Fjölskyldan Við fermingu elstu dótturinnar, Heiðrúnar Ásu, í vor.
Fjölskyldan Við fermingu elstu dótturinnar, Heiðrúnar Ásu, í vor.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þráinn Haraldsson fæddist 29. maí 1984 í Reykjavík og ólst upp í Breiðholtinu. Hann gekk í Seljaskóla og lauk grunnskólaprófi árið 2000. Hann fór þá í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi 2004

Þráinn Haraldsson fæddist 29. maí 1984 í Reykjavík og ólst upp í Breiðholtinu.

Hann gekk í Seljaskóla og lauk grunnskólaprófi árið 2000. Hann fór þá í Kvennaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi 2004. „Ég hafði á síðasta námsárinu í Kvennó ákveðið að fara í guðfræði og hóf nám við guðfræðideild þá um haustið.“ Þráinn lauk BA-prófi árið 2007 og embættisprófi í guðfræði 2009.

„Sem barn hafði ég ekki mikinn áhuga á íþróttum, prufaði að æfa fótbolta í stuttan tíma en það passaði mér ekkert sérstaklega. Þeim mun meiri áhuga hafði ég á tónlist, lærði á píanó um tíma, byrjaði svo að syngja í Barnakór Seljakirkju og fór svo þaðan í Drengjakór Laugarneskirkju og áhugi minn á söng og tónlist hafði kviknað.

Þegar múturnar byrjuðu hætti ég að syngja og fór að æfa frjálsar íþróttir með ÍR og hafði mjög gaman af. Það var samt söngurinn sem kallaði og þegar ég fór í menntaskóla skráði ég mig í Söngskólann í Reykjavík og lærði söng undir handleiðslu Sigurðar Bragasonar og lauk 6. stigi árið 2004. Samhliða söngnáminu var ég í Kammerkór Reykjavíkur.

Eftir stúdentspróf tók guðfræðin og fjölskyldulíf og fleira við og ég söng lítið í mörg ár, helst bara í messum eða þar til ég byrjaði í Kór Akraneskirkju fyrir tveimur árum. Það hefur verið ótrúlega gaman að endurvekja tónlistaráhugann en síðustu ár hef ég sungið Requiem eftir Fauré og Carmina Burana með kórnum ásamt fleiri verkefnum. Þar er bæði söngurinn og félagsskapurinn skemmtilegur.“

Tólf ára gamall hóf Þráinn þátttöku í starfi KFUM og KFUK í Reykjavík. „Ég tók þátt í unglingastarfi og varð síðar aðstoðarleiðtogi í starfi með yngri börnum og síðan þá hefur æskulýðsstarf í KFUM og KFUK og kirkjunni verið stór hluti af lífi mínu. Ég tók svo þátt í starfi KSS og KSF og sat í stjórn og var formaður beggja félaga um tíma. Ég og konan mín kynntumst í starfi KSF.

Það er þó starfið í sumarbúðunum í Vatnaskógi sem hefur haft hvað mest mótandi áhrif á líf mitt. Þar var ég aðstoðarforingi í fyrsta skipti árið 1999 og hef verið þar í starfi síðan þá, vann nokkur sumur sem foringi, hef einnig verið á fermingarnámskeiðum og ýmsu öðru. Ég hef verið forstöðumaður bæði í sumarflokkum og fermingarnámskeiðum og hef yfirleitt reynt að vera með einn flokk á hverju sumri síðustu árin.

Vatnaskógur er ótrúlegur staður og ég segi stundum að þar hafi ég orðið að þeim manni sem ég er í dag. Það er gefandi að aðstoða börn við að upplifa gleði sumarbúðanna, oft á tíðum að vinna mikla sigra, og hinn kristni boðskaður skiptir mestu máli.

Konan mín hefur tekið þátt í starfi sumarbúðanna í Ölveri og hef ég einnig tengst þangað, reyni að sinna ýmsum verkefnum og nú á fyrirhuguð nýbygging í Ölveri hug minn allan, unnið er að hönnun um þessar mundir og vonandi geta framkvæmdir hafist á næstu árum. Það er svo sérstaklega gefandi að sjá börnin manns upplifa þessa gleði sem liggur í sumarbúðunum.“

Þegar Þráinn var við nám í guðfræðideildinni hóf hann störf sem æskulýðsfulltrúi Hjallakirkju og starfaði einnig til skamms tíma á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Hann lauk námi rétt eftir hrun og hélt þá áfram að starfa sem æskulýðsfulltrúi í Hjallakirkju.

„Á þessum tíma var erfitt að fá embætti í íslensku kirkjunni og árið 2011 fluttumst við fjölskyldan til Álasunds í Noregi þar sem ég tók við prestsembætti. Við bjuggum fjögur viðburðarík ár í Noregi, þar var gott að búa og gott að starfa, en sannarlega áskorun að takast á við prestsstarf á nýju tungumáli, sérstaklega fyrst um sinn.“

Árið 2015 var Þráinn skipaður prestur við Garðaprestakall á Akranesi og fjölskyldan flutti á Akranes í maí það sama ár. Árið 2019 urðu breytingar á prestakallaskipan og Saurbæjarprestakall í Hvalfirði var lagt undir Garðaprestakall og Þráinn skipaður sóknarprestur í nýju Garða- og Saurbæjarprestakalli. Hann leiðir þar samstarf þriggja presta í dag.

„Starf með börnum og unglingum hefur verið mér mikilvægt á starfsferli mínum innan kirkjunnar og KFUM og K, þá bæði æskulýðsstarf og fræðslumál en ég hef komið að útgáfu ýmiss fræðsluefnis og einnig sálgæslu en ég skrifaði lokaritgerð mína um sálgæslu með unglingum.

Við fjölskyldan erum búsett á Akranesi og höfum verið ákaflega glöð hér. Ég nýt þess að eiga stundir með fjölskyldunni, fylgja börnunum í íþróttir, tónlistarskóla og í önnur verkefni. Þá hef ég gaman af útivist, þá sérstaklega skíðum og er það stóra fjölskyldusportið og einnig finnst okkur gaman að ferðast saman. Á covid-árunum fengum við okkur hund sem hefur veitt okkur mikla ánægju. Þá hef ég mikinn áhuga á formúlu 1 og reyni að fylgjast með öllum keppnum.“

Fjölskylda

Eiginkona Þráins er Erna Björk Harðardóttir, svæfingarhjúkrunarfræðingur á HVE á Akranesi, f. 23.6. 1982. Foreldrar Ernu eru hjónin Hörður Geirlaugsson, f. 12.9. 1951, fv. deildarstjóri, og Sigrún Gísladóttir, f. 6.9. 1953, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett á Akranesi.

Börn Þráins og Ernu eru Heiðrún Ása, f. 25.8. 2010, Markús Atli, f. 8.3. 2012, og Agnes, f. 29.9. 2015.

Systkini Þráins, samfeðra: Guðrún Pálína Haraldsdóttir, f. 17.9. 1968, Ása Sigurbjörg Haraldsdóttir, f. 22.6. 1972, og Kristjana Dröfn Haraldsdóttir, f. 18.6. 1974. Sammæðra: Björn Steindórsson, f. 7.9. 1970, og Brynhildur Steindórsdóttir, f. 2.7. 1974. Alsystkini: Þráinn Haraldsson, f. 19.2. 1981, d. 2.3. 1981.

Foreldrar Þráins eru hjónin Haraldur Þráinsson, f. 10.10. 1949, búfræðingur og vélsmiður, og Guðný Gunnarsdóttir, f. 31.5. 1953, leikskólaliði. Þau eru búsett í Norðlingaholti í Reykjavík.