Þau gerast varla stærri, íþróttakvöldin á Íslandi, en þetta miðvikudagskvöld. Á tíunda tímanum í kvöld fer í það minnsta einn Íslandsbikar á loft, á Hlíðarenda, og í kjölfarið gæti sams konar stund runnið upp á Varmá í Mosfellsbæ

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þau gerast varla stærri, íþróttakvöldin á Íslandi, en þetta miðvikudagskvöld.

Á tíunda tímanum í kvöld fer í það minnsta einn Íslandsbikar á loft, á Hlíðarenda, og í kjölfarið gæti sams konar stund runnið upp á Varmá í Mosfellsbæ.

Valur og Grindavík mætast í oddaleik um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta klukkan 19.15 á Hlíðarenda.

Þetta er þriðja árið í röð sem við fáum slíka dramatík í mótslok í körfuboltanum og alltaf er Hlíðarendi vettvangur oddaleikjanna.

Í Mosfellsbæ tekur Afturelding á móti FH klukkan 19.40 og þar þarf Afturelding sigur til að knýja fram oddaleik í Kaplakrika næsta sunnudag.

FH-ingar verða hins vegar Íslandsmeistarar í kvöld ef þeir vinna leikinn en þeir náðu undirtökunum eftir gríðarlega spennu í þriðja leiknum á heimavelli á sunnudagskvöldið.

En hvers vegna láta þessi tvö stóru sérsambönd, KKÍ og HSÍ, stærstu viðburði tímabilsins rekast á?

Hvers vegna hafa þau ekki samráð um að spila þessa mikilvægu leiki sitt hvort kvöldið í stað þess að keppa um athygli fjölmiðla og áhorfenda?

Vissulega fylgja flestir sínu félagi og áreksturinn hefur ekki teljandi áhrif á aðsóknina. En mikið fleiri fylgjast með leikjunum í gegnum fjölmiðla og þar dreifist athyglin.

Svo ætti auðvitað að vera bannað að vera með þessa leiki á miðvikudagskvöldi, eina deginum í vikunni sem Morgunblaðið fer snemma í prentun og nær ekki einu sinni að segja frá þeim!