Pavel Ermolinskij er hættur störfum sem þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfuknattleik en félagið skýrði frá því í gær að samkomulag hefði verið gert um starfslok. Pavel tók við Tindastóli í janúar 2023 og liðið varð Íslandsmeistari undir hans stjórn

Pavel Ermolinskij er hættur störfum sem þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfuknattleik en félagið skýrði frá því í gær að samkomulag hefði verið gert um starfslok. Pavel tók við Tindastóli í janúar 2023 og liðið varð Íslandsmeistari undir hans stjórn. Hann fór í veikindafrí 12. mars og stýrði liðinu ekki á lokaspretti Íslandsmótsins í vor.

Að sögn ítalskra fjölmiðla hafa ítölsku Evrópudeildarmeistararnir Atalanta áhuga á að fá Orra Stein Óskarsson, hinn 19 ára gamla framherja landsliðsins og FC Köbenhavn, í sínar raðir. Orri átti góðan endasprett á nýloknu tímabili í Danmörku og skoraði sex mörk í síðustu níu leikjunum.

Marino Gabrieri, króatískur landsliðsmaður í handknattleik, er genginn til liðs við ÍBV. Hann er rétthent skytta, 23 ára, og kemur frá Sloboda Tuzla í Bosníu.

Handknattleiksmaðurinn Tjörvi Týr Gísalson skrifaði í gær undir eins árs samning við þýska 1. deildar liðið Bergischer. Tjörvi varð Evrópubikarmeistari með Val á dögunum. Arnór Þór Gunnarsson er þjálfari liðsins sem er í harðri baráttu um að halda sér uppi í deild þeirra bestu þegar tvær umferðir eru eftir í Þýskalandi.

Þýski knattspyrnumaðurinn Timo Werner verður áfram hjá Tottenham á næsta tímabili. Lán hans frá RB Leipzig í heimalandinu hefur því verið framlengt til sumarsins 2025. Werner spilaði 14 leiki og skoraði tvö mörk fyrir Tottenham frá komu hans í janúar.

Nýbakaða landsliðskonan Tinna Sigurrós Traustadóttir er gengin til liðs við Stjörnuna frá uppeldisfélagi sínu Selfossi. Hún er nýorðin tuttugu ára og hefur verið með í síðustu tveimur landsliðsverkefnum.