Salzburg Diljá Ýr Zomers hitar upp á æfingu landsliðsins í Salzburg í gærmorgun. Fram undan eru tveir leikir gegn Austurríki í undankeppni EM.
Salzburg Diljá Ýr Zomers hitar upp á æfingu landsliðsins í Salzburg í gærmorgun. Fram undan eru tveir leikir gegn Austurríki í undankeppni EM. — Morgunblaðið/Gunnar Egill
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Salzburg Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is „Það er geggjað að vera komin hingað. Það er alltaf jafn gaman að koma og hitta stelpurnar aftur. Það er líka alltaf jafn mikill heiður að fá að vera hérna,“ sagði Diljá Ýr Zomers, sóknarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu og OH Leuven í Belgíu, í samtali við Morgunblaðið.

Í Salzburg

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Það er geggjað að vera komin hingað. Það er alltaf jafn gaman að koma og hitta stelpurnar aftur. Það er líka alltaf jafn mikill heiður að fá að vera hérna,“ sagði Diljá Ýr Zomers, sóknarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu og OH Leuven í Belgíu, í samtali við Morgunblaðið.

Blaðamaður náði tali af Diljá Ýri skömmu fyrir fyrstu æfingu landsliðsins á æfingasvæði austurríska félagsins ASV Taxham í Salzburg þar í landi.

Ísland á fyrir höndum tvo leiki gegn Austurríki í undankeppni EM 2025. Sá fyrri fer fram föstudaginn 31. maí í Ried im Innkreis, sem er í um klukkutíma akstursfjarlægð frá Salzburg, og sá síðari fer fram á Laugardalsvelli 4. júní næstkomandi.

„Þetta er hörkulið. Það verður erfitt að mæta þeim en við eigum fulla möguleika gegn þeim. Við erum með hörkulið líka þannig að þetta verða spennandi leikir,“ sagði hún um mótherjana.

Í 4. riðli A-deildar undankeppninnar eru bæði Austurríki og Ísland með þrjú stig eftir tvo leiki. Þýskaland trónir á toppnum með fullt hús stiga en Pólland rekur lestina í neðsta sætinu án stiga.

Úrslitaleikir um annað sætið

Þjóðverjar eru líklegastir til að vinna 4. riðil og því allt útlit fyrir að baráttan verði á milli Íslands og Austurríkis um að tryggja sér annað sætið í riðlinum, sem gefur beint sæti á Evrópumótinu.

Liðin sem hafna í þriðja og fjórða sæti riðilsins fara í umspil við lið úr B-deild undankeppninnar um að komast á EM 2025, sem fer fram í Sviss næsta sumar.

Diljá Ýr metur það sem svo að leikirnir tveir gegn Austurríki séu úrslitaleikir um að komast beint á EM. „Já, algjörlega. Það má segja það. Þetta er tveggja leikja einvígi sem við ætlum að fá sem mest úr.“

Stolt að hafa skorað mikið

Hún fór á kostum með félagsliði sínu Leuven á sínu fyrsta tímabili í belgísku A-deildinni. Þar gerði Diljá Ýr sér lítið fyrir og skoraði 23 mörk í 27 deildarleikjum þegar liðið hafnaði í þriðja sæti.

„Ég er mjög ánægð og stolt af því að hafa skorað svona mikið af mörkum. Það var kannski ekki eitthvað sem ég bjóst við fyrir tímabilið ef þú hefðir spurt mig þá.

Þetta var bara geggjað og gott fyrir sjálfstraustið,“ sagði hún um nýafstaðið tímabil í Belgíu.

Auk þess að hafa staðið sig vel með Leuven hefur Diljá Ýr fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður í íslenska landsliðinu, en 12 af 13 A-landsleikjum hennar hafa komið á undanförnum rúmum 15 mánuðum. Fyrsta landsliðsmarkið kom í desember gegn Wales í Þjóðadeild Evrópu og annað markið í 3:0-sigri á Póllandi í undankeppni EM í síðasta mánuði.

Í fremstu víglínu undanfarið

Diljá Ýr, sem er 22 ára gömul, er fjölhæfur sóknarmaður sem getur spilað á báðum köntum og í fremstu víglínu. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvar hún hefði mestmegnis verið notuð hjá Leuven.

„Ég hef mestmegnis verið á kantinum en núna upp á síðkastið, svona í lok tímabils, er ég búin að vera meira ein frammi. Það var þá aðallega af því að ég var líkamlega sterkari en framherjinn sem við vorum með.

Ég gat haldið boltanum frammi og það var svolítið það sem við lögðum upp með í síðustu leikjunum,“ útskýrði Diljá Ýr.

Hversu sterk er belgíska A-deildin?

„Ef ég á að segja eins og er fannst mér deildin vera aðeins sterkari í fyrstu umferðunum. Það var ekki svona mikið bil á milli miðjuliðanna og þeirra efstu.

En svo þegar deildinni var skipt upp breikkaði bilið mikið. Það gæti hafa verið einhver uppgjöf hjá hinum liðunum en þetta voru aðallega efstu þrjú liðin sem voru að berjast um þau sæti,“ sagði hún.

Búið að sýna mér áhuga

Eftir að hafa raðað inn mörkum fyrir Leuven hafa önnur félög sýnt Diljá Ýri áhuga. Sem stendur veit hún þó ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.

Ég er með samning og verð áfram eins og staðan er núna. Mér hefur verið sýndur áhugi en ekkert meira en það, allavega eins og staðan er núna. Það er nægur tími til stefnu og ég einbeiti mér að þessu landsliðsverkefni fyrst. Svo sjáum við hvað gerist.“

Diljá Ýr lék með uppeldisfélaginu FH ásamt Stjörnunni og Val á Íslandi áður en hún hélt til Svíþjóðar og lék fyrir Häcken og Norrköping. Þaðan lá leiðin til Leuven, þar sem hún er samningsbundin í eitt ár til viðbótar.

Diljá Ýr kvaðst að lokum opin fyrir því að fara í sterkari deild.

„Ef tækifæri gefst, þá já. Maður er alltaf til í aðeins meiri áskorun. Ég væri alveg tilbúin í það.“

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson