Öflugur Óli Valur Ómarsson er í stóru hlutverki hjá Stjörnunni.
Öflugur Óli Valur Ómarsson er í stóru hlutverki hjá Stjörnunni. — Morgunblaðið/Eggert
Óli Valur Ómarsson, hægri bakvörður Stjörnunnar, var besti leikmaðurinn í áttundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Óli Valur lék mjög vel á sunnudaginn þegar Garðabæjarliðið vann stórsigur á KA, 5:0, og lagði meðal annars upp fjórða mark Stjörnunnar

Óli Valur Ómarsson, hægri bakvörður Stjörnunnar, var besti leikmaðurinn í áttundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Óli Valur lék mjög vel á sunnudaginn þegar Garðabæjarliðið vann stórsigur á KA, 5:0, og lagði meðal annars upp fjórða mark Stjörnunnar. Hann fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína.

Óli Valur er 21 árs gamall og uppalinn hjá Stjörnunni þar sem hann var marksækinn sóknarmaður í yngri flokkunum. Hann spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild aðeins 16 ára, gegn ÍBV í lok Íslandsmótsins árið 2019, og vann sér fast sæti í liðinu tveimur árum síðar.

Seldur til Sirius

Hann átti síðan mjög góða fyrri umferð á Íslandsmótinu 2022 og það leiddi til þess að hann var seldur á miðju sumri til sænska úrvalsdeildarliðsins Sirius.

Óli Valur lék 13 leiki með Sirius í úrvalsdeildinni það sem eftir var tímabils. Hann meiddist síðan í leik gegn Írlandi með 21-árs landsliðinu í mars 2023, missti fyrir vikið af stórum hluta tímabilsins og spilaði aðeins tvo leiki með Sirius í sænsku deildinni.

Hann var í framhaldi af því lánaður til Stjörnunnar í mars á þessu ári og spilar með liðinu út þetta tímabil. Hann hefur leikið alla átta leikina í deildinni og skorað í þeim tvö mörk. Óli Valur hefur spilað með öllum landsliðum Íslands, frá U15 ára til U21 árs, samtals 27 leiki og skorað í þeim tvö mörk.

Tveir sem fengu tvö M

Aðeins tveir leikmenn fengu tvö M fyrir frammistöðu sína í 8. umferðinni en hinn var samherji Óla, Emil Atlason, sem skoraði tvö mörk í sigrinum gegn KA. Þeir eru að sjálfsögðu báðir í liði umferðarinnar og Óli Valur er valinn í liðið í þriðja sinn í fyrstu átta umferðunum.

Jónatan Ingi Jónsson úr Val og Viktor Karl Einarsson úr Breiðabliki eru báðir í liði umferðarinnar í fjórða skipti.