Haraldur Ólafsson
Haraldur Ólafsson
Þegar sletturnar koma úr ólgupottinum er mikilvægt að hafa traustan varðmann á Bessastöðum.

Haraldur Ólafsson

Margir mæla á þann veg að Alþingi sé veikt. Bent er á að stór hluti löggjafar komi í pósti frá Brussel. Það sem ekki kemur þaðan er samið af embættismönnum ráðuneyta, eða undir þeirra umsjón. Hinir raunverulegu lagasmiðir eru í ríkum mæli aðrir en þeir sem hafa verið kosnir til þeirra verka.

Þetta er mikið áhyggjuefni, vegna þess að ýmsar hættur steðja að þjóðinni. Erlendir aðilar ásælast auðlindir lands og sjávar tiltölulega grímulaust. Bylgja stríðsæsings og óláta gengur yfir heiminn. Ótti ríður húsum og ný óttaviðbrögð stjórnvalda víða um lönd, sem flest ganga út á að skerða frelsi og önnur mannréttindi, eru daglegt brauð.

Enginn veit hvenær sullast á okkur úr þessum ólgupotti. Þá er mikilvægt að í embætti forseta Íslands sitji maður sem lætur ekki svoleiðis slettur á sig fá og stendur traustur vörð um landsrétt Íslendinga, frelsi, fullveldi og mannréttindi.

Arnar Þór Jónsson er sá maður.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.