Bolungarvík Bæjarfélagið er harmi slegið vegna andlátsfregnanna, en málið er í rannsókn hjá lögreglunni.
Bolungarvík Bæjarfélagið er harmi slegið vegna andlátsfregnanna, en málið er í rannsókn hjá lögreglunni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar nú mál sambýlisfólks á sjötugsaldri sem fannst látið á heimili sínu í Bolungarvík í fyrrakvöld. Var tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kölluð út til að aðstoða við rannsókn málsins og flutt til Vestfjarða með þyrlu Landhelgisgæslunnar

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar nú mál sambýlisfólks á sjötugsaldri sem fannst látið á heimili sínu í Bolungarvík í fyrrakvöld. Var tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kölluð út til að aðstoða við rannsókn málsins og flutt til Vestfjarða með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Lögreglan á Vestfjörðum sagði í yfirlýsingu í gær að ekkert benti til þess að saknæmur atburður hefði átt sér stað og að enginn væri með réttarstöðu sakbornings.

Helgi Jensson, lögreglustjóri Vestfjarða, sagði við mbl.is í gær að rannsókn á vettvangi væri að meginhluta lokið og telur hann líklegt að krufning fari fram á næstu dögum. Lík fólksins eru nú komin til Reykjavíkur.

Sagði Helgi að niðurstaða hennar myndi örugglega liggja fyrir síðar í þessari viku eða í næstu viku. Aðspurður sagði Helgi að lögreglan áttaði sig nú að einhverju leyti á málsatvikum, en að vonandi myndi krufningin veita nánari upplýsingar um andlát fólksins.

Lögreglunni barst tilkynningin um kvöldmatarleytið í fyrradag, en ekki lá fyrir í gær hvenær andlátin bar að.

Munu styðja hvert annað

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, sagði við mbl.is í gær að samfélaginu í bænum væri brugðið vegna tíðindanna, en að engin hætta væri á ferðum. Segir hann að málið sé fyrst og fremst persónulegur harmleikur.

Sagði hann að atburðir af þessu tagi væru ekki eitthvað sem fólkið á Bolungarvík hefði ímyndunarafl til þess að gera sér grein fyrir. „Bolungarvík er friðsælt samfélag. Þetta er hræðilegur atburður,“ sagði Jón Páll.

„Það er okkar hlutverk fyrir samfélag – ekki sveitarfélag, þetta er fyrst og fremst samfélag – að halda utan um hvert annað og hlúa að þeim sem líður illa. Auðvitað getur það gerst að fólk upplifi alls konar tilfinningar þegar það heyrir af svona atburðum. Við munum styðja hvert annað í okkar friðsæla samfélagi,“ sagði Jón Páll að lokum.

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir