Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir
Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir
Ég lít því svo á að stjórnmálareynsla hennar sé kostur en ekki galli.

Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir

Við sem fæddumst um miðja síðustu öld vorum alin upp við þá hugsun að hlutverk forseta væri mikilvægt fyrir íslensku þjóðina. Nú er kosið um forseta og margt hæfileikafólk hefur boðið sig fram til að gegna þessu mikilsverða hlutverki. Í mínum huga er þó enginn vafi á því að Katrín Jakobsdóttir sé besti kostur sem okkur býðst. Hún á það sameiginlegt með sumum fyrrverandi forsetum, einkum Ásgeiri Ásgeirssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni, að hafa mikla stjórnmálareynslu sem nýttist þeim báðum vel á erfiðum augnablikum í sögu landsins. Ég er þess fullviss að þekking Katrínar á íslenskum stjórnmálum muni koma þjóðinni til góða. Katrín er með MA-próf í íslenskum bókmenntum og hefur unnið að margs konar bókmennta- og menningarstarfi. Á þeim sviðum mun víðtæk þekking hennar úr starfi sem mennta- og menningarmálaráðherra vafalaust koma henni að miklu gagni í embætti forseta Íslands, jafnt heima sem heiman. Í mínum huga er hún fulltrúi þess ágætasta í íslenskri menningu. Katrín hefur öðlast mikla reynslu í samskiptum við erlenda þjóðhöfðingja og nýtur virðingar meðal fólks sem fylgst hefur með störfum hennar. Ég lít því svo á að stjórnmálareynsla hennar sé kostur en ekki galli. Með verkum sínum hefur hún hefur sýnt að hún hefur næga dómgreind til að hefja sig yfir pólitískt dægurþras. Þess vegna kýs ég Katrínu Jakobsdóttur.

Höfundur er sjálfstætt starfandi fræðimaður.