna rekstrinum nýtist þá heldur ekki í annað. Það á ekki bara við um ríkisfyrirtækin sjálf, heldur líka þá einkaaðila sem við þau keppa. Það er erfitt að meta til fjár eitthvað sem aldrei varð af því að ríkið var svo fyrirferðarmikið á markaði.