Landher Pólskir hermenn sjást hér á hersýningu í Varsjá, en stjórnvöld þar í landi útiloka ekki að senda hermenn sína til vesturhluta Úkraínu.
Landher Pólskir hermenn sjást hér á hersýningu í Varsjá, en stjórnvöld þar í landi útiloka ekki að senda hermenn sína til vesturhluta Úkraínu. — AFP/Wojtek Radwanski
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Ákveði Úkraínuher að beita vopnakerfum frá Atlantshafsbandalaginu (NATO) gegn skotmörkum innan landamæra Rússlands mun það ekki hafa áhrif á varnarbandalagið. NATO verði með því á engan hátt beinn aðili að átökunum. Þetta sagði Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO í gær á fundi með blaðamönnum.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Ákveði Úkraínuher að beita vopnakerfum frá Atlantshafsbandalaginu (NATO) gegn skotmörkum innan landamæra Rússlands mun það ekki hafa áhrif á varnarbandalagið. NATO verði með því á engan hátt beinn aðili að átökunum. Þetta sagði Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO í gær á fundi með blaðamönnum.

Stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa sumir kallað eftir því að engar takmarkanir verði á afhendingu vopnakerfa til Úkraínu, en í einhverjum tilfellum hefur Úkraínuher verið meinað að nota vestræn vopnakerfi til árása í Rússlandi. Nú sé mikilvægt að sleppa öllum hindrunum, Úkraína verði að fá að verja sig án utanaðkomandi takmarkana og skilyrða. Nokkur aðildarríki NATO, s.s. Bretland, hafa þegar aflétt öllum takmörkunum og ræða önnur ríki nú um að gera slíkt hið sama. Þá hvetur Stoltenberg bandalagsríkin til að flýta vopnasendingum.

NATO-hermenn sendir?

Rætt er nú hvort senda eigi vestræna hermenn inn fyrir landamæri Úkraínu og yrði hlutverk þeirra þar að þjálfa Úkraínuher í vesturhluta landsins. Slíkt myndi vafalaust leggjast illa í Kremlverja sem segja NATO nú þegar farið að taka beinan þátt í hernaðinum í Úkraínu. Eru það einkum Frakkland og Pólland sem lýst hafa áhuga á að senda þangað hermenn. Talið er líklegt að franski herinn sendi þjálfunarsveitir til Úkraínu innan tíðar.

Á komandi vikum mun Úkraínuher fá í hendurnar orrustuþotur af gerðinni F-16. Vélar þessar eru afar fjölhæfar, sérstaklega hannaðar til loftbardaga við aðrar orrustuþotur en geta á sama tíma gert þungar loftárásir á skotmörk á jörðu niðri.

Stjórnvöld í Kænugarði munu vafalaust leggja allt kapp á að verja þoturnar fyrir árásum Rússa og segja heimildarmenn að búið sé að grafa neðanjarðarflugskýli og þoturnar verði þjónustaðar þar. Búið er að tryggja afhendingu á minnst 30 F-16-þotum og er hugsanlegt að fyrstu vélarnar komist í hendur Úkraínuhers í júlí næstkomandi.

Þá hafa Spánverjar lofað að senda eldflaugavarnir á næstunni.