Leikhúslíf Hópurinn sem stendur að baki Leikhússkólanum er fjölbreyttur. Á myndinni eru Filippía I. Elísdóttir, Ilmur Stefánsdóttir, Matthías Tryggvi Haraldsson, Vala Fannell, Magnús Geir Þórðarson og Brett Smith.
Leikhúslíf Hópurinn sem stendur að baki Leikhússkólanum er fjölbreyttur. Á myndinni eru Filippía I. Elísdóttir, Ilmur Stefánsdóttir, Matthías Tryggvi Haraldsson, Vala Fannell, Magnús Geir Þórðarson og Brett Smith. — Ljósmynd/Jorri
„Þetta er eitt af þessum giggum sem maður þorir varla að leyfa sér að dreyma um. Það er náttúrlega stórkostlegt að fá að skapa nám inni í atvinnuleikhúsi. Það verður held ég ekkert meira spennandi en það,“ segir leikstjórinn Vala Fannell …

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

„Þetta er eitt af þessum giggum sem maður þorir varla að leyfa sér að dreyma um. Það er náttúrlega stórkostlegt að fá að skapa nám inni í atvinnuleikhúsi. Það verður held ég ekkert meira spennandi en það,“ segir leikstjórinn Vala Fannell í samtali við Morgunblaðið um Leikhússkóla Þjóðleikhússins sem nýverið var settur á laggirnar.

Leikhússkólinn býður upp á faglega eins árs leikhúsmenntun fyrir ungt fólk á aldrinum 18-22 ára. Vala segir hugmyndina einmitt hafa sprottið út frá þeirri staðreynd að skortur sé á tækifærum fyrir þennan aldurshóp á sviði leikhússins. „Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri kom að máli við mig varðandi þá hugmynd að vera með einhvers konar nám í Þjóðleikhúsinu. Ég hafði áður verið að kenna í Menntaskólanum á Akureyri þar sem ég byggði upp sviðslistabraut og vann að því að auka námsframboð þar og kynna ungu fólki ólíkar greinar leikhússins. Þannig að hugsunin kemur svolítið þaðan og ég þroskaði hana síðan áfram inn í leikhúsið hér. Markmiðið var alltaf að setja á fót skóla fyrir ungt fólk á árunum eftir menntaskóla, einfaldlega vegna þess að það er ákveðið gat í markaðinum þar. Það er ekki mikið í boði fyrir þennan aldurshóp þegar kemur að faglegri leikhúsmenntun.“

Leikur að læra

Vala, sem lærði leiklist og leikstjórn í London auk listkennslu í LHÍ, er bæði skólastjóri og aðalkennari Leikhússkólans. Auk Völu kemur listafólk úr Þjóðleikhúsinu að kennslunni, meðal annars kennir Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahönnun, Filippía I. Elísdóttir búningahönnun, Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósahönnun, Brett Smith hljóðhönnun, Elísa Sif Hermannsdóttir sýningarstjórnun og Matthías Tryggvi Haraldsson handritaskrif.

Í gegnum námið fá nemendur að kynnast ólíkum störfum leikhússins, allt frá hönnun leikmynda, búninga, lýsingar og hljóðs til sviðstækni, sýningarstjórnar, leikritunar, leikstjórnar og leiklistar. Kennslustundirnar fara fram í Þjóðleikhúsinu. „Það er svo frábært því nemendur fá þá líka tækifæri til að líta inn á æfingar og eiga samtal við okkur starfsfólkið um allt það sem tengist leikhúsinu. Það er líka gefandi fyrir húsið, að taka á móti nýrri kynslóð, og við viljum skapa tengingu þarna á milli kynslóða.

Nemendur fá að vera í beinum tengslum við fagaðila og vinna náið með okkar bestu listamönnum. Þjóðleikhúsið er auðvitað ekki menntastofnun, sem gerir það að verkum að Leikhússkólinn er blanda af menntun og fagmennsku. En þetta er líka reynsla sem ég held að sé mjög viðeigandi fyrir þennan aldurshóp, þegar maður er að reyna að finna út hver maður er, hvað maður vill gera og hvert maður vill fara.“

Þetta er auðvitað aldurshópur sem stendur oft frammi fyrir stórum ákvörðunum. „Já, ég held að þetta geti að mörgu leyti verið eitt mesta óvissutímabilið í lífi okkar flestra,“ segir Vala og hlær.

Hvernig fara leiklist og fræðsla saman í þínum huga?

„Leiklist er í grunninn list mennskunnar, hún verður alltaf til í samvinnu fólks. Það getur enginn einn búið til leikhús, þetta er alltaf samvinna. Samvinnuhæfnin og sjálfstæða hugsunin sem skapast í gegnum leiklistina, það er eitthvað sem ég held að sé verkfæri út í lífið og geti gagnast hvenær sem er,“ segir Vala og bætir við: „Maður lærir að þekkja sjálfan sig svo ótrúlega vel. Í gegnum leiklistina finnur maður styrkleika sem maður vissi ekki af og uppgötvar sömuleiðis veikleikana sem maður hefur. Leiklistin skerpir sýn okkar.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð Leikhússkólans? Kæmi til greina að stofna leikhússkóla fyrir fleiri aldurshópa?

„Það er aldrei að vita, þetta er bara fyrsta skrefið í verkefni sem við munum halda áfram að þróa. En það er ofboðslega fallegt pótensíal í þessu, svo það verður mjög gaman að sjá hvert þetta fer. Í haust verðum við til að mynda með fjögur námskeið fyrir áhugaleikfélög og framhaldsskólaleikfélög, það eru verkefni sem spretta einmitt út frá sömu hugmynd og Leikhússkólinn. Þar verður til dæmis hægt að læra hljóðhönnun, ljósahönnun, búningahönnun og leikmyndahönnun.“

Nánari upplýsingar um Leikhússkóla Þjóðleikhússins og inntökuferlið er að finna á vef Þjóðleikhússins, leikhusid.is. Umsóknarfrestur er til og með 3. júní og geta allir fæddir 2002-2006 sótt um.

Höf.: Snædís Björnsdóttir