Á toppnum Sandra María Jessen er efst í M-gjöf Morgunblaðsins eftir fyrstu sex umferðirnar og hún er markahæst í deildinni.
Á toppnum Sandra María Jessen er efst í M-gjöf Morgunblaðsins eftir fyrstu sex umferðirnar og hún er markahæst í deildinni. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikmaður maímánaðar hjá Morgunblaðinu, Sandra María Jessen, var að koma af landsliðsæfingu í Austurríki í gær þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar. Eftir tap í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta hefur Þór/KA unnið fimm leiki í röð …

Best í Bestu

Haraldur Hróðmarsson

haraldurarni@mbl.is

Leikmaður maímánaðar hjá Morgunblaðinu, Sandra María Jessen, var að koma af landsliðsæfingu í Austurríki í gær þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar. Eftir tap í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta hefur Þór/KA unnið fimm leiki í röð og situr í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Breiðabliki en með jafnmörg stig og Valur en betri markatölu.

„Þetta var bara fín æfing, við vorum að koma út og þetta var fyrsta æfing og það var gott að hreyfa sig aðeins. Þetta var skemmtileg æfing til að lyfta aðeins hópnum og hrista okkur saman,“ sagði Sandra.

„Það er mjög sárt að hugsa til baka til fyrsta leiksins gegn Val þar sem við vorum ekki nógu ánægðar með frammistöðuna. Það er ekkert sjálfsagt að ætla sér þrjú stig þar en það var markmiðið eftir góða spilamennsku á undirbúningstímabilinu en við eigum það inni fyrir seinni leikinn.

Í hinum leikjunum höfum við spilað vel, margir leikmenn hafa staðið sig vel og liðið í heild hefur spilað góðan fótbolta sem hefur skilað mörkum og sigrum,“ segir Sandra.

Berum ábyrgð á mörkunum

Sandra er markahæst í deildinni með tíu mörk í fyrstu sex leikjunum, þar á meðal fernu gegn FH í 2. umferð, og skoraði sjö fyrstu mörk Þórs/KA á tímabilinu en síðan hafa fleiri leikmenn bætt í púkkið. Sandra tekur glöð ábyrgðina á markaskorun á sínar herðar.

„Eðlilega eru allir leikmenn með mismunandi hlutverk innan liðsins og maður getur ekki ætlast til að allir inni á vellinum skori í öllum leikjunum heldur er það hlutverk okkar sóknarmannana að bera ábyrgðina á því. Það var mjög gaman að geta hjálpað liðinu með það í fyrstu leikjum mótsins en síðan fóru andstæðingar okkar að bregðast við og loka á ákveðin svæði sem gerðu mér erfiðara fyrir að komast í færi en þá voru stelpurnar klókar að leita í önnur svæði og stigu upp með flottum mörkum, þannig að liðið harmónerar mjög skemmtilega.“

Breiddin er góð

Leikmannahópur Þórs/KA er mjög breiður en tuttugu og tveir leikmenn hafa komið við sögu í þremur leikjum eða fleiri það sem af er tímabili og virðist litlu skipta þótt meiðsli og leikbönn þvingi Jóhann Kristin Gunnarsson þjálfara liðsins til að gera breytingar á byrjunarliðinu.

„Það er einmitt mjög jákvæður kostur við okkar lið að það er ekki hægt að loka á einhverja tvo-þrjá leikmenn heldur eru leikmenn í öllum stöðum að spila vel og jafnvel þótt við höfum oft þurft að breyta miklu á milli leikja hefur það ekki haft áhrif á frammistöðu okkar eða stigasöfnun þannig að breiddin er góð og allar tilbúnar að taka ábyrgð.“

Toppslagur við Blika

Að loknu landsleikjahléi mætir Þór/KA toppliði Breiðabliks á Þórsvelli og getur með sigri skotist upp fyrir Blika. Breiðablik er með fullt hús stiga eftir sex leiki og vann Val í uppgjöri toppliðanna á Kópavogsvelli á föstudaginn. Breiðablik á tvo fulltrúa í liði mánaðarins á Morgunblaðinu, þær Barbáru Sól Gísladóttur og Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur.

„Já það er rosalega spennandi leikur sem ég bíð spennt eftir, það verður líklega okkar fyrsti heimaleikur á grasi og þótt það sé ekkert leyndarmál að við elskum að spila í Boganum þá erum við mjög spenntar að spila fyrsta leikinn á okkar heimavelli. Þetta er stórleikur og fyrsta sætið undir þannig að við erum spenntar og klárar í þann leik. Við eigum nokkrar inni sem eru að koma til baka úr meiðslum sem munu styrkja okkur fyrir þann leik.“

Smitandi hugarfar Söndru

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Söndru hjá Þór/KA segir hugarfar hennar smitandi og gera liðið sterkara.

„Það er dálítið stór þáttur í þessu hvað hún er góð í fótbolta,“ sagði Jóhann og hló.

„Við erum auðvitað stálheppin að eiga leikmann í þessum gæðaflokki. Það er örugglega búið að segja þetta allt saman áður en að vera með atvinnumanneskju með hennar hugarfar lyftir öllum öðrum í kringum hana upp fyrir utan hið augljósa sem hún sýnir inni á vellinum. Að hafa hana daglega á æfingasvæðinu smitast í allt umhverfið,“ sagði Jóhann í samtali við Morgunblaðið.

Spennandi verkefni

Sandra er eins og áður segir stödd í Austurríki þar sem íslenska landsliðið undirbýr sig fyrir komandi verkefni í undankeppni Evrópumótsins. Sandra segir stemninguna í hópnum góða að venju og er spennt fyrir leikjunum tveimur.

Það er mjög spennandi verkefni fram undan, þetta eru virkilega mikilvægir leikir eins og allir leikir með landsliðinu og við mætum liði sem hefur bætt sig mikið undanfarin ár. Liðin eru mjög líkamlega sterk og það verður mikil barátta og tæklingar en síðan er bara spurning hvort liðið á betri dag og nær að pota inn fleiri mörkum.

Sædís Rún Heiðarsdóttir, vinstri bakvörður landsliðsins, er ekki í leikmannahópi Íslands vegna meiðsla. Þorsteinn Halldórsson hefur áður notað Söndru sem vinstri bakvörð en hún veit ekki hvort af því verður.

„Það er því miður ekki komið í ljós, ég veit það ekki sjálf þannig að ég væri að ljúga að þér ef ég segði eitthvað!“ sagði Sandra hlæjandi í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Haraldur Hróðmarsson