Árni Árnason
Árni Árnason
Svo kemur 4. orkupakkinn og krafa um uppskiptingu og sölu Landsvirkjunar í kjölfarið.

Árni Árnason

Frá innleiðingu hitaveitu og rafmagns hafa Íslendingar búið við þá gæfu að geta hitað og lýst hýbýli sín gegn tiltölulega vægu gjaldi. Í kaldranalegu landi eins og okkar eru það ómetanleg lífsgæði, sem flestar erlendar þjóðir öfunda okkur af.

Lengst af hefur orkuöflun og flutningur verið í höndum fyrirtækja í almannaeigu.

Eftir inngöngu okkar í EES hefur sífellt hallað undan fæti. Gerðar hafa verið kröfur um aðskilnað á eignarhaldi orkuframleiðanda og orkuflytjanda. Gerð hefur verið krafa um að fleiri geti gerst orkusalar. Þeir eru nú orðnir níu og flestir í einkaeigu. Þeir eiga hvorki virkjun né vírspotta, en koma sér þægilega fyrir inni í virðiskeðjunni sem milliliðir. Þeir kaupa orkuna okkar af orkuframleiðendum í almannaeigu, í heildsölu, og selja okkur hana svo aftur í smásölu. Til þessarar starfsemi þurfa þeir ekkert nema nettengda tölvu og þægilegan stól þar sem þeir geta setið og stýrt peningunum okkar dag og nótt inn á bankareikningana sína. Svo er okkur talin trú um að allt sé þetta gert í þágu samkeppni, sem komi neytendum til góða í orkuverði. Trúir því einhver? Olíufélög – samkeppni. Við erum ekki fávitar.

Vera má að nú um stundir sjái fólk einhvern smávægilegan mun á að versla við einn orkusala frekar en annan, enda er markaðsvæðingin sem þeir ætla að moka inn peningum á bara rétt að hefjast. Hrægammarnir koma sér haganlega fyrir í stólunum þar sem þeir geta horft á innkomuna skrollast fyrir framan þá, þegar alvöruballið byrjar. Sæstrengurinn er á leiðinni trúið mér, það er algerlega á hreinu. Þegar hann er kominn gilda engar séríslenskar reglur. Með tengingunni breytast allar skilgreiningar og við verðum hluti af samevrópskum orkumarkaði, og við sjáum norsku sorgarsöguna endurtaka sig þegar orkuverðið hér margfaldast. Eigendur vindorkugarða og smávirkjana um allt land gráta það þó ekki.

Svo kemur 4. orkupakkinn og krafa um uppskiptingu og sölu Landsvirkjunar í kjölfarið. Hverjir skyldu eignast hana?

Við stefnum hraðbyri í að verða kúguð nýlenduþjóð, þar sem allar okkar auðlindir verða hirtar af okkur og íslenskir firðir fylltir af skít í þágu erlendra auðhringja. Erum við svo barnaleg að halda að Evrópusambandið gefi skít á spýtu fyrir hagsmuni Íslands eða Íslendinga? Nei, hagsmunir þeirra verða allsráðandi og við megum okkur lítils andspænis „United States of Germany“. Allt gengur þetta þvert á upphaflegar hugmyndir okkar um alþjóðasamvinnu undir merkjum EES.

Vaknið! Íslendingar fóru loks að njóta velsældar eftir að hafa háð harða sjálfstæðisbaráttu.

Því miður eru margir sem tengja þessa sjálfstæðisbaráttu við öfgaþjóðernishyggju og kalla öfgahægristefnu. Ef það að vilja hagsmuni þjóðarinnar umfram hagsmuni auðvaldsafla er öfgahægristefna þá er heldur en ekki búið að snúa hlutunum á hvolf.

Nú gengur hver fram fyrir annan að afhenda erlendum sem innlendum peningaöflum hið torfengna sjálfstæði. Við þurfum forseta sem hefur kjark til að stöðva sjálfvirka stimpilvæðingu Alþingis og færir þjóðinni aftur þau völd sem lýðræðið á að gera.

Við vitum öll hver hann er.

Höfundur er vélstjóri.