Rekstur Strætó bs. í ólagi og rekstrarleyfi í uppnámi

Strætó bs. sótti um endurnýjun á rekstrarleyfi sínu til Samgöngustofu en þar var fyrirstaða þar sem Strætó er með neikvæða eiginfjárstöðu, eins og fram kemur í fundargerðum félagsins. Í fundargerð frá því í lok apríl segir að unnið sé með Samgöngustofu og innviðaráðuneytinu að lausn málsins, en rekstrarleyfið renni út 28. maí, eða í gær. Í fundargerð 17. maí kom fram að staðan var óbreytt, en tíu dögum síðar upplýsti vefur Viðskiptablaðsins að Strætó hefði fengið rekstrarleyfið endurnýjað þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði um jákvætt eigið fé. Félaginu var samkvæmt því bjargað fyrir horn. Í bili.

Framkvæmdastjóri félagsins sagði í samtali við Viðskiptablaðið að komið hefði í ljós að almenningssamgöngur væru undanþegnar ákveðnum skilyrðum fyrir leyfisveitingar í Evrópu og til stæði að breyta reglugerð hér til að veita slíka undanþágu. Strætó hafði í þessu sambandi bent á að félagið væri byggðasamlag með ótakmarkaðri ábyrgð og því tryggt að það færi aldrei í gjaldþrot.

Að minnsta kosti tvennt er umhugsunarvert í þessu sambandi. Annað er að þarna virðist komið enn eitt dæmið um að reglur sem innleiddar eru hér frá Evrópusambandinu séu innleiddar með meira íþyngjandi hætti hér en þar er gert. Það er út af fyrir sig alvarlegt og áminning um að endurskoða þarf hvernig unnið er að þeim málum.

Hitt er ekki síður alvarlegt að staða þessa opinbera fyrirtækis sé svo slæm sem raun ber vitni. Í umfjöllun í stjórn um fjármálin er vitnað í minnisblað framkvæmdastjóra og þar segir að fjárhagsstaðan sé þung, vagnar eldist og rekstrarkostnaður hækki. Þá hafi „vanfjármögnun Strætó í gegnum árin“, eins og það er orðað, átt þátt í að draga úr tækifærum félagsins til að bæta þjónustuna og endurnýja vagnaflotann. Þetta er einnig áhyggjuefni því að ljóst er af umræðum í stjórn Strætó að vagnarnir eru margir komnir mjög til ára sinna og með því eykst hættan á bilunum sem geta valdið farþegum óþægindum og í það minnsta orðið til vandræða í umferðinni.

Þá segir í minnisblaði framkvæmdastjóra að á tekjumódelinu þurfi að taka og er meðal annars fundið að því að framlag ríkisins hafi ekki haldið verðgildi sínu frá 2012, auk þess sem framlag vegna nemendakorta hafi dregist aftur úr verðlagsþróun. Stjórn Strætó bókar að hún vilji að úr þessu verði bætt, eins og það er orðað.

Rekstrarreikningur Strætó fyrir fyrsta fjórðung þessa árs sýnir að tekjur aukast töluvert en það skýrist fyrst og fremst af stóraukinni niðurgreiðslu sveitarfélaganna sem eiga félagið. Fargjaldatekjur aukast einnig, en mun minna, og eru undir áætlun á fyrstu mánuðum ársins, en þær nema ekki nema innan við fimmtungi heildarteknanna.

Framlag ríkisins og sveitarfélaganna er sem sagt það sem heldur uppi Strætó og framlagið frá 2012 sem vísað er til er um milljarður á ári sem ákveðið var að taka af nauðsynlegu viðhaldi og samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu og setja í staðinn í Strætó. Sú tilfærsla hefur engu skilað nema umferðarteppum því að almenningur velur strætisvagna ekki frekar nú en þá. Þrátt fyrir að þetta sé löngu orðið ljóst og samgöngusáttmálinn svokallaði sé í uppnámi vegna þess að kostnaður stefnir í að verða margfalt hærri en fyrst var áætlað berast nú fregnir af því að Vegagerðin hafi boðið út hönnun á hluta borgarlínunnar, eftir Suðurlandsbraut og Laugavegi. Þetta er líka gert þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir um rekstrarkostnað borgarlínunnar eða hver eigi að bera hann, en hvorki ríkið né sveitarfélögin vilja taka á sig þær byrðar.

Væri ekki nær að þessir aðilar einbeittu sér að því að ná tökum á rekstri Strætó, sem þeim hefur verið ofviða, en að ana áfram út í enn kostnaðarsamara almenningssamgöngukerfi sem ekkert liggur fyrir um hvað mun á endanum kosta eða hver á að borga fyrir?