Lögmaður telur að dómarar gætu líka verið vanhæfir í Samherjamáli.
Lögmaður telur að dómarar gætu líka verið vanhæfir í Samherjamáli. — Morgunblaðið/Þór
„Það sem er áhugaverðast við niðurstöðu Landsréttar að mínu mati er að þegar og ef embætti héraðssaksóknara gefur út ákærur í þessu svokallaða Namibíumáli Samherja geta engir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur að öllum líkindum dæmt í því máli…

Landsréttur

„Það sem er áhugaverðast við niðurstöðu Landsréttar að mínu mati er að þegar og ef embætti héraðssaksóknara gefur út ákærur í þessu svokallaða Namibíumáli Samherja geta engir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur að öllum líkindum dæmt í því máli vegna vanhæfis.“

Þetta segir Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður Örnu McClure, fyrrverandi yfirlögfræðings Samherja, í samtali við ViðskiptaMoggann, inntur eftir viðbrögðum við úrskurði Landsréttar um að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur hafi verið metnir vanhæfir að taka mál hennar til meðferðar. Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær olli aðkoma héraðsdómaranna Finns Þórs Vilhjálmssonar og Björns Þorvaldssonar að rannsókn málsins gegn henni vanhæfi allra dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Eins og kunnugt er hefur Arna í fjögur ár haft réttarstöðu sakbornings vegna meintra brota Samherja í Namibíu. Á þessum tíma hafði Arna aldrei í málinu, hvorki við skýrslutökur né í öðrum gögnum málsins, verið upplýst um meint sakarefni.

Áður hafði Arna reynt að fella rannsóknina niður, sem Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur höfnuðu. Hún höfðaði aftur mál á þeim grunni að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur hefðu verið vanhæfir til að dæma í málinu vegna aðkomu tveggja dómara að rannsókn málsins. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði hafnað þeirri kröfu, sem Landsréttur sneri við.

Halldór segir að niðurstaðan þýði að ekki sé búið að taka afstöðu til kröfu hennar og að annar dómari, sem ekki á sæti í Héraðsdómi Reykjavíkur, taki við máli Örnu.