Óli Páll segir að gervigreind sé aðeins eins öflug og gögnin sem hún vinnur með.
Óli Páll segir að gervigreind sé aðeins eins öflug og gögnin sem hún vinnur með. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Óli Páll Geirsson er nýr framkvæmdastjóri gagnavísinda hjá Snjallgögnum, þar sem hann mun koma að þróun og rekstri gervigreindarlausna og sinna uppbyggingu gagnavísindateymis félagsins. Hann er sérfræðingur í gagnavísindum með doktorspróf í…

Óli Páll Geirsson er nýr framkvæmdastjóri gagnavísinda hjá Snjallgögnum, þar sem hann mun koma að þróun og rekstri gervigreindarlausna og sinna uppbyggingu gagnavísindateymis félagsins. Hann er sérfræðingur í gagnavísindum með doktorspróf í stærðfræðilegri tölfræði og býr yfir áratuga reynslu af gagnagreiningu, kennslu og að leiða gagnateymi.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Helstu áskoranirnar þessa dagana, sem eru líka þær mest spennandi, eru að halda í við hraða tækniþróun, sérstaklega á sviði gervigreindar, og tryggja að við séum stöðugt að nýta nýjustu tækni og aðferðir í gagnavísindum til að hámarka virði gagna. Gervigreind hefur umbreytt rekstrarlandslaginu okkar og opnað dyr fyrir óteljandi ný tækifæri í gagnadrifnum rekstri. Þetta tækifæri þarf að grípa með opnum örmum og huga og nýta til fulls. Að sama skapi er mikilvægt að byggja upp trausta gagnainnviði innan fyrirtækja. Góð gervigreind er aðeins eins öflug og gögnin sem hún vinnur með. Það er stór áskorun að tryggja að gagnainnviðir séu í stakk búnir til að styðja við gervigreindarlausnir til að hámarka virði þeirra í rekstri.

Önnur áskorun er mannlegi þáttur gervigreindarbyltingarinnar. Hvernig starfsfólk fyrirtækja er undirbúið til að taka þátt í gervigreindarbyltingunni og nýta þær gervigreindarlausnir sem eru í boði og hvernig hægt er að styðja við bakið á starfsfólki í slíkum straumhvörfum á sem bestan hátt. Við brennum fyrir þessum verkefnum og teljum þetta vera eina helstu áskörun vinnumarkaðarins.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Seinasti fyrirlestur sem ég sótti var á Icelandic Innovation Week, sér í lagi Nýsköpunardagur hins opinbera. Þar flutti Niall McDonagh, forstjóri opinbera geirans hjá Google Cloud EMEA, áhugavert erindi um mikilvægi gervigreindar og nýsköpun í opinberri þjónustu. Í erindinu lagði hann áherslu á hvernig gervigreind getur umbreytt opinberri þjónustu og stuðlað að nýsköpun. Hann ræddi um hvernig gervigreindartækni getur bætt skilvirkni, aukið gæði þjónustu og nýtt gögn á nýstárlegan hátt til að auðga þjónustu við almenning. Fyrirlesturinn var afar fróðlegur og veitti góða innsýn í það hvernig gervigreind getur verið drifkraftur umbreytinga í opinberum rekstri.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

The Five Dysfunctions of a Team eftir Patrick Lencioni og Foundation eftir Isaac Asimov hafa haft áhrif á hvernig ég nálgast mína vinnu og mitt viðhorf til vinnunnar.

Í The Five Dysfunctions of a Team er talað um samheldni og traust innan teymis. Þessi bók hefur hjálpað mér að byggja upp sterk og öflug teymi með því að skapa umhverfi þar sem allir eru hvattir til að deila skoðunum sínum og taka ábyrgð á verkefnum sínum.

Foundation eftir Isaac Asimov hefur einnig haft áhrif á mig, þó á allt annan hátt. Bókin fjallar um vísindamanninn Hari Seldon og sögusviðið byggist á hugmyndinni um „psychohistory“, sem sameinar sagnfræði, sálfræði og tölfræði til að spá fyrir um framtíð mannkyns. Þessi bók hefur veitt mér innblástur til að hugsa stórt um hvernig sé hægt að nota gögn og tölfræðilegar aðferðir til taka upplýstar og gagnadrifnar ákvarðanir.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég reyni eftir bestu getu að fylgjast með rannsóknum á sviði tölfræði og gagnavísinda. Ég les greinar og bækur, tek þátt í ráðstefnum og vinnustofum þegar tækifæri býðst. Í seinni tíð hef ég verið duglegur að hlusta á hlaðvörp, t.d. Not So Standard Deviations, og nýtt mér þann hafsjó fróðleiks sem er að finna um þennan málaflokk á YouTube.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Ef ég væri nauðbeygður til að skipta þá mundi ég kjósa geimrannsóknir, sem hafa heillað mig frá unga aldri. Mér finnst hrikalega spennandi hvernig, m.a. með því að nota aðferðir gagnavísinda, vísindafólki tókst að setja saman mynd af svartholi í 55 milljóna ljósára fjarlægð. Ég mundi einnig una mér sáttur sem kennari, enda finnst mér fátt meira gefandi en að miðla áfram því sem ég kann, sjá aðra kveikja á perunni og taka hugmyndir áfram.

Ævi og störf

Nám: B.Sc. í stærðfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc. í líkindafræði frá Gautaborgarháskóla og Ph.D. í stærðfræðilegri tölfræði frá Háskóla Íslands & Háskólanum í Þrándheimi.

Störf: Rannsóknarsérfræðingur í stærðfræðilegri tölfræði við Háskóla Íslands frá 2015-2017 og aðjunkt við sama skóla 2015-2023. Ráðgjafi í gagnavísindum QuizUp 2015-2016, sérfræðingur í gagnavísindum hjá LS Retail 2016-2017 og hjá Landsbankanum 2017-2019. Gagnastjóri hjá Reykjavíkurborg 2019-2021 og hjá Lucinity 2021-2024 og nú framkvæmdastjóri hjá Snjallgögnum.

Áhugamál: Augljóslega tölfræði og gagnavísindi, og gagnadrifinn rekstur. Ótengt vinnu hef ég mikinn áhuga á tónlist, útivist með fjölskyldunni, þá aðallega snjóbretti og fjallgöngum, CrossFit og almennt heilbrigðum lífsstíl og vísindaskáldskap.

Fjölskylduhagir: Unnusta mín er Margrét Pétursdóttir og við eigum þrjú börn.