Liðsmenn Slóvakíu og Kanada tuskast á heimsmeistaramótinu í íshokkí í síðustu viku. Eins og svo margt annað sem fólk hefur gaman af mætti réttlæta það að banna íshokki með vísan til þess hvað slysin á svellinu kosta samfélagið.
Liðsmenn Slóvakíu og Kanada tuskast á heimsmeistaramótinu í íshokkí í síðustu viku. Eins og svo margt annað sem fólk hefur gaman af mætti réttlæta það að banna íshokki með vísan til þess hvað slysin á svellinu kosta samfélagið. — AFP/Michal Cizek
Er ekki dularfullt hvað sala áfengis í matvöruverslunum mætir miklum pólitískum mótbyr á Íslandi? Samt er eins og öllum þorra fólks finnist það fullkomlega sjálfsagt að fá vínið í búðirnar og viðhorfskannanir sýna að þeir stjórnmálamenn sem stilla…

Er ekki dularfullt hvað sala áfengis í matvöruverslunum mætir miklum pólitískum mótbyr á Íslandi? Samt er eins og öllum þorra fólks finnist það fullkomlega sjálfsagt að fá vínið í búðirnar og viðhorfskannanir sýna að þeir stjórnmálamenn sem stilla sér upp í liði með ÁTVR eru að vinna á móti vilja meirihluta kjósenda.

Það er heldur ekki eins og hugmyndin sé splunkuný og einstök í heiminum: í nær öllum löndum þykir ekkert sjálfsagðara en að geta kippt með bjórdós, vínflösku og jafnvel einhverju sterkara þegar verslað er í matinn, og ekki eins og Íslendingar missi á sér alla stjórn þegar þeir heimsækja Carrefour eða Walmart í útlandinu. Þá er sama hvernig litið er á málið að rökin með einokunarsölu ríkisins og gegn frjálsri verslun með áfengi halda engu vatni. Og samt þráast stjórnvöld við.

Sennilega er mótstaðan drifin áfram af tveimur hópum sem mig langar að gera skil: annars vegar er það aðgangsharði minnihlutinn og hins vegar verndarar velferðarkerfisins. Ef við gætum okkur ekki á þessum tveimur týpum er voðinn vís.

Það sem meirihlutinn þolir

Nassim Taleb fjallaði um aðgangsharða minnihlutann í bókinni Skin in the Game. Þar nefnir hann nokkur dæmi um hvernig lítill hópur innan samfélagsins – ef hann er bara nógu fastur fyrir – getur smám saman þröngvað vilja sínum upp á meirihlutann. Til að þetta gerist þarf minnihlutanum að finnast mikið í húfi, og málið má ekki vera þess eðlis að meirihlutanum þyki það vera af og frá að gera minnihlutanum til geðs. Svo þarf minnihlutinn að vera nokkuð vel dreifður um samfélagið allt.

Skýrasta dæmið sem Taleb gefur er að megnið af því kjöti sem selt er í breskum matvöruverslunum er halal-vottað. Halal-slátrun er ekki öllum að skapi (og getur verið hroðaleg), en hinn almenni neytandi er ekkert sérstaklega vel að sér um slátrunaraðferðir og leggur allar kjötvörur að jöfnu, á meðan músliminn tekur ekki í mál að kaupa kjötpakkningu sem ekki er með halal-stimpli. Þess vegna er það ósköp rökrétt ákvörðun hjá breskum seljendum að allt kjöt sé framleitt eftir halal-staðli, þó að aðeins 6% landsmanna séu múslimar, því það væri flóknara og dýrara að aðskilja halal-kjötið frá hinu.

Á sama hátt má finna á Íslandi allstórt samfélag fólks sem hefur brennt sig á eigin áfengisneyslu eða annarra. Vitaskuld eigum við að sýna þessu fólki skilning og hlýju – það er ekkert grín að alast upp á heimili þar sem áfengi er misnotað og alkóhólismi er alvarlegur sjúkdómur – en á sama tíma er eðlilegt að spyrna við fótum þegar þetta fólk reynir að uppræta áfengisvandann með því að gera ósköp venjulegu fólki erfiðara fyrir að kaupa ósköp venjulega neysluvöru. Gallinn er að sá sem vill einfaldlega geta keypt sér flösku af rauðvíni á sama stað og hann kaupir nautasteikina brennur ekki fyrir frelsinu af sama krafti og forvarnafrömuðurinn brennur fyrir því að bjarga öðrum frá því að fara ógætilega með vín.

Stjórnmálamaðurinn veit að þeir sem vilja hafa sölu áfengis með sama formi og nær alls staðar annars staðar á Vesturlöndum eru ekki að fara að stofna fjöldahreyfingar, skipuleggja ráðstefnur og halda uppi greinaherferðum í blöðunum. Þeir sem myndu vilja meira frelsi láta sig hafa það að dröslast út í næstu verslun ÁTVR, sætta sig við stuttan afgreiðslutíma og allt hitt ómakið, en nenna ekki að leggja mikið meira til frelsisbaráttunnar en að skála endrum og sinnum fyrir Arnari Sigurðssyni.

Tyggjó, tónlist og toxóplasmi

Enn erfiðari viðureignar eru svk. verndarar velferðarkerfisins, sem réttlæta hvers kyns afskipti af lífsstíl fólks og löstum með vísan til heildarhagsmuna og hagræðingar í rekstri hins opinbera. Þetta er fólkið sem getur alltaf fengið það út í Excel-skjali að þessi lösturinn eða hinn sé byrði á samfélaginu sem þurfi að uppræta.

Sú nálgun sem þetta fólk beitir er að reikna út raunverulegt og ímyndað tjón, með aðferðum sem erfitt er að skilja – nema hvað allt mögulegt tjón er mælt en allur ávinningur undanskilinn. Það er engin furða að þetta fólk skuli virðast óstöðvandi, því skattarnir eru svo agalega háir og alltaf hægt að finna eitthvað í fari náungans sem mætti laga til að létta byrði af ríkissjóði – og þá kannski á endanum létta byrðarnar sem lagðar eru á okkur hin.

Með öðrum orðum: Ef allir bera ábyrgð á öllum í gegnum velferðarkerfið, þá hafa að sama skapi allir fullan rétt á að skipta sér af hvort maðurinn í næsta húsi lifi lífinu á þennan veginn eða hinn. Litlu og stóru mistökin sem fólk gerir í leitinni að lífshamingjunni hætta að vera einkamál hvers og eins, og verða í staðinn eitthvað sem þarf að stýra.

Þegar þessari nálgun er beitt eru engin takmörk fyrir því hvað getur talist eðlileg inngrip í lífsstíl borgaranna. Velferðarfrömuðir hafa t.d. ekki bara reiknað út samfélagslegan kostnað af neyslu áfengis og annarra vímugjafa, heldur líka reiknað það út að kjörið væri að hlífa heilbrigðiskerfinu og ríkissjóði með því að setja sérstakar skorður á neyslu á salti, kjötmeti og sælgæti – að vísu bara með viðbótarsköttum fyrst það fengist sennilega ekki í gegn að leggja á algjört bann.

En nú hugsa sumir lesendur: er þetta ekki hið besta mál? Má ekki mjaka fólki í átt að heilbrigðara líferni? Svarið við þeirri spurningu er að enginn veit það betur en einstaklingurinn sjálfur hvar hamingjuna er að finna, og eins og Lysander Spooner orðaði það fyrir sléttum 150 árum er það mannanna sjálfra að meta hvort lestir þeirra séu í raun lestir.

En svo er hitt að þegar haldið er inn á þessa braut er leikandi létt að réttlæta enn frekari boð og bönn. Mér leiðast t.d. flestar íþróttir og finnst skrítið að þurfa, í gegnum skattkerfið, að taka þátt í sjúkrakostnaði og endurhæfingu íþróttamanns sem slítur hásin í knattspyrnuleik eða skíðabrekku. Hvað ætli það myndi spara ríkissjóði að banna fótbolta og loka Bláfjöllum? Hundur beit ódælt barn – bönnum hunda og komum í veg fyrir frekara tjón. Bönnum ketti í leiðinni svo að toxóplasmi verði örugglega ekki til neinna vandræða. Hangikjöt og kæstur hákarl auka örugglega líkurnar á einhverjum meinum; bönnum þessa rétti og bönnum þorrablótin í leiðinni því þar á fólk það til að skemmta sér of mikið og búa til börn, og ekki er það á skólakerfið leggjandi – að ekki sé talað um kolefnissporið af hverjum krakka!

Þyki lesendum þessi dæmi of langsótt má rifja það upp að stjórnvöldum hér og þar í heiminum hefur tekist að banna – ætíð með einhverri tengingu við heildarhagsmuni samfélagsins – tölvuleiki, tyggigúmmí, dansleiki, tónlist á almannafæri, kynlíf utan hjónabands og samkynhneigð, svo aðeins séu nokkur fjarstæðukennd dæmi nefnd.

Er varla hægt að finna þann ánægjulega og sjálfsagða hlut sem hefur ekki einhvern tíma í mannkynssögunni verið bannaður af fólki sem taldi sig í fullkomnum rétti til að hafa vit fyrir öllu samfélaginu.

Þegar skattgreiðandinn verður byrði á kerfinu

Hér eru því komin enn ein rökin fyrir því að auka frelsið og minnka hið opinbera. Rausnarlegt og víðfeðmt velferðarkerfi býður heim hættunni á að reikningsdæmi ráði því hve frjáls einstaklingurinn fær að vera.

En dugi þetta ekki til að láta lesendum renna kalt vatn milli skinns og hörunds þá berast núna fregnir af því frá Kanada að verndurum velferðarkerfisins sé svo mjög í mun að létta undir með ríkissjóði að þeir keppast við að koma gamla og langveika fólkinu fyrir kattarnef.

Það á að vera löglegt að veita sárþjáðu fólki aðstoð við að enda eigið líf, en í Kanada hefur komið í ljós að mikil hætta er á hagsmunaárekstrum þegar saman fara líknardauði og ríkisrekið heilbrigðiskerfi. Reglulega berast fréttir af fólki sem virðist hafa verið ýtt út í það af heilbrigðisstarfsfólki að kveðja þennan heim frekar en að takast á við veikindi sín, og ættingjar sjúklinga sem sviptir hafa verið sjálfræði kvarta yfir því að þrýst sé á þá að svæfa afa gamla frekar en að láta hann fylla sjúkrarúm enn einn mánuðinn.

Kanadíska tilraunin fór rólega af stað: líknardráp voru gerð lögleg 2016 og fyrsta árið nýttu rétt rúmlega þúsund manns úrræðið. Árið 2022 var talan hins vegar komin yfir 13.200 á aðeins einu ári og það árið voru 4,1% allra dauðsfalla í Kanada skráð sem líknarmorð.

Í rannsókn sem birt var skömmu eftir að lögin frá 2016 tóku gildi var það reiknað út að líknardráp myndu spara kanadíska heilbrigðiskerfinu á bilinu 34 til 136 milljónir kanadadala ár hvert og að fyrir hvern dal sem færi í að gefa fólki banvæna sprautu myndu sparast tíu dalir hjá spítölunum. Höfundum rannsóknarinnar virðist hafa legið svo mikið á að reikna út hagræðingaráhrifin að þeir gleymdu að reikna hvort veikir Kanadamenn væru að fá peninganna virði þegar þeir þyrftu loksins á góðri heilbrigðisþjónustu að halda eftir að hafa lagt sitt af mörkum til sameiginlegra sjóða samfélagsins alla sína ævi.