Halla Hrund Logadóttir
Halla Hrund Logadóttir
Kosningateymi Höllu Hrundar Logadóttur viðurkenndi í gær að það hefði nýtt sér myndskeið kvikmyndatökumannsins Bjarka Jóhannssonar fyrir auglýsingu án þess að fá leyfi fyrir því eða sérstök borgun kæmi fyrir

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Kosningateymi Höllu Hrundar Logadóttur viðurkenndi í gær að það hefði nýtt sér myndskeið kvikmyndatökumannsins Bjarka Jóhannssonar fyrir auglýsingu án þess að fá leyfi fyrir því eða sérstök borgun kæmi fyrir. Áður var hinu gagnstæða haldið fram í fyrri yfirlýsingu framboðsins um málið.

Í gær var blaðinu hins vegar snúið við og Bjarki beðinn afsökunar á þessari óleyfisnotkun á höfundarréttarvörðu efni hans.

Við eftirgrennslan blaðsins kom hins vegar á daginn að afnotaréttur myndskeiðsins, sem framboðið áður hafði sagst hafa tryggt sér, var upphaflega keyptur fyrir Orkustofnun af fyrirtækinu 99 ehf., sem annast hefur myndbandssgerð fyrir stofnunina. Sama fyrirtæki eða eigandi þess hefur einnig séð um myndbandagerð fyrir framboð Höllu Hrundar.

Halla Hrund Logadóttir er orkumálastjóri og forstöðumaður Orkustofnunar, en fór í leyfi eftir að hún lýsti yfir framboði sínu.

Sögðu ásökun tilhæfulausa

Bjarki greindi fyrst frá því í samtali við mbl.is í fyrradag að myndskeið í hans eigu væri í auglýsingu Höllu Hrundar án leyfis og án þess að greitt hefði verið fyrir þau afnot. Þar að auki sagði Bjarki að myndskeiðið hefði áður verið notað, með leyfi, í myndbandi hjá Orkustofnun, sem birt var á Facebook á liðnu ári.

Kosningateymi Höllu andæfði því og sagði myndbandið ekki illa fengið, heldur hefði það verið fengið úr alþjóðlegum myndabanka Envato. Hins vegar var ekkert vikið að fullyrðingum Bjarka um að myndskeiðið hefði verið tekið í leyfisleysi eða þá að það hefði verið notað fyrir Orkustofnun.

Morgunblaðið leitaði því frekari svara um hver hefði fengið leyfið og hvenær, hver væri áskrifandi að þjónustu myndabankans og hver hefði greitt fyrir leyfið.

Í svörum framboðsins í gærmorgun kom fram að fyrirtækið 99 ehf. væri skráð fyrir áskriftinni að myndabankanum, en Óskar Örn Arnarson er eigandi fyrirtækisins.

Fengið fyrir Orkustofnun

„Myndefnið var sótt og hakað við leyfi á síðasta ári vegna verkefnis sem 99 ehf. vann í verktöku fyrir Orkustofnun,“ segir í svari kosningateymis Höllu Hrundar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Þar var jafnframt nefnt til skýringar á því hvernig á málinu stæði að þegar Óskar Örn hefði aftur sótt myndefnið af heimasíðu Envato hefðu verið gerð þau mistök að haka ekki við reit til þess að fá nýtt leyfi fyrir notkun myndbandsins í öðru verki og til annars konar birtingar.

„Taka skal skýrt fram að upphaflega leyfið sótti verktakinn 99 ehf. Óskar Örn tekur fulla ábyrgð á þessum mistökum. Framboðið hefur beðist afsökunar og mistökin verið leiðrétt. Þá hefur Óskar Örn rætt við Bjarka Jóhannsson og boðist til að koma til móts við hann. Við ítrekum að okkur þykir leitt að þessi mistök hafi átt sér stað.“

Óskýr mörk

Áður hefur verið fjallað um tengsl 99 ehf. við Höllu Hrund, en fyrirtækið hefur fengið 7,6 milljónir króna í greiðslur frá Orkustofnun á síðustu 16 mánuðum fyrir myndbandagerð og annan kostnað.

Það vakti sérstaka athygli fyrir það að Óskar Örn Arnarson er lykilmaður í kosningateymi Höllu samkvæmt svörum frá framboðinu við fyrirspurn mbl.is í upphafi kosningabaráttunnar. Í þessum innsta hring framboðsins var fleiri að finna sem annast hafa verktöku fyrir Orkustofnun í tíð Höllu Hrundar sem orkumálastjóra.