Mildi Betur fór en á horfðist þegar rúta með 26 farþegum auk bílstjóra valt í Rangárvallasýslu á laugardag.
Mildi Betur fór en á horfðist þegar rúta með 26 farþegum auk bílstjóra valt í Rangárvallasýslu á laugardag. — Ljósmynd/Jónas Yngvi Ásgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónas Yngvi Ásgrímsson, formaður ferðanefndar Lionsklúbbsins Dynks í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, segir allflesta þeirra sem voru í hópferðabílnum sem valt í vorferð klúbbsins í Rangárvallasýslu á laugardag á góðum batavegi

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Jónas Yngvi Ásgrímsson, formaður ferðanefndar Lionsklúbbsins Dynks í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, segir allflesta þeirra sem voru í hópferðabílnum sem valt í vorferð klúbbsins í Rangárvallasýslu á laugardag á góðum batavegi. Í gær voru fjórir enn á sjúkrahúsi en til stendur að útskrifa einn þeirra í dag.

Jónas hefur lýst atburðarásinni á laugardag þannig að rútan hafi verið á leið upp brekku og beygja hafi verið fram undan. Á um 30 metra kafla hafi bílstjórinn verið að stöðva rútuna til að passa að fara ekki út af veginum, eftir að hafa farið út í kant til að búa til pláss ef annar bíll mætti rútunni. Þegar rútan var nærri stopp hafi hún oltið og eins og kanturinn hafi gefið sig. Fólkið hentist til í rútunni og sumir klemmdust í sætunum. Þrír köstuðust út um brotnar rúður og beita þurfti klippum til að ná öllum út.

Enginn alvarlega slasaður

Allir sem voru í rútunni slösuðust við veltuna; 26 farþegar auk bílstjóra. Að sögn Jónasar eru meiðsli á fólki ekki meiriháttar. Þó sé ein með illa brotið hné og önnur með brotna hryggjarliði. Segir hann stóran hluta hópsins aðeins hafa fengið skeinur, marbletti eða hefðbundin eymsli. Sem betur fer hafi enginn verið í lífshættu eða slasast alvarlega.

Jónas bendir þó á að þegar um sé að ræða fullorðið fólk geti minni áverkar verið alvarlegir en fólkið sem var í ferðinni er flest komið af léttasta skeiði, sá yngsti rétt að verða fimmtugur og sá elsti kominn á níræðisaldur. „Við segjum það gjarnan að félagatal Lionsklúbbsins Dynks og félagatal Félags eldri borgara skarist dálítið mikið,“ segir Jónas í gamansömum tón.

Spurður um sálartetur fólksins segir Jónas að hópurinn sé eins og allir Íslendingar ótrúlegir töffarar sem harki flest af sér. Hann segir Rauða krossinn hafa komið á slysstað, á heilsugæslustöðina á Hellu og á sjúkrahúsið á Selfossi. Starfsmenn Rauða krossins hafi bent fólki á að tala eins mikið um slysið og það mögulega gæti.

Hreinsandi samtal

Jónas segir erfitt fyrir karla komna yfir miðjan aldur að viðurkenna að þeir hafi tilfinningar en það sé allt að koma.

„Einn vinur minn kom í heimsókn til mín í gær og við sátum í tvo tíma og töluðum um þetta,“ segir Jónas og játar að það hafi verið mjög hreinsandi. Áfallahjálparteymi muni hitta hópinn næstu daga til að fara yfir stöðuna og presturinn meðal annars taka þátt í þeirri vinnu.

„Það voru svo margir sem komu að þessu atviki og gerðu allt sem þeir gátu til að hjálpa okkur. Fyrirtækið, Guðmundur Tyrfingsson, og tryggingafélag þess hafa haft samband við okkur nokkrum sinnum til að bjóða fram alla þá aðstoð sem hægt er. Frábært starfsfólk á heilsugæslunni á Hellu sinnti okkur og meira að segja var ein hjúkrunarfræðinganna handleggsbrotin. Þá kom starfsfólk Olís-stöðvarinnar við hliðina á með bakkelsi og kaffi fyrir alla.“

Jónas segir Lionsklúbba á borð við Dynk vinna í því að hjálpa og eftir kjörorðunum: „Við leggjum lið.“ Segir hann ótrúlega margt Lionsfólk, sem ekki er í klúbbnum, hafa komið og lagt lið. „Við höfum fundið fyrir mikilli samúð og samhygð í samfélaginu og við getum ekki þakkað fólki nógsamlega.“

Rútuslysið

Íbúafundur í Brautarholti

Lionsklúbburinn Dynkur hefur efnt til opins fundar í félagsheimilinu í Brautarholti á morgun, fimmtudag, kl. 17.30. Frá þessu greinir Jónas Ingvi Ásgrímsson á íbúasíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps á Facebook.

Á fundinum verður sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Hruna, og starfsfólk frá Rauða krossinum til að ræða slysið og aðstoða við að takast á við eftirköst þess. Eru þeir sem lentu í slysinu sérstaklega hvattir til að mæta en fundurinn er öllum opinn.

Höf.: Ólafur Pálsson