Vinnustaðir eru ekkert öðruvísi en íþróttalið. Þeir fara í gegnum hæðir og lægðir og eiga sín gullaldartímabil. Hvað með þinn vinnustað? Ertu hluti af gullaldarliði eða er fyrirtækið í lægð?

Atvinnulíf

Andrés Jónsson

Stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Góðra samskipta

Það er freistandi í rekstri fyrirtækja að leita patent-lausna á hlutum. Í stað þess að gera það sem við vitum innst inni að við þurfum að gera, svo sem að tækla vandamál, taka á óhæfum stjórnanda eða fara sjálf ofan í hlutina og skilja þá, þá hættir okkur til að velja leið sem gefur þá mynd að við séum að kljást við vandamálið.

Fyrir nokkrum árum, ef vandamálið var léleg upplýsingamiðlun innan vinnustaðarins, þá ákváðu margir að svarið væri Facebook Workplace. Það er hugbúnaður frá Facebook fyrir innri samskipti fyrirtækja. Innleiðing Workplace gekk misvel hjá vinnustöðum hér á landi, oft notuðu fáir þennan vettvang og innri samskiptin bötnuðu lítið.

Þegar Meta, eigandi Facebook, tilkynnti á dögunum að þróun og sölu Workplace yrði hætt fór ég að hugsa um öll þau önnur innkaup og ákvarðanir sem fyrirtæki taka og skila ekki tilætluðum árangri. Hugbúnaðarkaup eru kannski ekki alltaf þessi einfalda lausn.

Þetta minnir á söguna um stjórnandann sem brást við því þegar starfsmaður brenndi ítrekað poppkorn í örbylgjuofninum á vinnustaðnum með því að hengja upp skilti í eldhúskróknum sem á stóð „Ekki láta popp brenna í örbylgjuofninum – vond lykt,“ í stað þess að tala beint við viðkomandi starfsmann.

Dæmi um óskynsamlegar patent-lausnir eru t.d. rebranding þar sem fáar breytingar eru gerðar á rekstrinum, innleiðing hugbúnaðar þar sem ávinningurinn er óljós, útvistun lykilverkefna eða stefnumótunarvinna þar sem forstjórinn er í raun einráður eða hluti stjórnenda vill ekki breytingarnar.

Frumkvöðull í Sílikondal gaf fyrir nokkrum árum út bókina The hard things about things sem lýsir ágætlega hversu erfitt verkefni fyrirtækjarekstur er. Lausnin sem er ekki patent, því hún á beint við um þitt fyrirtæki og þinn vinnustað, er að fara í og varpa ljósi á erfiðu hlutina. Að fara inn í fundarherbergi með þeim sem þurfa að koma að lausninni og gefa sér raunverulegan tíma til að ræða málin. Fara í kjarna málsins, ávarpa fílinn í herberginu og tala hreint út.

Oft er vandamálið skortur á stemningu, í stjórnendahópnum og meðal starfsmanna almennt. Það vantar trú og tilgang og traust á milli fólks. Stjórnendur eru fastir í farinu og fá ekki stuðning til að vinna úr málunum. Þeir eru hræddir um störf sín og stöðu, finnst þeir ekki vera að þróast, óttast að fá hitann á sig og að tapa slag við aðra stjórnendur. Þetta er óheilbrigt ástand.

Vinnustaðir eru ekkert öðruvísi en íþróttalið. Þeir fara í gegnum hæðir og lægðir og eiga sín gullaldartímabil. Hvað með þinn vinnustað? Ertu hluti af gullaldarliði eða er fyrirtækið í lægð?

Til þess að skapa aðstæður fyrir gullaldartímabil þá þurfum við yfirleitt að fara í naflaskoðun og skoða hvar við erum stöðnuð. Hvar við erum ekki í fremstu röð.

Erum við að ráða nægilega öflugt fólk? Erum við að gefa okkar besta fólki aukna ábyrgð? Erum við að hrósa fyrir það sem er gert vel? Erum við einhvers staðar í vörn þegar við ættum að vera í sókn?

Stundum getur verið gott að fá ytri sýn á þessa erfiðu hluti en það kemur aldrei í staðinn fyrir að fara sjálf með hendurnar í moldina.

Það finna allir hvort stemningin sé góð á vinnustað, hvort stjórnendur séu öryggið uppmálað eða hvort óvissa og ráðaleysi sé allsráðandi. Hvort eigendur og stjórnendur séu á leið í sömu átt eða hvort útlit sé fyrir breytingar á eignarhaldi eða stjórnendum.

Yfirleitt leysast hlutirnir ekki af sjálfu sér. Við þurfum að spyrja okkur erfiðu spurninganna og grípa til aðgerða. Lykilatriðið er að æðstu stjórnendur finni aftur gleðina og tilganginn í því sem þeir eru að gera. Það smitast í aðra á vinnustaðnum og áður en langt um líður gæti fyrirtækið verið komið í stuð.