Við getum […] styrkt skoðanaskipti með því að auka frelsi við ráðstöfun séreignarsparnaðar og skapa skattalega hvata fyrir einstaklinga til að fjárfesta í hlutabréfum, við getum haldið áfram að bæta umgjörðina til að laða að fleiri erlenda fjárfesta, við getum liðkað fyrir eðlilegri skortsölu og komið á laggirnar formlegum afleiðumarkaði.

Markaðsviðskipti

Baldur Thorlacius

Framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland

Mörg af þekktustu almenningshlutafélögum heims hafa á einhverjum tímapunkti staðið frammi fyrir því að fjárfestar hafa ekki skilið rekstur þeirra að fullu, og fyrir vikið vanmetið einhver tækifæri, sérstaklega í kjölfar stefnubreytinga eða kaupa og/eða sölu á dótturfyrirtækjum. Þetta er meira að segja daglegt brauð á bandaríska markaðnum, sem er talinn einn öflugasti og skilvirkasti markaður í heimi.

Stundum er þessi vandi jafnvel enn meiri á stærri mörkuðum, þar sem fjárfestar hafa svo mörg félög til að bera saman að þeir enda oft á því að einblína um of á samanburðinn, með því að bera saman verðkennitölur o.s.frv., og missa sjónar á því sem aðskilur þau. Það getur því tekið fjárfesta ákveðinn tíma að melta breytingar eða átta sig á þeim verðmætum sem í breytingunum felast.

Skynsamleg viðbrögð félaga í slíkum aðstæðum eru að fara í markvisst átak í fjárfestatengslum til að fræða fjárfesta og greiningaraðila um undirliggjandi verðmæti og tækifæri. En slíkt getur tekið tíma og þangað til geta verið góð kauptækifæri í hlutabréfunum (ef grunnforsendan um undirverðlagningu er á rökum reist, sem er alls ekki alltaf raunin). Allt er þetta viðurkenndur hluti af gangverki markaðarins og enginn kvartar undan því að hann sé í eðli sínu óskilvirkur.

Hér á Íslandi er aftur á móti meint óskilvirkni markaðarins yfirleitt strax sett í forgrunn þegar stjórnendur og fjárfestar telja hlutabréf vera undirverðlögð. Markaðurinn er of lítill og of grunnur. Möguleg undirverðlagning er ekki hluti af eðlilegu gangverki markaðarins heldur er gangverkið brotið. Gallinn við þessa nálgun er að um leið og aðilar tala niður gangverkið tala þeir einnig niður líkurnar á því að hlutabréfaverðið nái sér á strik. Hvers vegna ætti einhver að kaupa hlutabréf á óskilvirkum markaði? Orðræðan hefur því þveröfug áhrif, fjárfestar gefast upp í stað þess að taka við sér.

Það væri barnalegt að halda því fram að íslenski markaðurinn sé á pari við þann bandaríska þegar kemur að skilvirkni. En hann er almennt mun skilvirkari en af er látið. Það sem skekkir einnig samanburðinn er að aðilar draga oft ályktun um skilvirkni stærri markaða, eins og þess bandaríska, út frá allra stærstu og þekktustu fyrirtækjunum. Hin sjö fræknu (e. The Magnificent 7), þ.e. Apple, Microsoft, Alphabet (móðurfélag Google), Amazon, NVIDIA, Tesla og Meta Platforms (móðurfélag Facebook), vega t.d. um 29% af S&P500-vísitölunni og yfir 40% af Nasdaq 100-vísitölunni. En það eru hátt í sex þúsund skráð félög í Bandaríkjunum og velta og verðmyndun með hlutabréf þeirra geta verið alla vega.

Það er ýmislegt sem við getum gert til að bæta skilvirkni íslenska markaðarins. Við getum t.d. styrkt skoðanaskipti með því að auka frelsi við ráðstöfun séreignarsparnaðar og skapa skattalega hvata fyrir einstaklinga til að fjárfesta í hlutabréfum, við getum haldið áfram að bæta umgjörðina til að laða að fleiri erlenda fjárfesta, við getum liðkað fyrir eðlilegri skortsölu og komið á laggirnar formlegum afleiðumarkaði. En þetta mun alltaf ganga hægar ef við hættum ekki að tala niður skilvirkni markaðarins að ósekju.