Háir vextir draga úr áhuga fjárfesta í þátttöku á hlutabréfamarkaði, sem raun ber vitni.
Háir vextir draga úr áhuga fjárfesta í þátttöku á hlutabréfamarkaði, sem raun ber vitni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Það má flestum vera ljóst sem fylgjast með stöðunni á íslenskum hlutabréfamarkaði að stemningin, ef þannig má að orði komast, er heldur dauf þessa dagana. Fyrir því eru ýmsar ástæður, en þeir aðilar á markaði sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við að undanförnu nefna helst tvo þætti sem vega þar þyngst

Það má flestum vera ljóst sem fylgjast með stöðunni á íslenskum hlutabréfamarkaði að stemningin, ef þannig má að orði komast, er heldur dauf þessa dagana. Fyrir því eru ýmsar ástæður, en þeir aðilar á markaði sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við að undanförnu nefna helst tvo þætti sem vega þar þyngst.

Annars vegar eru það háir vextir, sem iðulega draga úr áhuga fjárfesta á hlutabréfamarkaði. Það á við um fagfjárfesta sem og minni fjárfesta. Í einföldu máli má segja að nú þegar vextir eru háir binda fleiri vonir við betri ávöxtun á bankareikningum til skemmri tíma heldur en á hlutabréfamarkaði.

Hins vegar er markaðurinn svo gott sem þurrausinn vegna mikilla fjárfestinga stærri aðila í Alvotech, eins og áður hefur verið fjallað um hér og í öðrum vönduðum viðskiptamiðlum. Dæmi eru um að fjárfestar hafi þurft að losa um hluti sína, oft með ódýrum hætti, í öðrum skráðum félögum eftir að hafa skuldsett sig til að fjárfesta í Alvotech.

Alvotech er þó það félag sem hefur hækkað mest á árinu, en gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um 20% frá áramótum. Þá hafa bréf í Ölgerðinni hækkað um tæp 18% frá áramótum en ekkert annað félag kemst nálægt svo mikilli hækkun. Skel, Marel og Amaroq hafa hækkað á bilinu 3,2-3,8% en gengi bréfa í öllum öðrum skráðum félögum hefur lækkað. Gengi bréfa í Eimskip hefur lækkað mest, eða um 33%, en þá hefur gengi bréfa í Sýn lækkað um 23% og í Icelandair um 22% frá áramótum. Samanlagt markaðsvirði allra félaga hefur frá áramótum lækkað um á bilinu 57-60 milljarða króna, þegar tekið er tillit til arðgreiðslna og endurkaupa.

Það er sammerkt með þeim markaðsaðilum sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við að flestir þeirra gera ekki ráð fyrir auknum umsvifum á hlutabréfamarkaði fyrr en á næsta ári. Þá gefa sömu aðilar sér að vaxtalækkunarferli verði hafið og komið aðeins á leið. Undantekningin kann þó að vera ef, og líklegast þegar, Marel verður yfirtekið fyrir áramót en það gæti fært líf í hlutabréfamarkaðinn.