Kjaramál Við undirritun samnings Félags sjúkraþjálfara við SÍ.
Kjaramál Við undirritun samnings Félags sjúkraþjálfara við SÍ. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Félag sjúkraþjálfara og Sjúkratryggingar Íslands undirrituðu nýjan samning á dögunum, en sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings í rúm fjögur ár. Með samningnum mun kostnaður sjúklinga lækka auk þess sem aukagjöld munu falla…

Félag sjúkraþjálfara og Sjúkratryggingar Íslands undirrituðu nýjan samning á dögunum, en sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings í rúm fjögur ár.

Með samningnum mun kostnaður sjúklinga lækka auk þess sem aukagjöld munu falla niður og Sjúkratryggingar Íslands hefja að greiða eftir uppfærðri gjaldskrá.

„Í okkar huga eru þessi tímamót aðgengismál, það er verið að tryggja aðgengi óháð efnahag að þessari mikilvægu þjónustu,“ sagði Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara, um nýjan samning félagsins.

Samningurinn kveður einnig á um að „starfsheildir skulu vera lögaðilar, í meirihlutaeigu starfandi heilbrigðisstarfsmanna sem viðkomandi sjúkraþjálfarar hafa samningssamband við“. Þá er miðað við að innan starfsheildar séu að lágmarki sjö starfandi sjúkraþjálfarar.

Morgunblaðinu hafa borist ábendingar um að einhverjir starfandi sjúkraþjálfarar séu óánægðir með þetta ákvæði í samningnum.

Gunnlaugur telur eðlilegt að einhverjum hugnist ekki samningurinn, en 91% kaus með honum. „Það segir okkur að almennt sé góð sátt um samninginn í heild sinni.“

Þá telur Gunnlaugur að með samningnum sé verið að auka starfsmöguleika sjúkraþjálfara á landsbyggðinni. birta@mbl.is