Endurgreiðslur Skatturinn hefur gert athugasemdir við fyrirkomulagið.
Endurgreiðslur Skatturinn hefur gert athugasemdir við fyrirkomulagið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Þorsteinn Ásgrímsson thorsteinn@mbl.is Endurgreiðsla ríkisins til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar hefur aukist mikið á undanförnum árum og nam árið 2022 samtals um 12 milljörðum og hafði þá hækkað úr 2,8 milljörðum árið 2017. Ekki fást þó uppgefnar upplýsingar um nema hluta þeirra styrkja sem eru veittir og yfir síðustu sex ár hefur verið upplýst um minna en helming þeirra 37,4 milljarða sem veittir hafa verið í styrki.

Fréttaskýring

Þorsteinn Ásgrímsson

thorsteinn@mbl.is

Endurgreiðsla ríkisins til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar hefur aukist mikið á undanförnum árum og nam árið 2022 samtals um 12 milljörðum og hafði þá hækkað úr 2,8 milljörðum árið 2017. Ekki fást þó uppgefnar upplýsingar um nema hluta þeirra styrkja sem eru veittir og yfir síðustu sex ár hefur verið upplýst um minna en helming þeirra 37,4 milljarða sem veittir hafa verið í styrki.

Lög um hámarksgreiðslur voru útvíkkuð árið 2020, en eftir það gátu lítil og meðalstór fyrirtæki fengið allt að 35% af kostnaði við rannsóknir og þróun í skattafrádrátt, en stór fyrirtæki 25%. Var hámark þess kostnaðar sem hægt var að miða við hækkað í 1,1 milljarð á fyrirtæki, eða styrk upp á 275 milljónir fyrir stór fyrirtæki og 385 milljónir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Gilda lögin nú til ársins 2025.

Ekki upplýst um 20 ma. styrki

Frá árinu 2017 hafa upplýsingar um á bilinu 18,5% upp í 60,8% af heildarstyrkjum hvers árs verið birtar á vefsíðu Skattsins, en 39,2% og upp í 81,5% ekki komið fram þar sem upphæðirnar þóttu of lágar. Þegar horft er á heildarútgreiðslur yfir tímabilið hafa upplýsingar um styrkþega 17,2 milljarða, eða 46,1% greiðslanna, komið fram. Hins vegar hefur ekkert komið fram um styrkþega 20,1 milljarðs, eða 53,9% upphæðarinnar.

Rétt er að taka fram að styrkirnir virðast síst á niðurleið, en fyrir árið 2023 hefur verið upplýst um styrkþega að 9,6 milljörðum. Ekki hafa þó fengist upplýsingar um hver heildarupphæð endurgreiðslu það árið var. Þeim sem fá endurgreiðslu hefur einnig fjölgað mikið síðustu ár, en þeir voru 144 árið 2017, en komnir upp í 280 árið 2022.

Skatturinn með efasemdir

Í umsögn sinni við lagafrumvarp um endurgreiðslustyrkina árið 2021, sem ekki var samþykkt, varaði Skatturinn opinberlega við ýmsu í sambandi við fyrirkomulag og eftirlit með styrkjunum. Þannig benti Skatturinn á að aukin aðsókn í styrkina kynni að stafa af því að fyrirtæki sem ekki ættu tilkall til stuðnings væru að sækja um þá. Einnig hefur Skatturinn sagt að ekki sé vanþörf á eftirliti með þessum endurgreiðslum og viðurlögum við misbeitingu, en slíkt er ekki að finna í lögum í dag. Sagði Skatturinn að ef gera ætti endurgreiðsluna að varanlegu úrræði þyrfti að styrkja regluverk endurgreiðslunnar og einfalda og passa að aukins gagnsæis væri gætt.

Það er því ljóst að Skatturinn hefur um nokkurt skeið talið löggjöfina í kringum endurgreiðslurnar veika og að líkur væru á misferli samhliða því sem eftirlit væri mjög veikt.

Athugasemdir frá OECD

Vinna við að fara yfir framkvæmd og eftirlit þessa stuðnings er í gangi og var OECD meðal annars fengið til að meta áhrif stuðningsins og árangur. Var í þeirri skoðun gerð alvarleg athugasemd við eftirlit með styrkjunum og skort á gögnum. Í nýlegri fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2024-2028 var regluverkið í kringum framkvæmd styrkjanna jafnframt kallað óljóst og tekið fram að stuðningurinn væri umfangsmikill.

Í fjármálaáætluninni 2024-2028, sem kynnt var fyrr á þessu ári, er jafnframt vísað til þess að undanfarin ár hafi einungis á bilinu 6-7% stuðningsins gengið upp í tekjuskatt, en restin verið í formi beins stuðnings úr ríkissjóði. Því er ekki bara um eftirgjöf skattgreiðslna að ræða, heldur beina styrki sem greiddir eru út vegna kostnaðar fyrirtækjanna.

15 mánaða afgreiðslutími

Í ljósi alls þessa óskaði blaðamaður eftir svörum í nóvember 2022 frá Skattinum og bað m.a. um sundurliðun á þeim fyrirtækjum sem höfðu fengið styrki. Var þeim hluta fyrirspurnarinnar hafnað. Var þá leitað til úrskurðanefndar upplýsingamála í janúar í fyrra. Skatturinn svaraði 1. febrúar, en úrskurður nefndarinnar féll svo ekki fyrr en 471 degi síðar, eða í síðustu viku. Tók það því nefndina rúmlega 15 mánuði að fara yfir beiðina og voru um 18 mánuðir síðan fyrirspurnin var þá fyrst send á Skattinn.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar var vísað til meðalhófs varðandi birtingu opinberra upplýsinga um opinberar endurgreiðslur og styrki. Jafnframt er vísað til þess hversu mikið endurgreiðslan hefur aukist á undanförnum árum, áhyggja Skattsins af skorti á eftirliti og að óprúttnir aðilar væru að nýta sér styrkina án ástæðu. Einnig væri óljóst hvað gæti flokkast sem þróun og væri þar með styrkhæft.

Mega ekki afhenda gögnin

Í umsögn sinni til kærunefndarinnar sagðist Skatturinn ekki hafa heimild til að birta upplýsingar um styrki til einstakra fyrirtækja umfram það sem þegar væri birt á vefsíðu Skattsins og í miðlægri vefgátt Eftirlitsstofnunar EFTA. Er þar miðað við lög um EES, en í kafla um skilyrði ríkisaðstoðar er sérstaklega tekið fram að þau gildi um upplýsingar „um hverja úthlutun stakrar aðstoðar sem fer yfir 500.000 evrur.“ Féllst úrskurðarnefndin á þessar skýringar og sagði að þagnarskyldan varðandi endurgreiðslurnar og þar með styrkgreiðslur ríkisins væri sérgreind og tæki til upplýsinga um tekjur og efnahag skattaðila og því þyrfti ekki að fara fram mat um hvort hagsmunir almennings af upplýsingunum vegi þyngra en hagsmunir af því að þær fari leynt.