Inga Sæland
Inga Sæland
Ríkissjóður er alltaf barmafullur af peningum þegar kemur að því að greiða fyrir snobbviðburði og lúxusgæluverkefni á kostnað skattgreiðenda. Leiðtogafundur Evrópuráðsins, sem haldinn var í Hörpu á sínum tíma, er skýrt dæmi um slíkan snobbviðburð, en hann kostaði landsmenn yfir tvo milljarða króna

Ríkissjóður er alltaf barmafullur af peningum þegar kemur að því að greiða fyrir snobbviðburði og lúxusgæluverkefni á kostnað skattgreiðenda. Leiðtogafundur Evrópuráðsins, sem haldinn var í Hörpu á sínum tíma, er skýrt dæmi um slíkan snobbviðburð, en hann kostaði landsmenn yfir tvo milljarða króna.

Það þykir sjálfsagt að sóa tugum milljóna í að prenta bæklinginn „Fjallkonan, þú ert móðir kær“ en að henda honum í ruslið og prenta hann upp á nýtt af því að nýr forsætisráðherrra vildi fá sinn formála í bæklinginn er óafsakanlegt.

Flokkur fólksins gaf ríkisstjórninni fjögur tækifæri til að sýna samkennd í verki og samþykkja 66 þúsund króna jólabónus fyrir þá 2.000 eldri borgara sem líða efnislegan skort. En gæskulausir stjórnarflokkarnir fundu enga þörf hjá sér til að rétta þeim hjálparhönd, þrátt fyrir að vita það mætavel hve erfitt það er fyrir þau að draga fram lífið frá degi til dags. En nei, þá er engir peningar til.

Ríkisstjórnin afneitaði þessu fólki á sama tíma og hún samþykkti að milljörðum yrði sólundað í valdagræðgi þeirra sjálfra, gæluverkefni og snobb. Ég er sorgmædd yfir því að þurfa að viðurkenna þá mannfyrirlitningu sem einkennir slíka ríkisstjórn. Þessa siðleysu og hörmulegan doða stjórnvalda gagnvart samborgurum sínum sem hvað mest þarfnast stuðnings hennar fæ ég ekki með nokkru móti skilið.

Okkur er talin trú um að tilgangslítill bæklingur „Fjallkonan“ sé dýrmæt gjöf til landsmanna í tilefni af 80 ára lýðveldisafmælinu okkar. Þetta er ekki gjöf, heldur gjald þar sem gjafamóttakandinn er látinn greiða fyrir gjöfina sjálfur hvort sem honum líkar betur eða verr. Valdhafarnir misfara með skattfé almennings eins og þeim sýnist. Við eigum að þegja og þakka fyrir fínheitin.

Eins skálar ríkisstjórnin fyrir því þegar milljörðum af skattpeningum okkar er sóað í viðburð sem aðeins þjónaði þeim tilgangi einum að upphefja og kitla hégómagirnd utanríkisráðherrans Þórdísar R. Kolbrúnar Gylfadóttur með núverandi forsetaframbjóðanda Katrínu Jakobsdóttur í broddi fylkingar. 70 glæsijeppar fluttir til landsins, fjárfest í hundruðum skotvopna til aukinnar öryggisgæslu, leyniskyttur í felum á hverju þaki. Allt gert svo ráðamenn gætu sýnt erlendum þjóðhöfðingjum hvað við værum gestrisin og frábær.

Hér nefni ég tvö dæmi af nánast óteljandi dæmum um bruðl og ósvífni með almannafé. Því miður hefur það verið viðtekin venja valdhafanna að forgangsraða fjármunum fyrir allt annað en fólkið fyrst.

Þessu verður að breyta!

Flokkur fólksins er flokkurinn þinn og hann mun aldrei forgangsraða sameiginlegum fjármunum okkar öðruvísi en fyrir fólkið fyrst, svo allt hitt.

Höfundur er alþingismaður. ingasaeland@althingi.is