Steinunn Þórðardóttir
Steinunn Þórðardóttir
Nauðsynlegt er að nýjum Landspítala fylgi þyrlupallur, segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, en fram kom í Morgunblaðinu í gær að ekki væri gert ráð fyrir þyrlupalli við Sjúkrahúsið á Akureyri en óvíst með nýja Landspítalann og af því hefði þyrlulæknir áhyggjur

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Nauðsynlegt er að nýjum Landspítala fylgi þyrlupallur, segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, en fram kom í Morgunblaðinu í gær að ekki væri gert ráð fyrir þyrlupalli við Sjúkrahúsið á Akureyri en óvíst með nýja Landspítalann og af því hefði þyrlulæknir áhyggjur.

„Sem formaður Læknafélagsins hef ég þungar áhyggjur af því að hugsanlega verði þar ekki þyrlupallur,“ segir Steinunn en Læknafélagið hefur ekki verið haft með í ráðum.

„Við berum hag allra landsmanna fyrir brjósti og þyrlupallur snýr aðallega að öryggi fólks af landsbyggðinni og öryggi sjómanna.“

Hún bendir á að verulegar tafir geti orðið á komu hjartasjúklinga á leið í bráðaaðgerð, vanti þyrlupall.

Gæslan styður þyrlulækna

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir það hlutverk heilbrigðisyfirvalda að ákveða hvar þyrlur geti lent við sjúkrahús, en Gæslan styðji þyrlulæknana og mat þeirra. Það segi sína sögu að þyrluflugmenn kjósi helst að lenda við sjúkrahúsin.

Þyrlur Gæslunnar í sjúkraflugi lenda í 65% tilvika við LSH í Fossvogi, en hin 35% á flugvelli eða á þyrlupallinum í Nauthólsvík, oftast með hjartasjúklinga á leið á hjartadeild LSH við Hringbraut.

Þyrlupallur ekki útilokaður

Ásgeir Margeirsson, formaður stýrihóps um byggingu nýja Landspítalans, segir óákveðið hvort þyrlupallur verði þar, en það ætti að skýrast á þessu eða næsta ári.

Fyrir sé þyrlupallur á vegum Gæslunnar í Nauthólsvík, sem festa þurfi í sessi, enda hægt að lenda þar í blindflugi.

„Þyrlupallur við Landspítalann á Hringbraut einn og sér er ekki nægjanlegur,“ segir Ásgeir, en ekki er gert ráð fyrir blindflugsbúnaði við sjúkrahúsið sjálft.