Ari Steinn segir að heita potts hönnun sín sé sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum sem hafi ljóskastara í miðjunni.
Ari Steinn segir að heita potts hönnun sín sé sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum sem hafi ljóskastara í miðjunni.
„Þetta er einstaklega laglegur rafmagnspottur sem er hannaður eftir auganu og er eins og auga í laginu og heitir Augað. Eftir því sem ég best veit er potturinn sá eini í heiminum sem hefur stóran ljóskastara í miðjunni, enda á ljósið að virka…

„Þetta er einstaklega laglegur rafmagnspottur sem er hannaður eftir auganu og er eins og auga í laginu og heitir Augað. Eftir því sem ég best veit er potturinn sá eini í heiminum sem hefur stóran ljóskastara í miðjunni, enda á ljósið að virka sem augasteinn.“

Þetta segir segir Ari Steinn Kristjánsson, framkvæmdastjóri Heitrapotta.is, í samtali við ViðskiptaMoggann.

Einungis 23 ára gamall hefur hann áorkað það vera með sína eigin hönnun á heitum pottum. Ari Steinn á ekki ýkja langt að sækja hönnunarhæfileikana, þar sem hann starfar ásamt föður sínum í fyrirtækinu, Kristjáni Berg Ásgeirssyni, oft kallaður Fiskikóngurinn, sem hefur hannað og selt heita potta um árabil.

Skapa smá samkeppni

„Við feðganir erum mjög samstiga í rekstrinum. Þar sem ég vildi ekki vera eftirbátur pabba fór ég í það að hanna minn eigin heita pott. Hönnunin er einnig hugsuð sem smá samkeppni okkar á milli um hvor sé með betri pottinn. Að mínu mati er pabbi með flottasta fjölskyldupottinn, en ég vil meina að minn pottur sé meira úthugsaður út frá hönnunargildum,“ segir Ari Steinn léttur í bragði.

Að hans sögn byrjaði fyrirtækið selja þá í lok mars og segir hann stefna í að það verði búið að selja 36 potta í heildina á næstu dögum.

Spurður um kostnað segir Ari Steinn að hann kosti 1.270.000 krónur með virðisaukaskatti og lok fylgi með. Hann bætir við að fyrirtækið hafi einkaleyfi á hönnuninni.

Heiti potturinn er fáanlegur í þremur litum, bláum, hvítum og svörtum og aðspurður segir hann að hvíti liturinn hafi orðið fyrir valinu vegna þess hve stílhreinn hann er, en svarti liturinn sé vinsælastur hjá viðskiptavinum.

„Við seljum hins vegar mest af svarta litnum á Íslandi. Við Íslendingar erum eilítið skrýtnir hvað þetta varðar þar sem við eigum til að kvarta yfir skammdeginu. Engu að síður kaupum við mikið af vörum í svörtum lit, t.d. svarta bíla og heita potta,“ útskýrir hann.

Blái liturinn í uppáhaldi

Ari Steinn segir að hann haldi mest upp á bláa litinn sem einnig mælist vel fyrir hjá viðskiptavinum.

„Ég valdi bláa litinn vegna þess að hann er í uppáhaldi hjá mér og sá litur er líka vinsæll hjá mörgu fólki. Þegar vatnið blandast við bláa litinn í pottinum verður vatnið svo aðlaðandi og ferskt og þess vegna líður mér best í bláa litinum þegar ég skelli mér í pottinn,“ segir hann.

Aðspurður segist hann sjá fyrir sér að hanna fleiri heita potta þar sem faðir hans endurhanni sína potta reglulega.

„Það getur alveg farið svo að ég endurhanni og þrói þá meira. Það er alltaf hægt að bæta við tækninýjungum,“ segir Ari Steinn að lokum.