Yuliana „Dansinn er mín leið til að færa samfélaginu hér eitthvað af því sem ég ber með mér frá mínum bakgrunni og úr annarri menningu.“ Hér dansar hún með borðana og síða hárið.
Yuliana „Dansinn er mín leið til að færa samfélaginu hér eitthvað af því sem ég ber með mér frá mínum bakgrunni og úr annarri menningu.“ Hér dansar hún með borðana og síða hárið. — Ljósmyndir/Elvar Örn Egilsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Að vinna að þessu verki hefur verið heilmikil áskorun, sérstaklega vegna veðurs, það reyndi á taugarnar, og ítrekað kom eitthvað upp á,“ segir Yuliana Palacios, mexíkósk listakona sem hefur búið á Íslandi frá árinu 2016, en…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Að vinna að þessu verki hefur verið heilmikil áskorun, sérstaklega vegna veðurs, það reyndi á taugarnar, og ítrekað kom eitthvað upp á,“ segir Yuliana Palacios, mexíkósk listakona sem hefur búið á Íslandi frá árinu 2016, en myndbandsinnsetning hennar, Hér á ég heima, verður sýnd á Listahátíð í Gerðarsafni 2.-16. júní. Í verkinu, sem er án orða, kemur Yuliana fram sem dansari úti í íslenskri náttúru og leikur með marglita borða. í kynningu á verkinu segir að hún „kafi í það hvernig við festum rætur og búum okkur heimili í nýju umhverfi. Listakonan dregur upp innilega og hjartnæma mynd af ferðalagi innflytjandans; viðleitninni til að aðlagast og finnast hún eiga heima í framandi landi. Verkið leikur á allan tilfinningaskalann á djúpan og næman máta og er áhrifamikil hugleiðing um þrá manneskjunnar eftir því að tilheyra.“

Yuliana segir að borðarnir leiki stórt hlutverk í myndbandsverki hennar.

„Það skiptir mig miklu máli að nota borðana, því þar er ég að vinna með myndlíkingar. Borðarnir standa fyrir allar mínar minningar, hefðir, reynslu og þekkingu, allt það sem ég kom með í farteskinu frá Mexíkó hingað til Íslands. Þetta er allt sem ég á og allt sem ég get gefið. Í mexíkóskum menningararfi er til persóna sem kallast Tiliche, en hún klæðist búningi sem gerður er úr mörgum litlum efnisbútum. Ég er með einhverjum hætti að reyna að endurskapa þessa persónu í verki mínu, Hér á ég heima. Þessi persóna stendur líka fyrir hluti sem hafa tilfinningalegt gildi. Ég notaði borðana, síða hárið og rætur mínar heiman frá suðrænu Mexíkó til að endurfæðast með einhverjum hætti og tengja mig við nýjar rætur mínar hér á Íslandi í norðri, mitt nýja heimaland.“

Vissi nánast ekkert um Ísland

Yuliana flutti til Íslands fyrir átta árum, með íslenskum kærasta sínum, sem nú er eiginmaður hennar.

„Hann er Akureyringur og við kynntumst á Kúbu þar sem hann var í námi en ég var þar í skiptinámi sem dansari. Við urðum ástfangin og vorum saman í nokkur ár áður en ég ákvað að prófa að flytja hingað í norðrið. Ég vissi í raun ekkert um Ísland þá og ég vissi ekkert við hverju ég mætti búast. Til að byrja með var þetta hræðilega erfitt fyrir mig, mér líkaði það alls ekki og ég var mjög einangruð, því þá talaði ég mjög takmarkaða ensku og auðvitað enga íslensku. Það er ekki auðvelt fyrir utanaðkomandi að aðlagast íslensku samfélagi og mér fannst ég alls ekki hluti af því. Ég lærði sjálf ensku og núna tala ég líka íslensku, sem skiptir auðvitað miklu máli, til að geta haft samskipti við fólk. Ég var heppin að fá strax vinnu við danskennslu á Akureyri og nemendur mínir þar voru duglegir að kenna mér tungumálið, auk þess að vera félagar mínir og mitt nýja tengslanet,“ segir Yuliana og bætir við að þegar hún flutti til Íslands þá hafi hún ekkert vitað hvernig kerfið hér virkar fyrir útlendinga sem sækjast eftir landvistarleyfi.

„Kerfið er mjög þungt fyrir manneskju sem kemur ekki frá Evrópu eða Schengen-svæðinu. Við hjónin mættum miklu skrifræði, reglum og flækjustigum, jafnvel þótt við værum gift. Þetta var erfið reynsla fyrir mig og mér finnst mjög sorglegt að sjá hversu forréttindablint samfélagið er hér á Íslandi. Ég mætti rasískum viðhorfum, sem er hræðileg tilfinning, að finnast ég vera minna virði sem manneskja en aðrir vegna þjóðernis míns og litarafts.“

Hefur lært mikið af erfiðu ferli

Yuliana tekur fram að nú, átta árum síðar, sé líðan hennar og aðstæður allt aðrar og betri, henni líði vel og hún eigi sína fjölskyldu hér og góða vini.

„Ég byggði mig upp í gegnum listasenuna, þar skapaði ég samfélag í kringum mig. Dansinn var mitt tæki til að tengjast öðru fólki og samfélaginu. Ég bauð fólki að koma og njóta þess sem ég skapaði, á dansviðburði, og fólk var mjög viljugt að mæta, sem var afar dýrmætt fyrir mig. Dansinn er líka mín leið til að færa samfélaginu hér eitthvað af því sem ég ber með mér frá mínum bakgrunni og úr annarri menningu. Ég er hamingjusöm núna og ég elska Akureyri, en þetta var mjög erfitt ferli að fara í gegnum, að fá að vera hluti af íslensku samfélagi. Af þessu hef ég þó lært svo mikið, sérstaklega um það að aðlagast, og hversu áríðandi er að hitta annað fólk og vera virk. Ég er þakklát fyrir að hafa gengið í gegnum þetta allt, það var dýrmæt erfið reynsla, og nú hef ég tækifæri til að tala fyrir aðra með verkum mínum. Hér á ég heima er óður minn til allra innflytjenda á Íslandi, táknrænn gjörningur. Ég var með sýningu með sama titli hér á Akureyri, en ákvað að taka þetta á annað stig með því að gera þessa myndbandsinnsetningu.“

Yuliana hefur frá því hún flutti til Íslands unnið sjálfstætt að eigin verkum en líka átt í samstarfi við annað heimafólk.

„Ég hef lengi unnið með sama hópi fólks að ólíkum verkefnum og núna er ég í meistaranámi í sviðslistum við Listaháskóla Íslands og kann mjög vel við mig þar. Að lokum vil ég segja: Mín einkunnarorð eru: „I come from the south, I am made of maíz, I belong here,“ sem á íslensku gæti útlagst: Ég kem úr suðrinu, ég er gerð úr maís, ég tilheyri hér.“